03.05.1949
Neðri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal ekki lengja umr. Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ekki hefði komið til mála að taka skemmtanaskattinn frá byggingarsjóði þjóðleikhússins, ef ekki hefði verið talið öruggt, að það, sem kæmi inn í sjóðinn 1947, mundi hrökkva fyrir byggingarkostnaðinum. Og þegar það kemur á daginn, að útreikningar byggingarnefndarinnar hafa verið rangir, finnst mér, að þm. hljóti að vera sammála um, að ekki sé hægt að láta þetta fyrirtæki gjalda þess, en vegna þess að búið er að setja löggjöfina, sé rétt að fara bil beggja og reyna að halda jafnhliða gangandi, meðan unnt er, þeirri starfsemi, sem sjóðnum er ætlað að standa undir.

Það hefði sjálfsagt getað komið til mála að haga þessu dálítið öðruvísi. Hefði verið hægt að fá hagkvæmt lán, sem hægt hefði verið að dreifa á lengri tíma, hefði verið hægt að láta sér nægja minni hluta af skattinum til þess að klára þetta. En það mál hefur nú verið athugað mjög gaumgæfilega og niðurstaðan orðið sú, að ómögulegt er að fá slíkt lán. Ég veit, að þarfir félagsheimilasjóðs eru mjög miklar, og það er síður en svo, að mér sé ljúft að skerða framlög til hans, en hér eru góð ráð dýr. Þjóðleikhúsið á fyrsta rétt til þessa fjár, við verðum að horfast í augu við það. Og ég geri ekki ráð fyrir, að þm., þegar þeir hafa áttað sig á þessu, þyki hlýða að láta húsið standa ófullgert enn um langa hríð og ónotað.