16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

61. mál, sementsverksmiðja

Gísli Jónsson:

Ég verð að segja, að mig undrar sú stirfni, sem fram hefur komið hjá form. iðnn. að vilja ekki taka þetta mál til frekari umr. í n. Í fyrsta lagi er honum fullkomlega ljóst, að ég hef af eðlilegum ástæðum ekki getað verið við þessar umr. og því ekki fengið tækifæri til að ræða þetta stóra fjárhagslega mál við n., og mér þykir það of mikil stirfni að neita að taka málið aftur til umr. í n., svo að mér gefist kostur á að ræða brtt. við n. og geti gefið þar út sérstakt nál. Og ég skil ekki, hvaða meðferð svona mál á að sæta yfirleitt, þar sem ekki er hér um að ræða stjórnarandstöðu í málinu. Í öðru lagi vil ég benda á, að í þessari hv. d. hefur hæstv. ráðh. ekki sýnt þessu máli þann áhuga, að hann hafi sagt um það eitt einasta orð, þetta stóra mál, sem heimilar ríkissjóði fyrst og fremst að staðbinda án fullkominnar rannsóknar 15 millj. kr. fyrirtæki og þess utan að gera ráðstafanir til þess að halda því áfram. Mér er ekki heldur kunnugt, að hann hafi verið kvaddur til viðtals við n., svo að ég held, að meðnm. mínir samþykki þetta alveg út í bláinn. Þeir hafa raunar rætt um þetta við þann tekníska aðila, sem ríkisstj. hefur falið þetta, en engan veginn getur talizt trúanlegur í þessum efnum og þess utan tæplega heilbrigður á sönsum, eftir framkomu hans að dæma, en ég skal nú snúa mér að sjálfu frv.

Samkv. 1. gr. frv. er talað um heimild til ríkisstj. að láta reisa við Önundarfjörð verksmiðju með fullkomnum vélum og öðrum nauðsynlegum útbúnaði til vinnslu sements. Ég tel, að það sé óvarlegt á þessu stigi málsins að ákveða, að staðurinn skuli vera Önundarfjörður. Ég vil hafa það opið, til þess að skemma ekki frv. Þó að það sé samþ. þannig, að ríkisstj. heimilist að láta reisa verksmiðju með fullkomnum vélum, þarf ekki á þessu stigi málsins að ákveða, að það skuli vera Önundarfjörður, og skal ég færa fyrir því nokkur rök.

Í fyrsta lagi teldi ég mjög óviðeigandi, ef það á síðara stigi málsins kæmi í ljós, að heppilegra væri að reisa verksmiðjuna annars staðar, því að þá væri mjög slæmt að vera búið að setja ný l. um að reisa hana á ákveðnum stað. Það kveikir að sjálfsögðu miklar vonir, þar sem ákveðið er með l., að slíkt fyrirtæki skuli reist af ríkinu eins og sementsverksmiðja, sem kostar 15 millj. Ég sé ekki, að nein nauðsyn sé að ákveða staðinn á þessu stigi málsins, og mun ég því leggja til, — ekki við þessa umr., því að ég bjóst við, að ég fengi að ræða þetta í n., heldur við 3. umr., — að þessu verði breytt.

Þá stendur í 2. gr., þar sem talað er um, að ríkisstj. heimilist að taka 15 millj. kr. lán: „Sementsverksmiðjan skal ávaxta og endurgreiða slil; lán“. Það er nú nokkuð líkt Egilsstaðasamþykkt þetta hér, þar sem talað er um, að verksmiðjan „skuli“ gera þetta, en ekki talað um það í möguleikaformi.

Í þriðju gr. er sagt, að ríkisstj. skuli heimilt, ef samkomulag næst ekkí um kaup á landi vegna byggingar sementsverksmiðjunnar, að taka eignarnámi lóðir og lendur, svo og mannvirki, sem á lendum þessum eru. Þetta tel ég mjög óheppilegt að hafa í frv. á þessu stigi málsins. Ég tel miklu heppilegra, eins og ég gat um áðan, að fastbinda ekki, hvar staðurinn á að vera, og setja þar inn, að ríkisstj. muni leita samkomulags um kaup á þessum löndum áður en staðurinn er ákveðinn, og það skuli ekki ákveðið fyrr en gengið hefur verið frá þeim samningum, hvar verksmiðjan skuli vera. Við vitum, hvernig þetta hefur gengið. Það varð að fresta framkvæmdum um höfn í Njarðvíkum fyrir það eitt, að ekki var hægt að ná samkomulagi, en það stóð í l., að ekki mætti byrja á framkvæmdum fyrr en samkomulag hefði náðst, en af því að það var ákveðið, að höfnin skyldi byggð í Njarðvíkum, komst ríkissjóður ekki að sömu kjörum um þetta land og ef það hefði verið búið að ákveða þetta.

