11.03.1948
Sameinað þing: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

129. mál, fjárlög 1948

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti. Á þskj. 480 hef ég leyft mér að koma fram með brtt. um, að komið verði upp athugunarstöð og uppeldisskóla fyrir börn. Í l. um vernd barna og unglinga er svo ráð fyrir gert, að slík heimili skuli koma upp, þegar fé er til þess veitt á fjárl. Í því fjárlfrv., sem hér liggur fyrir, er ekkert um þetta og heldur ekki á brtt. Þetta getur tæplega stafað af gleymsku hjá fjvn., þm að hjá fjvn. liggur fyrir till. til þál., sem flutt var í Sþ. af nm. í heilbr.- og félagsmn., um að undirbúa stofnun slíkra heimila. Flm. þessarar till. eiga allir sæti í heilbr.- og félmn. og standa óskiptir að henni, en nú hefur fjvn. ekki afgr. þessa till. enn þá. Má vera, að hún hafi ekki fundið náð fyrir augum þeirra, en hvað sem því liður, þá vil ég samt freista að fá samþykkta þessa fjárveitingu. Þetta er allt of lítið fé, en þó er ég ekki viss um nema 300 þús. kr. fari langt til þess að koma upp athugunarstöð, hún er ekki svo stór. Sérstaklega gæti það dregið úr kostnaðinum, ef henni væri komið upp í sambandi við sjúkrahús. En uppeldisheimilið yrði auðvitað miklu dýrara og þá betra að dreifa kostnaðinum á fleiri ár. Um þörfina fyrir þessa stofnun ætla ég ekki að fjölyrða; það er stutt síðan á það var minnzt hér á Alþ., þegar till. sú, sem ég nefndi áðan, kom fram, og auk þess hafa alþm. séð skýrslu barnaverndarráðs og lesið hana. Ég vil aðeins geta þess, að um leið og þeim börnum fjölgar, sem hjálparþurfi eru á þessu sviði, verður alltaf erfiðara að finna dvalarstaði fyrir þau á sveitaheimilum, en það hefur verið til þessa eina úrræðið, sem barnaverndarráð hefur átt. Auk þess er líka óheppilegt að koma börnunum fyrir á prívatheimilum, því að þau vilja strjúka þaðan.

Ég vil geta þess, að þessi brtt. mín er flutt samkvæmt tilmælum barnaverndarnefndar Rvíkur, en í henni eiga sæti fjórir sjálfstæðismenn, tveir sósíalistar og einn alþýðuflokksmaður, og hefur n. farið þess á leit við heilbr.- og félmn. Nd., að hún flytti þá till., sem ég nefndi áðan, og er þeirri n. mjög umhugað um, að þessi hæli komist sem allra fyrst upp. Ég vil treysta því, að Alþ. sýni þessu máli fullan skilning og sjái sér fært að samþykkja þessar smáu upphæðir, sem gætu þó gert mikið gagn.