11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til fyrir mig að gera miklar aths. út af ræðum þeirra hv. 6. þm. Reykv. (SigfS) og hv. þm. N-Ísf. (SB). Við höfum ræðzt við um þetta mál í menntmn., og þótt n. standi saman í meginatriðum málsins, þá hefur að sjálfsögðu borið á góma ýmsar leiðir og sjónarmið, og er ekki nema eðlilegt, að þeir geri grein fyrir skoðunum sínum í d. um þetta mál.

Ég vil aðeins til skýringar út af því, sem kom fram hjá hv. þm. N-Ísf., að ekkert lægi fyrir um, hversu rekstur þjóðleikhússins yrði kostnaðarsamur og að enn væri langur tími til stefnu, taka fram, að samkv. brtt., sem menntmrh. flutti, er gert ráð fyrir því, að verði afgangur af rekstri þjóðleikhússins, renni hann í byggingarsjóð, unz byggingarkostnaður er að fullu greiddur. Er sá varnagli sleginn, til þess að ekki safnist upp innstæða hjá rekstrarsjóði, sem viðhaldið sé kannske ár frá ári, en á sama tíma sé tekið af framlagi félagsheimilasjóðs vegna byggingarkostnaðar þjóðleikhússins. Ég vil enn fremur benda á til skýringar, að það kom fram hjá n. af hálfu þjóðleikhússtjóra, að til þess að þjóðleikhúsið gæti orðið tilbúið til að hefja starfsemi, þyrfti að kaupa margháttaða muni, húsgögn o.fl., en þeir væru ekki taldir með í stofnkostnaði hússins, og yrði því kaupverð þeirra að færast sem rekstrarkostnaður, sem kæmi fram sem kostnaður á fyrsta ári og raunar ári fyrr en rekstur hússins hefðst.

Ég er að ýmsu leyti sammála hv. þm. Borgf. Ég get alveg tekið undir það, sem hann sagði, að það er í sjálfu sér hörmulegt, hvað illa hefur til tekizt að stjórna byggingu þjóðleikhússins og forræði þjóðleikhússjóðs. Ég harma það vissulega, að nú á þessu þingi þurfi að koma fram frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, og ég hygg, að um þetta sé ekki ágreiningur milli hv. þdm. En þrátt fyrir þetta þýðir ekki að ætla sér að neita staðreyndum. Við höfum fengið það glögglega skýrt, að staðreyndirnar eru þær, að það þarf enn a.m.k. 3 millj. kr. til að ljúka byggingu þjóðleikhússins, svo að það komist í það horf, sem fyrirhugað er og nauðsyn ber til. Og þá stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu: Hvað á að gera? Hvaða leiðir eru fyrir hendi til þess að ná því marki, sem nú er stefnt að og þarf að ná um byggingu þjóðleikhússins? Það má segja, að það væri eðlilegast og hendi næst að hætta við að fullgera þjóðleikhúsið. Ég hygg, að það mundi þó öllum þykja neyðarúrræði. Hér er um stofnun að ræða, sem gert er ráð fyrir, að kosti 13 millj. kr. Þar af hefur þegar verið dregið saman fé í bygginguna, sem nemur 10 millj. kr., og langmestur hluti þess er nú fastur í byggingunni. Ég held, að það sé því fullkomið neyðarúrræði, eins og nú er komið málum, að hverfa frá að fullgera húsið. Enn fremur hefur n. verið skýrt frá því, að efni sé nú pantað og að miklu leyti fengið til landsins í það, sem á vantar til að ljúka húsinu, en um það, sem á vantar, er búið að gera eða verið að gera samninga við erlend ríki, samninga, sem yrði þá að rifta, ef ekki væri séð fyrir tekjum til þess að ljúka við byggingu hússins. Ég hygg, þegar þetta er athugað hleypidómalaust, að öllum muni þykja það fullkomið neyðarúrræði að ætla sér að hverfa frá að fullgera þjóðleikhúsið.

Þá má segja, að það væri ekki óeðlileg leið, úr því sem komið er, þegar búið er að setja l. um skiptingu skemmtanaskattsins, að leggja fram fé í fjárl. beinlínis, sem þessari fjárhæð nemur, og greiða það, sem vantar til byggingar hússins á þann hátt. Sú leið gæti vissulega komið til álita. En það er svo, eins og hv. þm. vita, að nú þegar er meira en nóg hlaðið á fjárl., og mun því ekki þykja aðgengilegt að bæta þeirri fúlgu þar við, eins og málum horfir nú.

