13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

195. mál, Marshallaðstoðin

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég ræddi nokkuð við 2. umr. og nú áðan um það, að ég væri hræddur um, að Landsbankinn mundi gera kröfur til að fá upp í skuldir eitthvað af því fé, sem yrði til hliðar vegna hins óafturkræfa framlags samkv. Marshallaðstoðinni. Hæstv. viðskmrh. sagði um þetta, að ríkissjóður hefði ekki tekið lán hjá Landsbankanum með annað fyrir augum en greiða þau aftur og ef svikizt væri um það, þá mundu einstaklingar þjóðarinnar telja, að skapað væri fordæmi og sigla í kjölfar ríkissjóðs. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að Landsbankinn er eign ríkisins, stofnaður samkv. l. frá Alþingi í þeim eina tilgangi að sjá um, að atvinnulíf Íslendinga geti gengið sem bezt. Landsbankinn er engin gróðastofnun, heldur er seðlabankinn að sínu leyti eign ríkisins eins og ríkissjóður, og stjórn hans á að hafa það eitt sjónarmið, að atvinnuvegir þjóðarinnar geti staðið í eins miklum blóma og hægt er á hverjum tíma. Ef bankinn væri í einstaklingseign, væri skiljanlegt, að hann væri rekinn frá öðrum sjónarmiðum. Þá væri eðlilegt, að stjórnendur hans vildu geta bent á sem mestan arð af rekstrinum og lagt sem mest til hliðar. En það, sem Alþingi heimtar af Landsbankanum, er það, að hann sýni blómlegt atvinnulíf, sýni að öll fyrirtæki, sem rekin eru í þágu þjóðarinnar, gangi vel og að allt vinnuafl sé hagnýtt til hlítar og á sem skynsamlegastan hátt. Þess vegna er það alveg óhjákvæmilegt, að við lítum á seðlabankann öðrum augum, en á hvert annað hlutafélag, en bankastjórar hans og fjöldi hv. þm. virðist líta á hann sem prívatbanka, sem reka eigi með hag bankans fyrir augum, en ekki hag þjóðarinnar. Ef hitt á að ráða, hvað bankinn geti grætt mikið á ári, þá er það skammsýnt sjónarmið. Hitt er það, að þau takmörk, sem bankanum eru sett, mega ekki fara út í öfgar, eins og hv. þm. V-Húnv. virtist gleðjast yfir, ef létta mætti af öllu stjórnarliðinu öllum áhyggjum fjármálaöngþveitisins, svo að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. gætu farið heim til sín frá öllu vafstrinu og vísað á Landsbankann. En þau takmörk, sem ber að setja útlánastarfsemi Landsbankans, eru fullnýting alls vinnuafls þjóðarinnar við skynsamlegan og arðbæran atvinnurekstur. Það er á valdi Landsbankans að hafa lánsfjárþensluna svo mikla, að allt vinnuafl þjóðarinnar sé nýtt til fulls, og það vita allir, sem til þekkja, að þegar hefur átt að koma á sósíalisma í kapítalistísku þjóðfélagi, þá er það stræka fjármagnsins, sem hefur eyðilagt slíkar tilraunir. Þannig fór í Englandi á tímum verkamannastjórnarinnar 1930-31 og sömuleiðis í Frakklandi, þegar franski bankinn strækaði á Blumstjórnina 1936. Þegar stjórnir ætla að framkvæma áætlunarbúskap, þá þurfa þær að hafa algert vald yfir fjármagninu, en þá strandar venjulega á seðlabankanum, hvort sem hann er í eigu einstaklinga eða undir stjórn þeirra manna, sem reka ríkisbankann með gróðasjónarmið fyrir augum. Ríkið á Landsbankann og ætti að geta ráðið lánsfjárpólitík hans, og hún ætti vitanlega að vera í samræmi við vilja Alþingis. Það er skrípaleikur einn að tala um það að gera áætlanir um uppbyggingu atvinnulífsins, ef ekki er jafnframt knúinn fram sami viljinn í seðlabankanum. Þegar ríkið tekur lán hjá Landsbankanum, þá á auðvitað að borga þau aftur, en hve ört þau eru greidd, verður að fara eftir því, hver þörfin á framkvæmdum í atvinnulífinu er á hverjum tíma. Okkar þjóðfélag þarf á miklu lánsfé að halda, vegna þess að landið er minna byggt og minna á því gert en víðast hvar annars staðar. Þess vegna þurfum við mun meira lánsfé en aðrar þjóðir, sem eiga mörg hundruð ára gamlar byggingar og búa í löndum, sem eru byggð og ræktuð að miklu eða mestu leyti, og því verðum við að gera þá sérstöku kröfu til Landsbankans, að, hann reki sína pólitík þannig, að hægt sé að vinna að ræktun og byggingu landsins, og sé lánastarfsemi hans aðeins takmörkuð við það, að allt vinnuafl sé hagnýtt. Ef farið er með seðlaútgáfu og lánsfjárstarfsemi út yfir þau takmörk, þá skapast „inflation“ og efnahagsvandræði. En það dugir ekki, að Landsbankanum sé stjórnað með jafníhaldssöm sjónarmið fyrir augum og bönkum hinna þrautræktuðu og byggðu landa Vestur-Evrópu, t.d. Englands, þar sem 4/5 landsins er byggt, því að við þurfum aðra pólitík til þess að byggja upp okkar land, og ef bankastjórar Landsbankans skilja ekki þetta, þá eru þeir ekki færir um að veita atvinnulífinu þá hjálp, sem það þarf, og raunar hafa þeir oft sýnt sig ófæra um það. Það er ekki meining mín, að ríkissjóður svíkist um að borga Landsbankanum sínar skuldir, en ég geri þá kröfu og vil láta tryggja það, að bankinn sé rekinn með hagsmuni alþjóðar fyrir augum. Hitt er svo ekkert einsdæmi, að ríkið skuldi ríkisbankanum, eins og t.d. sænska ríkið, sem skuldar svo og svo mikið sínum banka, en þar er bara svo um hnútana búið, að sænska stj. hefur algert vald á seðlabankanum og getur lagt fyrir hann, hvaða stefnu hann eigi að fylgja í fjármálum. Það er alger misskilningur, ef menn halda, að bankastjórar Landsbankans séu þeir herrar, sem eigi að ráða fjármálastefnunni innanlands. Þar á Alþingi að ráða, og það er Alþingi, sem búið hefur bankann til. Ég legg áherzlu á það, að ég vil ekki, að ríkissjóður svikist um að borga sínar skuldir, en ég vil, að það sé fullkomlega á valdi ríkisstj., hve ört hann greiðir skuldirnar niður, og láti ekki Landsbankann hindra þýðingarmiklar framkvæmdir, eins og hann hefur gert. Ég veit, að Landsbankinn hefur lengi hindrað, að fé fengist til Sogsvirkjunarinnar, og það þýðir, að fjöldi fyrirtækja getur ekki verið í fullum gangi og við þurfum að kaupa mikið af dieselmótorvélum, sem brenna olíu og benzíni, svo að þetta kostar allt mikinn erlendan gjaldeyri, og ég veit, að ef þessari stefnu verður haldið áfram, sem nú gengur svo langt, að þegar er búið að skapa atvinnuleysi, þá verður þessi hraða niðurgreiðsla, sem Landsbankinn heimtar á skuldum, til þess að rýra enn afkomu þjóðarinnar, þannig að tekjur hennar minnka og þar af leiðandi verður tekjuskatturinn til ríkissjóðs minni, og þá er gripið til þess að binda vísitöluna, hækka benzínskattinn og fella niður kjötuppbótina.

