18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

61. mál, sementsverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Áður en ég sný mér að þessum umr., vil ég leyfa mér að lesa upp bréf Haralds Ásgeirssonar, verkfræðings, sem hann hefur ritað mér og óskað, að hér kæmi fram vegna ummæla hv. þm. Barð. við 2. umr. þessa máls, og er það á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna ummæla, sem þm. Barð. bar fram í þingræðu í Ed. í sambandi við 2. umr. um frv. til l. um sementsverksmiðju, þykir mér hlýða að bera fram eftirfarandi aths.:

Þm. lýsti yfir því, að hann væri búinn að margræða þetta mál við mig, og auk þess búinn að þaulkynna sér fskj. með frv. Sé þetta rétt, ætti slík gagnrýni þm. ekki að hafa komið fram.

Mér veittist sá heiður að ræða þessi mál við þm. að afloknu þ. í maímánuði í fyrra. Ég tók það þá fram við hann, að mér þætti óaðgengilegt að birta öll smáatriði rannsókna minna og útreikninga í fylgiskjali með þingfrv. Hins vegar upplýsti ég þm. um ýmsa þá annmarka, sem við Tómas Tryggvason jarðfræðingur töldum á því að reisa arðvænlegan sementsiðnað við Vatnsfjörð, Patreksfjörð, Tálknafjörð eða Bíldudal. Sumt af þessu virðist nú því miður gleymt, og leyfi ég mér hér með að svara gagnrýni þm., sem beint var að staðarvali okkar Tómasar.

Það, sem átt er við með því að segja, að Vatnsfjarðarsandurinn „nálgist það að vera nægilega hreinn“, í grg. okkar (bls. 5 í þskj.), er, að hann nálgist að vera nógu kalkríkur. Efnahlutföll leirefnanna og kísilsýrunnar eru hins vegar þannig, að ekki mundi verða hjá því komizt að bæta hann upp með kísilríkum efnum. Við Brjánslæk er enginn skeljasandur. en hinn umræddi sandur er á útfiri (aðallega) í kringum Sauðanes, 2 km fyrir utan Brjánslæk, og má teljast vera fyrir opnu hafi fyrir öllum vindáttum nema norðlægum.

Hvað viðvíkur gagnrýni á rannsóknum okkar varðandi hafnarskilyrði og aðrar aðstæður á Patreksfirði, má henda á, að hér hafa fleiri dæmt um. Í „dönsku skýrslunni“ frá 1936 segir svo á bls. 19: „For det förste vil der ikke være muligt at finde en egnel Grund í Nærheden af Sandet hvor man vil kunne lægge Fabrikken. Patreksfjord er nemlig í hele sín Længde omgivet af Klipper, der stiger næsten lodret op af Vandet. Dernæst findes der ingen Ler der í Nærheden, og da navnlig ikke Ler, der indeholder tilstrækkelig meget Kiselsyre.“

Í áætlun minni er gert ráð fyrir, að kostnaður við bryggjugerð og ræsalagnir muni verða um 1100 þús. kr. Þetta er byggingarkostnaður, en sennilegt er, að sementsverksmiðja á Patreksfirði mundi þurfa að bera nokkurn kostnað af viðhaldi og rekstri Vatneyrarhafnarinnar, auk þess kostnaðar, sem væri fólginn í því að fyrirbyggja eyðingu fiskiðjunnar á staðnum. Og svo þyrfti verksmiðjan að horfa yfir fjörðinn eftir hráefnum.

Hvað viðvíkur því, að tillögur þær um hreinsun hráefnanna, sem birtar eru í grg., séu aðeins framkvæmdar af okkur Tómasi, þá skaf bent á, að ég hef skýrt iðnn. Ed. frá elektromagnetiskri aðgreiningu, sem gerð hefur verið fyrir okkur af Dings Magnetic Separator Co. í Milwaukee, og kvoðuþvottaaðgreiningu, sem F. L. Smidth & Co. í Kaupmannahöfn hafa framkvæmt. Báðar þessar aðferðir lofa góðu.

Önnur gagnrýni á niðurstöðum mínum var veigalítil og verður því ekki svarað hér fremur en persónulegum óvirðingum þm. í minn garð.“

Þetta vildi ég láta koma hér fram eftir ósk Haralds.

Að öðru leyti verð ég að segja það, að mig undrar nokkuð afstaða hv. þm. Barð. eins og málið liggur nú fyrir. Hv. þm. ræddi um það við mig og einnig við 2. umr., að hann legði megináherzlu á, að þessi staður væri ekki lögbundinn, og ég tók það fram, að fyrir mér væri það ekkert atriði. Ég sagði honum, að meiri hl. iðnn. hefði komið sér saman um að taka staðarákvæðið út úr frv., og að ég mundi fyrir mitt leyti sætta mig við það. Og þá gat ég ekki betur skilið en hann væri ánægður með það og að hann mundi láta frv. fara í gegn án nokkurra annarra breyt. af hans hendi. En það segir sig sjálft, að einhver verður að hafa heimild til þess að staðsetja verksmiðjuna. (GJ: Það getur næsta þing gert). Ég hélt, að það hefði verið einlægur vilji hv. þm. að flýta fyrir þessu máli, en ef hann vill leggja aðaláherzluna á þetta, fæ ég ekki betur séð en að hann vilji tefja fyrir málinu og hann ætlist til, að eitthvert þing einhvern tíma geri þetta. Hv. þm. vill kannske, að ákvæði verði sett í frv. um það, að hv. þm. Barð. verði falið að ákveða verksmiðjunni stað! En úr því að atvmrh. hefur með þetta mál að gera, þá sýnist það ekki óeðlilegt, að hann í samráði við verksmiðjustjórn ákveði henni stað, því að það verður einhver að gera, og ég geng aldrei inn á að skiljast svo við þetta frv., að ekki sé á einhvern hátt séð fyrir því, hver eigi að gera það. Þetta mundi tefja málið um eitt ár, ef enginn hefði vald til að velja verksmiðjunni stað, og ég tel því útilokað að afgreiða frv. eins og hv. þm. Barð. leggur til.