23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

129. mál, fjárlög 1948

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það voru ekki svo lítil tíðindi, sem hæstv. fjmrh. (JJós) flutti okkur fyrir skammri stundu. Hann sagði: ný stefna er mörkuð, stefna viðnáms gegn vaxandi útgjöldum. — Og hæstv. ráðh. sýndi fram á, hvernig þessi nýja stefna kæmi fram. En hún er sú, að það á að spara 600 þús. kr. Ja, það er ekki búið að gera það, en það á að gera það, segir hæstv. ráðh. Það á að leggja niður nokkrar nefndir og þannig spara þessar 600 þús. kr., en á sama tíma ætlar ríkisstj. að setja á laggirnar fjárhagsráð og viðskiptanefnd, sem mun kosta um 4 millj. kr. Og svo er stefnan mörkuð, og þannig á að spyrna fótum við vaxandi útgjöldum. Það eru sparaðar eða það á að spara 600 þús. kr., en 4 millj. kr. er fleygt.

Ég ætla svo ekki að eyða fleiri orðum út af ræðu hæstv. fjmrh. Hann hefur á glæsilegan hátt lýst stefnu ríkisstj. Klækir og ráðleysi er yfirskriftin yfir hennar stefnu og starfi.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að hæstv. samgmrh. Hann minntist á þær markvissu öfgar, sem eru í tollamálum og hv. 2. þm. S-M. hafði gert að umtalsefni. Hæstv. ráðh. var í vandræðum. Hann sagði: Að vísu hefur stj. lagt á tolla og það verulega háa tolla, en þeir eru bara svo dásamlega gerðir, að þeir koma ekki niður á almenningi, því að þeir eru aðeins lagðir á óþarfa varning. — Samkvæmt þeirri kenningu er óþarfi að ganga í fötum. Það er nýstárleg kenning, að byggingarefni og fatnaður heyri undir óþarfa og snerti ekki almenning, þó að þær vörur hækki í verði.

Þá kemur söluskatturinn. Hv. 2. þm. S–M. var að tala um, hvernig Framsfl. hefði með hnúum og hnefum barizt gegn sams konar skatti fyrir 2 árum. Því var að vísu haldið fram af Framsfl., að þessi skattur væri nokkuð annars eðlis en eldri söluskatturinn, því að áður var gert ráð fyrir, að þessi kæmi fram í vöruveltu, en nú eiga verzlanirnar sjálfar að borga hann. Áður var þetta að dómi Framsfl. gífurlegur skattur á kaupfélögin, en nú kæmi hann niður á kaupmönnum. En hæstv. samgmrh. vildi ekki leyfa samstarfsflokki sínum að búa lengi í þessu skjóli. Hann lýsti yfir, að í raun og veru væri skatturinn tekinn af verzlununum, þannig að álagning á vörur væri lækkuð sem næst því, sem skattinum nemur. Þetta mun rétt vera. En ég verð að segja, að slík ráðstöfun virðist til þess gerð meðal annars að láta Framsfl. drekka bikar smánarinnar í botn og láta hann þannig kingja hverju einasta orði, sem hann hefur flutt út um alla byggð landsins út af söluskattinum fyrri. Nú stendur hann með ánægju að framkvæmd þessa skatts, sem í öllum meginatriðum er nákvæmlega eins, að einu undanskildu, að hann er lítið eitt hærri.

Þá segir hæstv. ráðh., að það sé nú verið að undirbúa alveg nýjar reglur um úthlutun innflutningsleyfa, og eigi nú að koma þar á nýrri skipan í reglugerð í samræmi við loforð ríkisstj. Ég hef haft þá ágætu aðstöðu til þess að heyra formann fjárhagsráðs tala um þessar nýju reglur. Hann sagði, að það mætti skilja þær svona og það mætti líka skilja þær hinsveginn og það mætti skilja þær á marga vegu, og svo las hann upp nokkrar greinar þessarar reglugerðar, sem hann sagði, að segðu bókstaflega ekki neitt um það, hvernig ætti að framkvæma þetta starf.

