10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

195. mál, Marshallaðstoðin

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég sé ekki ástæðu til, að við séum að halda áfram þessari umr. öllu lengur. Væri sjálfsagt hægt að halda áfram í alla nótt á svipaðan hátt og við höfum gert hingað til. Skal ég því láta mér nægja að fara örfáum orðum um það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði í sinni síðustu ræðu. Hv. þm. minntist fyrst á viðskiptajöfnuð okkar við Bandaríkin. Hann mótmælti ekki því, sem ég hélt fram, að þessi viðskiptajöfnuður hefði af ýmsum ástæðum allt frá því löngu fyrir stríð verið okkur óhagstæður, vegna þess að við hefðum ekki getað selt nema mjög lítið af því, sem við hefðum haft til að selja, af ástæðum, sem ég hef áður rakið. Hins vegar vildi þm. halda fram, að allmikið af þessum vörum væri hægt að fá annars staðar frá, og nefndi í því sambandi kornvörur. Kornvörukaup frá Bandaríkjunum hafa takmarkazt mjög, um leið og okkur opnuðust leiðir annars staðar. Ég held ég fari rétt með það, að yfirleitt kaupum við ekki verulegt af kornvörum þaðan, nema hveiti, og kannske einhverjar fóðurvörur. En aðrar kornvörutegundir fáanlegar í Evrópu hafa verið keyptar þaðan. Hins vegar er ekkert leyndarmál fyrir þessum hv. þm., að ýmsar iðnaðarvörur eru hvergi í heiminum fáanlegar betri eða hagkvæmari en einmitt frá þessu landi. Frá Evrópulöndum hafa alls ekki fengizt sumar vörur af sama tagi og þær frá Ameríku. Þetta hefur gert það að verkum, að við höfum einungis verið færir um að fá þennan innflutning okkar afgreiddan með þeim fjármunum. sem við höfum fengið gegnum Marshallstofnunina, bæði í einu formi og öðru. Ég skal í þessu sambandi geta þess, að af þeim 25 þús. tonnum, sem á þessu ári hafa verið flutt til landsins frá Bandaríkjunum, eru um 17 þús. og 300 tonn vörur, sem hafa verið greiddar með Marshallfé. Og þegar frá eru teknar þær vörur, sem beinlínis eru til Keflavíkurflugvallarins, nemur þetta um 80% af öllum þeim innflutningi, sem við höfum fengið á þeim tíma frá Bandaríkjunum. Þetta sýnir, hve þessi viðskipti hefðu verið erfiðari viðfangs, ef við hefðum ekki haft þessa möguleika til að styðjast við. Í sínum stórpólitísku hugleiðingum hélt hv. þm. því fram, að þessi Marshallaðstoð væri nokkurs konar „kalt stríð“ móti auðstéttum Vestur-Evrópu. Skildist mér hann og hans flokkur vera í hörðum bardaga á móti slíku, aðallega til þess að vernda auðstéttir Vestur-Evrópu, svo ólíklega sem það hljóðar. Verður hver að dæma, sem vill, um einingu þessara aðila.

Hv. þm. kvað hæstv. utanrrh. hafa haldið því fram fyrir nokkru, — ég ætla að það hafi verið áður en umræður fóru að hefjast verulega um þátttöku okkar Íslendinga í Marshallstofnuninni og framkvæmdir í því sambandi, þ.e. á árinu 1947, að við mundum verða þar veitandi, en ekki þiggjandi og mundum ekki koma til með að þurfa að þiggja neinar gjafir þaðan. En á þeim tíma, þegar þessi ummæli féllu, ætla ég, að ekki hafi verið farið að vinna að þeim stórfelldu áætlunum um verklegar framkvæmdir, sem einmitt liggja fyrir nú og þessari aðstoð er ætlað að standast kostnað af. Ég hygg ummæli ráðh. hafi fallið á þá lund, að við mundum ekki þurfa að taka við þessu til venjulegrar neyzlu, þess vegna hefði stj. verið ákveðin í að nota þetta fé ekki í þeim tilgangi, heldur festa það til sérstakra framkvæmda, sem gert væri ráð fyrir í áætlun. Þessi ummæli ráðh. geta því að mínu víti fyllilega staðizt.

Þá hélt hv. þm. fram, að það væri nýtt, að þeim sósíalistum væri borið á brýn, að þeir óttuðust, að efnahagsafkoman yrði betri. Ég hélt fram, að þessi andstaða móti Marshalláætluninni væri þess vegna fram komin, enda ekki aðrar skýringar nærtækari, en að þeir geri þetta til þess að torvelda efnahagsviðreisn Evrópu, að berjast gegn Marshalláætluninni. Og þó að það sé svo, að hv. þm. og hans flokkur hafi barizt fyrir háu kaupi, þurfa ekki alltaf að vera samfara því endurbætur á afkomu almennings. Baráttan fyrir hækkuðu kaupi hefur þvert á móti verið höfð sem yfirvarp til „agitationar“ og til þess að örva verðbólguna, sem sannarlega verður ekki til að bæta afkomu almennings í landinu. Ég hygg það sama vaki í þessu máli fyrir þessum hv. þm. og fyrir flokksbræðrum hans erlendis.

Um Landsbankann þarf ég ekki að fjölyrða. Engin tilmæli hafa komið til ríkisstj. í þá átt, sem hv. þm. spurði um. En ég fyrir mitt leyti vil halda fast við þá skoðun, sem ég lýsti, að það sé fullkomlega heilbrigt og ekki vitlaus hagfræðileg kenning að greiða niður skuldir við bankana. Það er gefið, að eftir því sem meiri peningar eru í umferð, án þess að raunverulegir fjármunir séu á bak við, verður það fyrst og fremst til þess að auka verðbólguna í viðkomandi landi. Það er vitanlega stefna hv. þm. og hans flokks, að það sé gert og það í ákveðnum tilgangi. En slíkur tilgangur vakir ekki fyrir stj., að fyrst og fremst séu peningarnir í umferð. (Einhver: Svo að stj. er kannske að auka verðbólguna fyrir kommúnista!) Ekki hefur hún gert það og ekki með því að draga fé úr umferð, til þess að fjármunirnir, sem eru í umferð, og raunverulegt verðmæti svari betur hvort til annars.

Um það, að hernaðarbandalagið hafi verið sett í samband við veitingu þessarar aðstoðar, get ég einungis sagt það, að mjög greinilega var fram tekið, þegar um þátttöku í Atlantshafsbandalaginu var að ræða, að við værum algerlega sjálfráðir, hvort við tækjum þátt eða ekki. Ekki var með einu einasta orði reynt að hafa áhrif á okkur, né heldur veit ég til, að slík orð hafi fallið annars staðar. Enginn „þrýstingur“ eða „pressa“ var notuð til þess að knýja okkur. Ákvörðunin var tekin af fúsum og frjálsum vilja og án þess að á nokkurn hátt væri sett í samband við Marshalllögin.

Þetta ætla ég að láta nægja um það, sem hv. þm. sagði.