13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

1. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Ég vil út af því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði um tæknilegan útbúnað nýju togaranna, taka undir það, að langæskilegast hefði verið, að fiskimjölsverksmiðjur væru í þeim. En upplýsingar lágu fyrir frá þeim, er samninga höfðu með höndum, að það yrði alveg á valdi kaupenda, hvort þessar verksmiðjur yrðu í togurunum eða ekki, en líklega mundi verða erfitt að fá þær í Englandi. Hitt er svo alveg rétt, sem hv. þm. minntist á um þann mikla barbarismus, sem hjá okkur er í því að kasta mjög miklu verðmæti úr fiskinum í sjóinn. En þetta snertir hinn tæknilega útbúnað skipanna og þann áhuga, sem kaupendurnir hafa á því, hversu þau eru vel útbúin.

Ég vil vekja athygli hv. þm. V-Húnv. á því, að mér finnst gæta nokkurs misskilnings í aðaltill. á þskj. 691, þ.e.a.s. að heimila ríkisstj. að lána allt að 10% af kostnaðarverði skipanna. Ég er hræddur um, að þm. reikni með þeim möguleika, að hægt sé að lána út úr stofnlánadeild sjávarútvegsins eða annarri hliðstæðri lánsstofnun. Slík till. kom fram og var samþ. 1947 og kom þá að mjög góðu haldi, því að það lán kom þá til viðbótar við 75% úr stofnlánadeildinni. Nú mundi þetta verða enn erfiðara, því að þessi 10% hafa nú ekki baktryggingu hjá stofnlánadeildinni, og yrði því að sækja um lán til bankanna, og mundi það að öllum líkindum ganga mjög erfiðlega og alveg undir hælinn lagt, hvort það fengist. Eigi því að skapa öryggi fyrir bæjar- og sveitarfélögin, svo að þau geti keypt þessi skip, þá þarf að gera allt aðrar ráðstafanir, því að erfiðlega býst ég við, að þeim mundi ganga að útvega hin 90%, að Reykjavík og Hafnarfirði kannske undanskildum. Ég er því hræddur um, að þetta mundi þýða, að meginhlutinn af þessum skipum lenti hjá einstaklingum, sem annaðhvort hefðu nægilegt fjármagn eða lánstraust til að kaupa togarana, og mundi þetta því verða til þess að skapa meiri auð á einstakra manna hendur, í stað þess að bæjarfélögin ættu að fá þessi atvinnutæki. Ég vil því eindregið vekja athygli hv. þm. á því, að bæjarfélögunum er ekkert svipað öryggi skapað og 1947, nema samþ. séu mínar till.