02.11.1948
Efri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að standa upp hvað eftir annað til að andmæla hv. 1. þm. N-M. Það er eins og hann sé hertekinn af einhverri sótt, sem elnar, eftir því sem ég reyni að bera honum lyf og smyrsl og reyni að fá hann til að skilja eðli málsins. Ég verð alvarlega að mótmæla því, að með þessu sé stj. að spila á lægstu hvatir manna. Þetta er svo fáránleg staðhæfing, að ég er alveg hissa á, að hv. þm. skuli láta sér þetta um munn fara. Hvað leggja menn í hættu, sem kaupa þessi bréf? Þeir leggja það í hættu, að þeir festa peninga í 15 ár, vaxtalaust. Þeir hafa svo aftur á móti talsverð tækifæri, til að fá þessa peninga margfalda í happdrættinu, og í öllu falli verða vextir greiddir til einhverra þeirra, sem spilað hafa í happdrættinu. Áð meðaltali verða um 5% vextir greiddir. Ég er hissa á, að hv. þm. skuli láta sér sæma að halda fram staðhæfingum, eins og hann hefur gert, eftir að hafa þekkt málið frá öndverðu og eftir að reynt hefur verið að skýra það hér út. Það er á engan hátt unnið að öryggisleysi með þessari aðferð til að afla ríkissjóði lánsfjár og hvergi komið nálægt því að blekkja fólk eða hafa áhrif í þá átt að minnka öryggi þess. Ég verð að vísa þessum orðum hv. þm. á bug sem algerlega órökstuddum sleggjudómi, sem mér er erfitt að skilja, hvernig hefur orðið til í huga hans. En það skeður svo margt undarlegt á þeim bæ, og þetta er ef til vill eitt af því. Það væri líka ákaflega undarlegt, ef stjórn þjóðbanka landsins, sem beinlínis hefur ráðlagt ríkisstj. að fara þessa leið, hefði missýnzt eins hrapallega og vera mundi, ef réttur væri dómur hv. 1. þm. N-M. Ég hef heyrt marga mæta menn segja, eftir að þetta happdrættislán ríkisins fór af stað, að það væri mjög að þeirra skapi, og meira að segja hafa menn hvatt ríkisstj. að halda áfram á sömu leið, til þess að reyna að festa fé til framkvæmda í landinu, fé, sem annars fer víðs vegar, og festa það ríkissjóði til hagsbóta og eigendum þess til öryggis, því að það er öryggi í því, ef menn hafa of mikið fé milli handa, að binda það til ákveðins tíma í öruggu láni. Það er ekki öryggisleysi, heldur öryggisráðstöfun.