Já, vinna fyrir alla, sagði hæstv. ráðh. enn fremur. Ríkisstj. hefur efnt loforð sitt, sem hún gaf, þegar hún tók við völdum. En má ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvaða vinnu ætlaði ríkisstj. þeim þúsundum manna, sem í vetur hafa unnið að því að veiða síld uppi í Hvalfirði og gera hana að markaðsvöru? Það er alveg víst, að ef þetta óvænta happ með síldveiðina í vetur, sem náttúran sjálf hefur fært til okkar, hefði ekki átt sér stað, þá hefði ekki orðið um atvinnu að ræða, sem ríkisstjórnin hefði gert ráðstafanir til, heldur hefði orðið algert atvinnuleysi í Rvík og víðar um land.

Það er sýndarleikur og glæfraspil, sagði hæstv. ráðh., þegar verkalýðurinn fer fram á kauphækkanir. Fyrir ári síðan var það blátt áfram glæpur. Í ár er það sýndarleikur og glæfraspil. Svo er því bætt við, að með því að verkalýðurinn fari fram á kauphækkun, þá sé verið með því að eyðileggja framleiðslukerfi þjóðarinnar. Verkalýðurinn hefur heyrt þessi orð áður. Frá upphafi síns vegar hefur hann heyrt þau. Verkalýðurinn hefur aldrei farið svo fram á kauphækkanir, að atvinnurekendur hafi ekki haldið fram, að með því væri verið að reyna að eyðileggja atvinnuvegi þjóðarinnar.

Hæstv. ráðh. lauk máli sínu með því að óska eftir, að þjóðin kynnti sér þessi mál. Ég tek undir þá ósk. Ég vil, að þjóðin kynni sér vel þessi mál, og ég vona, að hún hafi hlustað með mikilli athygli á orð þessara þriggja ráðh., sem talað hafa. Það má heyrast, að góð samvinna hefur verið innan stj. Það lítur helzt út fyrir. að þeir hefðu átt að geta komizt af með eina ræðu, og mér virðist það bera vott um, hvernig samkomulagið er á stjórnarheimilinu, að þrír ráðh. skuli þurfa að halda sömu ræðuna, sem var í höfuðatriðum á þessa leið: Kommúnistar eru ofbeldismenn, Rússar eru ofbeldismenn, og þeir sýna yfirgang í Tékkóslóvakíu, og það er verið að farga frelsi Finnlands. — Þetta var höfuðinntak í ræðum þessara þriggja ráðh., vissulega með margvíslegum tilbrigðum. Ég skal nú víkja að nokkrum einstökum atriðum í ræðum þessara hæstv. ráðh., og byrja ég þá á ræðu hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. er mjög háttvís maður, og hann talaði alveg sérstaklega þannig við þetta tækifæri. Hann notaði sem sé tímann til þess að ráðast með sínum venjulegu stóryrðum að hv. þm. Siglf., Áka Jakobssyni. Ég ætla ekki að rekja það mál ýtarlega hér, því hafa verið gerð skil. En þessi hæstv. ráðh. sagði, að það væri búið að gera upp reikninga fyrir flugvöllinn 1946, og niðurstaðan væri ekki glæsileg. Þar væri um halla á þriðju millj. kr. að ræða. En hvernig er þetta gert upp? Það er þannig, að teknar eru með til útgjalda allar endurbætur á öllum flugvöllum landsins og allir styrkir til flugnáms og annað slíkt. Sem sé, dæmið er gert upp á sama hátt og þann, ef svo væri t.d. gert um vegamál okkar, að það fé, sem færi til endurbóta á vegum, yrði þannig fært út, og svo sagt, að þetta sé fals og svindl hjá vegamálastjóra.