Hæstv. viðskmrh. minntist á, að óþarfi væri að bera þetta mál aftur undir þingið, ef mín brtt. yrði samþ. Þetta er ekki að öllu leyti rétt, því að samkv. minni brtt. á Alþingi nú aðeins að ákveða höfuðstefnuna. Hins vegar á svo Alþingi eftir að samþ. ráðstafanirnar í hverju einstöku tilfelli.

Þá sagði hæstv. ráðh. eitt, sem ég vildi gera athugasemd við. Hann sagði, að engar ráðstafanir yrðu gerðar með það fé, sem á að leggja til hliðar, nema það verði áður borið undir Alþingi. Skildi ég þetta þannig, að hæstv. ráðh. vildi segja, að Landsbankanum yrði ekki greitt þetta, nema áður væri þetta borið undir Alþingi, en það er bara að ekki verði búið að ákveða þetta allt á bak við, áður en það er lagt fyrir Alþingi, og hægt er að gefa út bráðabirgðalög, sem eyðileggja það ákvæði, sem á að tryggja Alþingi umráð þessa fjár.

Þá verð ég að segja það, að svo framarlega sem sjónarmið hæstv. viðskmrh. og hv. þm. V-Húnv. ætti að gilda, þá nær það ekki neinni átt, að ríkið taki ekki gróðann af rekstri Landsbankans. Ef bankastjórarnir og hv. þm. álíta, að reka beri Landsbankann sem gróðafyrirtæki, þá verður ríkið auðvitað að taka gróðann af rekstri hans.