Ég skal fara hér nokkrum orðum um það. hvers vegna ég tel, að frekari rannsókna þurfi við í sambandi við það, hvar staðsetja eigi verksmiðjuna. Það hefur verið talað um 3 staði í þessu sambandi: Önundarfjörð, — sem mest er haldið fram hér —, Patreksfjörð og Brjánslæk. Það hafa verið athugaðir nokkrir aðrir möguleikar, sem sérfræðingurinn telur þó ekki, að komi til greina, en ef til vill eru til aðrir staðir á landinu, sem til greina gætu komið í þessu sambandi, en alls ekki hafa verið athugaðir. Ég skal ekki fara út í það, en bendi á, hvað sagt er um þessa staði hér, t.d. Vatnsfjörð: „Um sandinn við Vatnsfjörð má segja það, að þótt hann nálgist að vera nægilega hreinn til portlandsementsiðnaðar, og þótt þar séu nokkrir möguleikar til að byggja vatnsorkuver ....“. Ég vil sýna, hve partískuleg þessi grg. er. Sannleikurinn er, að það liggur fyrir, að á Vestfjörðum er líklega um að ræða einhvern líklegasta staðinn, þ.e. á Brjánslæk, eftir því sem mér hefur skilizt á raforkuráði og raforkumálastjóra, en þessi ungi verkfræðingur leyfir sér að segja: „ ... þótt þar séu nokkrir möguleikar“, sem sýnir, að hann hefur farið þarna á miklu hundavaði.

Svo segir hann: „ ... er sigling á fjörðinn mjög ótrygg“. Ég veit ekki annað en þetta sé vitleysa, en siglingin sé fullkomlega örugg, og ef allur undirbúningur undir frv. og niðurstöður eru byggðar á þessu líkum ummælum, er ekki við góðu að búast.

Sérfræðingurinn segir, að sandurinn sjálfur liggi fyrir opnu hafi. Ég veit ekki, hvernig þeir. sem til þekkja á þessum stöðum, ættu að geta fallizt á, að þetta hafi við neitt að styðjast, því að það er miklu skemmra beint til hafs frá botni Önundarfjarðar en frá Vatnsfjarðarbotni. — Sérfræðingurinn segir, að byggðarlagið sé mjög fámennt. Það er rétt. En á að hverfa frá því að velja staðinn, ef aðrar aðstæður eru þar betri. þó að byggðarlagið sé fámennara? Hér er ríkiseign, svo að ríkið þyrfti hvorki að kaupa landið né sandinn, en verður auðvitað að gera hvort tveggja, ef það er tekið úr einkaeign. — Ég vil líka benda á, að það er allt annað vetrarríki á Brjánslæk eða við Önundarfjörð. Hins vegar kann að vera, að það hafi ekki áhrif á reksturinn, en ég vil bara benda á það. Frost og snjór og byljir hafa kannske engin áhrif á rekstur verksmiðjunnar, en það væri mjög nauðsynlegt að fá það upplýst.

Um Patreksfjörð segir hér: „Patreksfjarðarsandurinn, sem er að jafnaði 85% skel, og svarar til um 79% af kalki af glæddu efni, mætti nota að viðbættum kísilsýruríkum steinefnum. Hafnaraðstæður norðanvert í firðinum má gera sæmilegar .... . Þetta hlýtur að vera samið fyrir löngu, því að nú er í þann veginn verið að ljúka því að gera hafnaraðstæður þar sæmilegar. Sérfræðingurinn segir enn fremur, að landrými sé takmarkað fyrir verksmiðju. Það viðurkenni ég, og mér er ekki kunnugt um, hvort mætti hafa verksmiðju við þá höfn, sem nú er verið að gera á Patreksfirði. Hins vegar er það, að sá sandur. sem hér um ræðir, er allur eign ríkisjarðar, því að það er Sauðlauksdalur.

Annars vegar fullyrðir þessi sérfræðingur, að undirbúningi varðandi Önundarfjörð sé engan veginn lokið, en hins vegar vill hann þó ákveða þann stað. Mér finnst allt benda til þess, að þetta þurfi að athuga nánar.