En úr því að svo mjög er talað um framlag undir fyrrv. hæstv. atvmrh., Áka Jakobssonar, hversu þær hafi verið dýrar, væri þá ekki rétt, að hæstv. dómsmrh. segði okkur um hitaveituna, hvað þær framkvæmdir hefðu kostað, og um vatnsveituna og þá ekki sízt um eimtúrbínustöðina, sem átti að kosta 8 millj., en er nú komin upp fyrir 20 millj. kr. Þetta er ráðsmennska, sem er að skapi hæstv. ráðh. Þarna eru þeirra menn, sem standa að verki. Og svo gæti hæstv. ráðh. sagt okkur eitthvað um það, hvaða heimild hann hefur til þess að taka 90 þús. kr. — eða vel það — til þess að klastra við sumarbústað handa sér og sínum samráðh. á Þingvöllum. Þetta væru líka upplýsingar, ef um þær mætti tala.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um verkalýðshreyfinguna. Hann sagði, að hún hefði orðið fyrir miklum hnekki sér til vansa. Og hún hefði þegar, fyrir óheillaáhrif kommúnista, útilokað sig frá verkalýðshreyfingu Norðurlanda með því að kjósa mann úr Sósfl. sem forseta Alþýðusambandsins. Hvílíkt lýðræði, ef íslenzkir verkamenn kjósa Hermann Guðmundsson, en ekki Sigurjón Á. Ólafsson, þá er búið að vera með það! Og að þá skuli vera sagt, að íslenzkir verkamenn geti ekki átt neina samleið eða samstarf við verkalýðshreyfingu á Norðurlöndum! En meðan Alþfl. mátti sín í þessari hreyfingu, þá höfðu Alþýðuflokksmenn einir rétt til umboðsstarfs, og þannig er hugsunarhátturinn enn. Þannig er lýðræðið, að aðeins ef Alþfl. á Norðurlöndum ræður verkalýðshreyfingunni, þá er hægt að hafa samstarf. Svo er sagt, og náttúrlega af þeim sömu aðilum, að verkalýðshreyfingin á Norðurlöndum hefði skilið, að ekki mátti gera kröfur til atvinnulífsins, það yrði að stilla þeim í hóf, til þess að forðast verðbólgu og dýrtíð í landinu. Verkamenn hafa heyrt þetta fyrr. Ólafur Friðriksson heyrði það, og Sigurjón Á. Ólafsson heyrði það, þegar hann á sínum æskudögum barðist fyrir verkalýðshreyfinguna. En það má víst ekki minnast á það, hvernig hæstv. forsrh. og hans flokkur á Norðurlöndum hefur nú algerlega hafnað öllum sínum fyrri stefnumálum og gengið í lið með auðvaldinn og afturhaldinu.

Um variasjónir hæstv. menntmrh. ætla ég ekki að segja mörg orð. Þær voru eitthvað á þessa leið: tap, aftur tap. — En þessi maður hefur árum saman verið ráðh. — og alltaf tap, ekkert annað en tap. Það eru alltaf erfiðleikar, alltaf vandræði og alltaf eymd í kringum þennan mann. Og það er orðið svo í mínum huga, að það eru tvö hugtök þar samstundis, og man ég aldrei svo annað, að ekki komi hitt í huga, og það er: Eysteinn og eymdin.

Svo ætla ég að gefa ykkur upplýsingar, sem getið er um í grein í Tímanum í dag. Þar segir: „Þegar 400 þús. kr. heimanmundur var fluttur vestur um haf á einn bretti, steinþagði Þjóðviljinn. Þegar faktúran fannst í tunnunni, steinþagði Þjóðviljinn.“ Tíminn hefur sjálfur upplýst, að það var hæstv. núv. fjmrh. (JJós), sem kom þessum 400 þús. kr. undan vestur um haf. Tíminn. málgagn Framsfl., talar mikið um þessar falsanir og framkomu kommúnistanna í því sambandi, en hæstv. ráðh. Framsfl., Bjarni Ásgeirsson, hallar sér nú upp að ráðh. með faktúruna í tunnunni og virðist vera ánægður. Það má segja: Sælir eru einfaldir.