Landsbankinn hafði þannig um 40–50 millj. kr. gróða á þremur árum. Ef það á að fara að líta á hann sem einhverja prívatstofnun, þá er engin ástæða til að leggja ekki á hann skatta sem slíkan, svo drjúg mjólkurkýr sem hann mundi vera með slíkan ofsagróða.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. sagði, þarf ég þá ekki að segja meira, en það vil ég segja við hv. þm., sem kvarta undan því, að erfitt sé að fá fé til framkvæmda í kjördæmum þeirra, að ef þeir vilja, að fé sé fyrir hendi, svo að þeir geti fengið lán til slíkra framkvæmda, þá er betra fyrir þá að setja undir þennan leka, svo að það, sem ríkið kúskar inn af fé frá almenningi, verði ekki fyrst og fremst látíð í hít Landsbankans, heldur veitt út í atvinnulífið: Ef þeir vilja þannig efla lánsmöguleikana, þá hafa þeir tækifæri til þess nú með því að greiða atkvæði með brtt. minni. Það hefði verið unnt að verja happdrættispeningunum þannig að einhverju leyti, ef skilninginn á þessu hefði ekki skort; en það fékkst ekki, og menn ganga atvinnulausir í þess stað, og ekkert er aðhafzt. Hinu raunverulega verðmæti þjóðarinnar, vinnukraftinum, er fórnað á altari þessa skurðgoðs í fjármálalífinu, — því að þetta er skurðgoðadýrkun og hún dýr, þar sem menn eru hindraðir í hinum þjóðnauðsynlegustu framkvæmdum vegna tignunar á rammskakkri lánsfjárpólitík.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði nokkur orð um afstöðu sína til Marshallsamningsins. Ég hafði ekki farið út í hina almennu afstöðu til Marshallsamningsins vegna þess, hve ýtarlega ég ræddi það mál við 2. umr. Hv. 4. þm. Reykv. sá ekkert athugavert við að taka á móti framlögunum, ef þeim væri einungis varið eins og 2. gr. gerir ráð fyrir. Vissulega er betra að verja þeim eins og sagt er í 2. gr. en á einhvern annan hátt, en það haggar ekki því, að framlög þessi höfum við Íslendingar goldið dýru verði og munum gjalda. Það var ekki af neinum mannúðarhvötum, sem auðvald Bandaríkjanna kom Marshalláætluninni í framkvæmd, og það var engin tilviljun, að samningarnir um Atlantshafsbandalagið voru undirritaðir á ársafmæli Marshalláætlunarinnar. Atlantshafssamningarnir voru bein borgun á Marshallframlögunum. Og hafi einhver efazt um það hér á landi, þá gerðu Bandaríkjamenn okkur það eins ljóst og unnt var með því að tilkynna það öllum heimi, um leið og ráðherrarnir flugu vestur ósællar minningar, að við hefðum fengið 16 milljónir í gjafafé. Hitt skal svo viðurkennt, að það sýnir pólitískt sakleysi hv. 4. þm. Reykv., að hann hélt, að við kæmumst hjá endurgjaldinu, þótt við tækjum á móti framlögum. En betra hefði okkur verið að missa af þeim, en að þurfa að borga það, sem við höfum orðið að borga, — og vantar þó ekki, að við þurfum mikið að láta vinna í okkar landi, sem fé þarf til. En Ísland hefur ekki aðeins verið gert styrkþegi, heldur jafnvel mútuþegi. Hv. þm. V-Húnv. taldi, að við mættum skoða þetta fé sem nokkurs konar uppbót fyrir töp vegna stríðsins og hernámsins. En hinar fjárhagslegu bætur fengum við í gróða stríðsáranna, og hitt aftur á móti, sem við glötuðum í þjóðlegum verðmætum og sjálfstæði, það er svo fjarri því að það sé bætt með þessu gjafafé, að það er einmitt skert enn meir af þeim völdum.

Vegna ummæla hv. þm. Húnv. vildi ég spyrja hann einnar spurningar. Setjum svo, að hann ætti tvær sparisjóðsbækur, aðra í Landsbankanum og hina í Búnaðarbankanum og innstæðuna í bókinni í Landsbankanum mætti hann ekki snerta, en aðeins nota það fé, sem hann lagði inn í hina bókina; en svo þyrfti hann að byggja sér hús, og rétt um sama leyti tæki hann allt úr bókinni í Búnaðarbankanum og legði inn í bókina í Landsbankanum — og svo héldi hann að sér höndum og segði: Hvaða dæmalaus vandræði. Ég þarf að byggja hús, en ég hef enga peninga til þess. — Er það nú ekki nákvæmlega sama sagan, sem á að gerast með milljónirnar, sem nú er ætlunin að ausa í Landsbankann? Vissulega. Þetta er nú svona einfalt, og ef menn gætu skoðað það þannig, væri afleiðingin skynsamleg fjármálastjórn. En ef við flækjum okkur í hvers konar aukaatriðum, fer ekki vel. Og ég er hissa á því, að sumir hv. þm. skuli enn vera haldnir þessu óráði um Landsbankann, eftir að það hefur sýnt sig, að við höfum orðið að taka ráðin af Landsbankanum til þess að geta framkvæmt stærstu atvinnubyltingu, sem orðið hefur í þjóðlífi okkar. Þrátt fyrir það er haldið áfram að tigna þetta skurðgoð og þjóðin beygð dýpra og dýpra niður í atvinnuleysi og fátækt, á meðan Landsbankinn græðir æ meir. Hvers virði eru 85 millj. kr. í Landsbankanum, ef þær hafa kostað það, að allar atvinnuframkvæmdir í landinu hafa stöðvazt?