Hér á bls. 6 segir hann meðal annars: „Með samanburði á ofanskráðum efnagreiningum og efnahlutföllum portlandsements sést, að við Patreksfjarðarsandinn verður að bæta kísilsýruríku steinefni, en í Önundarfjarðarsandinn vantar meira kalk“. Hann finnur engan stað, þar sem nota megi sandinn án þess að gera eitthvað við hann, nema Brjánslæk; þar þurfi að hreinsa hann lítils háttar. Hann segir einnig á bls. 9: „Það sem lýst hefur verið hér að framan, hefur að vísu aðeins verið framkvæmt á rannsóknarstofu ....“. Hér er því aðeins um lítið magn að ræða. og það, að hann tekur þetta fram, sýnir bezt, að hann þorir ekki að taka ábyrgð á því, að svona verði þetta í framkvæmd. Hann segir: „Takist að hreinsa hráefnin þannig á auðveldan hátt, má þegar fullyrða, að fáar sementsverksmiðjur búi yfir betri hráefnum en sementsverksmiðja við Önundarfjörð“. Væri nú ekki eðlilegt, að þessi rannsókn yrði látin fara fram rækilega, áður en sett væri upp 15 millj. kr. fyrirtæki, — hvort það tækist að hreinsa þessi efni eins og gert er ráð fyrir?

Ég hygg, að þetta sé nægilegt til að sýna, að það er sjálfsagt, þótt frv. verði samþ., sem ég er ekki á móti, að fella úr því ákvæðið um ákveðna staðsetningu verksmiðjunnar, heldur eigi að hafa þetta alveg opið. Vísa ég þar til raka, sem ég hef áður flutt hér í þessu sambandi.

Þá vil ég benda á í sambandi við 4. gr., þar sem talað er um atvmrh., að setja í stað þess orðs orðið „ráðh.“, og fylgir þetta þá þeim ráðh.. sem fer með þessi mál eftir verkaskiptingu ráðh. á hverjum tíma. Það er orðin venja í hverjum einstökum l. að taka ekki beint fram nein ákveðin ráðuneyti, því að á því getur orðið breyt. frá ári til árs, hvaða rn. hafa með hin ýmsu málað gera, og sannleikurinn er sá, að mér finnst þetta mál miklu fremur heyra undir iðnmrh.. því að hér er um hreint iðnaðarmál að ræða, en ekki landbúnaðarmál. — Sama er að segja um 6. gr., að þar þyrfti einnig að breyta til samræmingar og setja inn „ráðh.“ í stað „atvmrh.“.

Ég mun einnig gera till. um gerbreytingu á 7. gr. Tel ég algerlega rangt, hvernig ráðgert er að koma fyrir opinberum gjöldum, sem verksmiðjan á að greiða samkv. þessari gr. Ég tel, að svona fyrirtæki, sem rekið er af ríkinu að öllu leyti, eins og m.a. síldarverksmiðjur o.fl., en þó sérstaklega slíkt fyrirtæki sem hér um ræðir, eigi að borga ákveðinn veltuskatt í rekstrarsjóð ríkisins. Tel ég nægilegt, að hann nemi 1% af framleiðslunni ár hvert, og síðan ætti að skipta hæfilega öðrum gjöldum til sveifarsjóðs. Það er þegar auðséð og viðurkennt, að löggjafinn síðustu árin hefur sveigt inn á þá leið að fara inn á opinberan rekstur, sem er algerlega skattlaus til ríkisins og að miklu leyti til bæjar- og sveitarsjóða, og þótt þetta fyrirtæki eigi að verða rekið af ríkinu, þá er vafalaust, að slíkt fyrirtæki eigi að greiða rekstrargjald til ríkisins. Það þyrfti ekki að vera hátt, og teldi ég 1% af ársframleiðslunni vera hæfilegt og auk þess hæfilega háa upphæð til sveitarsjóðs. Mun ég bera fram brtt. um þetta á síðara stigi málsins.

Ég tel, að einnig þurfi að gera breytingar á 8. gr. og setja inn „ráðh.“ í stað „atvmrh.“ til samræmis við hinar gr. frv.

Ég mun svo ekkí ræða frv. frekar á þessu stigi málsins, en vil vænta þess, að form. og frsm. n. fallist á, að það sé eðlilegt að taka málið aftur til þess að sjá, hvort ekki sé unnt að ná samkomulagi um það. Sömuleiðis vildi ég heyra úrskurð hæstv. forseta, hvort honum fyndist þetta ekki eðlileg meðferð, en ef svo væri ekki, þá væri slíkt einkennileg stirfni um svo stórt mál sem hér er á ferðinni.