Ræða hæstv. dómsmrh. snerist mikið um hann sjálfan. Hann byrjaði að segja: Kommúnistar hata mig. Í vetur sagði hann: Kommúnistar hlæja að mér. Nú segir hann: kommúnistar hata mig svo mikið, að þeir eru jafnvel vondir við hann Svein bróður minn líka. Svo segir hæstv. ráðh.: Sigfús Sigurhjartarson flutti till. um að afnema vínveitingar í opinberum veizlum, en Molotov heldur drykkjuveizlur austur í Moskvu. — Svona talar hæstv. dómsmrh. En ég álít, að þótt þessi maður hafi átt erfitt með að fylgja eftir leikfélögum sínum í sínu ungdæmi, þá þurfi hann ekki að vera haldinn af þeirri minnimáttarkennd, sem síðar hefur skapað honum ofsóknarbrjálæði. Hann kom víða við og sagði sögur.

Hann sagði t.d. sögu um einn forsrh. í friðsömu ríki, sem við höfum haft vingott við, sem hefði sagt það við sína þm., að ef þeir samþ. ekki þetta frv., yrðu þeir allir drepnir. Nú langar mig að spyrja: Hvernig stendur á þessu? Hvað hefur gerzt? Það er verið að tala um Tékkóslóvakíu. Hvað hefur gerzt þar? Það hefur gerzt þar, að þar var samsteypustjórn allra flokka. Hún ætlaði að halda blönduðu skipulagi, þar sem kapítalisminn ríkti ásamt öðrum öflum. Svo skeði það, að meiri hl. stj. vildi ganga lengra inn á braut þjóðnýtingarinnar. Þeir vildu stíga það spor til fulls. Aðrir ráðh. voru ekki á sama máli. Meiri hl. myndaði stjórn, og sú stj. er studd af yfirgnæfandi meiri hl. þings. líkur stuðningur og stj. Stefáns Jóhanns hefur á þingi Íslendinga. Svo eru spunnar upp sögur um, að það eigi að fresta kosningum. Hver veit það? Ég veit ekki betur en að hér hafi einu sinni verið gegn stjskr. frestað kosningum í heilt ár, og ekki man ég til þess, að Tékkar sýndu okkur neinn samúðarvott. Það eru að gerast átök milli auðvaldsins og sósíalismans. Í Tékkóslóvakíu var einhver Hallgrímur Benediktsson, sem seldi sement og vildi græða, en þjóðin sagði: Það er rétt að þjóðnýta þetta fyrirtæki. — Þar var líka S. Árnason & Co., sem ef til vill geymdi faktúrur í tunnu. Ég veit ekki, hvort fjmrh. þar hefur verið í því fyrirtæki. Þetta hefur gerzt þar, og hver veit nema andstaða þeirra Hallgríms Benediktssonar, S. Árnasonar og Co. og Völundar Tékkóslóvakíu, sem hefur verið aðalhluthafinn í Morgunblaðinu þar, hafi verið svo hatrömm, að það hafi þurft að beita þá harðari tökum en æskilegt hefði verið? Nú hefur það verið svo, að öll átök í heiminum hafa skeð með meiri og minni hörku.

Svo er það Marshallhjálpin. Lítum á það. Í Ameríku hefur verið mesta auðvaldsskipulag heimsins. Þar er geysileg framleiðsla, og framtíðarframleiðslan er svo mikil, að það er engin leið fyrir þjóðina að nota sér þá framleiðslu alla. Það eru afleiðingar kreppunnar. Ameríka veit þetta vel. Hún er að reyna að vinna markaði og bjarga sér. Hún ætlar að lána- stórkostlegar fjárfúlgur til annarra þjóða. til þess að þær kaupi vörur frá Ameríku. Íslendingum eru boðnar 30 millj. dollara, sem er kringum 250 millj. kr. Fyrir það eigum við að kaupa amerískar vörur, skv. 10. § 6. tölulið um Marshallhjálpina, og fyrir þetta eigum við að leggja til hliðar jafnháa upphæð hér heima, sem við megum ekki ráðstafa, nema með samþykki Ameríkana, og af þessu eigum við að gjalda skatt um ókominn tíma.

Því miður er tími minn búinn. Íslenzka þjóðin er hugsandi, og ég vona, að hún taki sér tíma til þess að hugsa um það, sem er að gerast í heiminum, og þá er ég sannfærður um, að hún stendur með sósíalismanum, en ekki með því auðvaldi, sem nú situr í ráðherrastólum á Íslandi.