09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. frsm. n. (GJ) gat þess, að við sumir nm. hefðum áskilið okkur rétt til þess að greiða atkv. móti vissum atriðum í þeim till., sem n. var annars að mestu leyti sammála um, brtt. á þskj. 670. Þetta er alveg rétt, og sá eini fyrirvari, sem ég hafði fyrir því að fylgja þeim brtt., snertir aðeins einn lið, sem sé 3. liðinn, sem er um það að tryggja sjóðnum minnst 4 millj. kr. í árstekjur. Þegar fundur stóð í morgun, var ég ekki alveg ráðinn í því, hvort ég ætti að flytja við þetta brtt., en við nánari athugun vildi ég freista þess að færa þennan tekjuöflunarlið í sama horf og hann var í í upphaflega frv. Þegar hv. þm. Barð. bar fram brtt. við þá gr. frv., sem tekjuöflunarhliðina snertir, — en það var 6. brtt. hans, — var brtt., með 3 undirliðum, borin upp í einu lagi. Af því réð ég það, að það væri ekki alveg víst, að allir, sem greiddu brtt. atkv., væru fyllilega sammála öllum liðunum. Þess vegna hef ég nú ráðizt í að bera fram þessa brtt., sem ég tel vera leiðréttingu til bóta, þó að áður væri búið að samþ. þennan lið með hinum liðunum, þegar greidd voru atkv. um brtt. í heilu lagi. Í frv., eins og það er nú, er ákveðið 1/2% innflutningsgjald af verðmæti allra innfluttra vara og einnig, að ekki megi bæta því við söluverð varanna. Hér er verið að leggja þetta gjald á vissa stétt í landinu, og fyrir þeirri ákvörðun sé ég ekki hina minnstu sanngirni. Ef fært þykir að leggja gjöld á þessa stétt, sem vel getur verið, en um það vil ég ekkert segja, þá finnst mér, að það ætti að gera það eftir öðrum leiðum, en í sambandi við tekjuöflun til þessa sjóðs. Að afla tekna til vissra framkvæmda með gjaldi á vissar stéttir í landinu finnst mér alveg forkastanlegt og hef aldrei getað sætt mig við það. Þess vegna hef ég borið fram þessa brtt. Um hana þarf ekki mörg orð, því að þetta hefur verið rætt við 2. umr. málsins. Ég býst við, að öllum hv. dm. sé ljóst, hvað ber hér á milli, og geti tekið afstöðu til till., án þess að fjölyrt sé um hana. Mér virðist sjálfsagt, að sameiginlegur sjóður þjóðarinnar allrar styrki þennan hlutatryggingasjóð, en ekki að hann sé lagður á, á þann hátt, sem frv. ber með sér. Auk þess mundi þetta valda ómaki við álagningu varanna, að þurfa að bæta þessu gjaldi við öll þau gjöld, sem fyrir eru og eru í mörgum liðum, snertandi innflutning og tolla. Að undanskildu þessu eina atriði í brtt. á þskj. 670 er ég þeim samþykkur og mun greiða þeim atkv.