15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér skilst, að hæstv. ríkisstj. sé að leitast við að firra ríkissjóð útgjöldum með breyt. l. þeirra, sem hér um ræðir. En ég bjóst við meiru. Á sama hátt mætti krukka í ýmis önnur l. En tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er það að ræða um 4. gr. Eins og útlitið er nú í landinu, þá er nú búið eða verið að stofna til fyrirtækja, sem þurfa fimm sinnum meira fólk en kemur á vinnumarkaðinn á ári hverju, og taka þessi fyrirtæki mikið fólk frá bændum. Afleiðingin verður svo sú, að þeir bændur, sem búa á lökustu jörðunum, fara í nýja atvinnu og yfirgeta jörð sína. Þess vegna er það spurning út af fyrir sig, hvort hyggilegt sé að leggja milljónir kr. í nýbýli meðan svo háttar sem nú, — hvort ekki eigi að biða í nokkur ár með framlög til nýbýla. — 3. gr. fjallar hins vegar um lán til húsbygginga. Þar er þörfin mjög aðkallandi og svo aðkallandi, að það þolir enga bið. Það hefur verið mjög erfitt um vik að fá lán til nýrra bygginga, og hafa bændur oft orðið að leggja mjög hart að sér og safnað miklum lausaskuldum, er þeir hafa ráðizt í byggingar. Hvað viðvikur ræktunarsjóðnum, þá er lánsþörf hans sízt minni en til íbúðarhúsa. Hann þarf að geta tekið það stökk, að bændur geti aukið svo bú sín og borið úr býtum þær tekjur, sem þeir þurfa til þess að auka ræktunarlönd sín. Landbúnaðurinn þarf að fá fullkomin grunnlán, og það þarf að skaffa byggingarsjóði 5 millj. kr. og afla ræktunarsjóði 10 millj. kr. stofnfjár. Þetta er mjög aðkallandi, því að það vantar mikið á það, að hægt sé að fullnægja lánsþörfinni til húsabygginga, útihúsa og frystihúsa. Hér vantar fé engu síður en til stofnlánadeildar sjávarútvegsins. Það þarf á einn eða annan hátt að útvega fé, svo að hægt sé að halda áfram endurbyggingarstarfinu í samræmi við breytta atvinnuhætti. Ef hæstv. ríkisstj. er að reyna að auka möguleika manna, má hún ekki einungis hugsa um lán til sjávarútvegsins. Hún verður að gera sér ljóst, að þörf landbúnaðarins í þessum efnum er jafnvel meiri en sjávarútvegsins. Það er því þó a.m.k. svo þar, að hver maður, sem ræðst í að reisa nýtt fjós, af því að hann ætlar að hafa 10 kýr í stað fjögurra áður, og hver maður, sem reisir íbúðarhús, verður að láta sér lynda að fá lánað ekki nema 50% af því, sem þarf í bygginguna, og hann hefði að óbreyttum l. fengið að láni, meðan lánað er 100% til bátanna, þegar með eru teknir víxlar, sem ríkissjóður hefur keypt af kaupendum bátanna. — Ég hygg, að vel sé hægt að sætta sig við ákvæðin gagnvart 4. gr. En af 13. gr. mátti ekki skera.