Þá er í þriðja lagi sú leið, sem komið gæti til álita, að taka lán, sem þessu nemur, til þess að fullgera húsið og breyta í engu til um þau l., sem nú eru í gildi um skiptingu skemmtanaskattsins. Lánsmöguleikar munu því miður vera mjög takmarkaðir, sérstaklega til langs tíma. En þó að lán fengist, sem þessari fjárhæð nemur, verður að sjálfsögðu að sjá fyrir að endurgreiða það á einhvern hátt. Nú er það alls kostar ótryggt, eins og málum er nú háttað, hvort rekstur þjóðleikhússins, þegar til kemur, skilar þeim arði, að hann gæti staðið undir afborgunum af slíku láni.

Þegar þetta er allt athugað, er ekki óeðlilegt, að það verði ofarlega í hugum manna, eins og till. liggur fyrir um hér, að hverfa að því ráði, þó að neyðarúrræði sé að vissu leyti, að taka nokkurn hluta af skemmtanaskattinum enn á ný til þess að fullgera þjóðleikhúsið. Og á þeirri hugsun er þetta mál byggt, sem við erum nú að ræða og hér liggur fyrir.

Ég viðurkenni fyllilega og tek undir það, sem fram kom hjá hv. þm. Borgf., að það hafi verið réttlætismál, sem um var að ræða, þegar l. 1947 voru sett um skiptingu skemmtanaskattsins og stofnun félagsheimila. Hv. þm. Siglf. (ÁkJ) drap á það, að slíka skiptingu hefði í raun og veru átt að gera miklu fyrr. Þetta má vel til sanns vegar færa. En samt vil ég minna á það, að ég held, að það hafi ekki komið fram fyrr en 1946 frv. hér á þingi um að taka skemmtanaskattinn af þjóðleikhússjóði og gera skiptingu, sambærilega skiptingu eða sömu skiptingu og gerð var hér á þingi árið 1947. Höfðum við þó báðir, ég og hv. þm. Siglf., setið á þingi frá 1942 án þess að láta okkur hugkvæmast þetta. Sýnir það nokkuð hug þm. um það, að eðlilegast væri, að þjóðleikhúsbyggingin gengi fyrir um þær tekjur, sem dregnar voru saman með skemmtanaskattinum. Og ég hygg nú, að ef ekki hefðu legið fyrir þær áætlanir og upplýsingar frá byggingarnefnd, sem fyrir lágu 1947 og því miður hafa nú ekki staðizt, heldur reynzt falskar, ef þær hefðu ekki legið fyrir, heldur verið búizt við, að það vantaði enn nokkra fjárhæð til þess að fá nægilegt fé í þjóðleikhússjóð, þá hygg ég satt að segja, að Alþingi hefði frestað þeirri löggjöf, sem sett var 1947, um eitt ár eða þangað til séð væri fyrir því, að þjóðleikhúsið gæti komizt upp. Ég hygg enn fremur, að sú álitsgerð og ummæli, sem stjórn félagsheimilasjóðs hefur látið falla í bréfi, sem n. var sent, séu einmitt byggð á þessu viðhorfi stjórnar félagsheimilasjóðs. Nú er því ekki að neita, að með þeim till., sem hér liggja fyrir, er skert allmikið framlagið til félagsheimilasjóðs. En þó að þær till. yrðu samþ., mun félagsheimilasjóður samt fá 700–900 þús. kr. árlega, ef skattstofninn rýrnar ekki frá því, sem verið hefur á árinu 1948. Og þó að þetta sé að sjálfsögðu of litið fé til að inna af hendi þetta nauðsynlega verkefni, sem sjóðurinn á að gera og mjög er aðkallandi, verðum við samt að gera okkur von um, að með þessu sé hægt að komast það langt áleiðis, að ekki þurfi til mjög mikils baga að verða fyrir byggingu félagsheimilanna, og enn er í því sambandi á það að líta jafnframt öðru, að fjárfestingarleyfi takmarka nokkuð, hvað hægt er að ráðast í margar og stórar byggingar af því tagi, eins og á öðrum sviðum þjóðfélagsins um þessar mundir.

Þegar málefni standa svo, eins og greinilega hefur verið skýrt af mér og öðrum, sem talað hafa í þessu máli, þá held ég, að ekki sé rétt af hv. þm. Borgf. eða öðrum að tala um ístöðuleysi menntmn., þó að hún brygðist svo við þessu máli sem hún hefur gert með því að flytja þær miðlunartill., sem fram hafa komið frá hálfu n., því að eins og málið stendur, var ekki góðra kosta völ.

Að lokum vil ég á það benda, að hér er stefnt að því marki að draga saman 3 millj. kr., sem renni til þjóðleikhússins, og þá er það vissulega álitamál, hvort hagkvæmara er fyrir félagsheimilasjóð og þá starfsemi, sem hann stendur undir, að taka mikinn hluta af skemmtanaskattinum í stuttan tíma eða minni hluta í lengri tíma. Ég segi, að þetta er nokkurt álitamál, sem hv. þm. verða að vega og meta hver fyrir sig, en niðurstaða n. varð sú að öllu athuguðu að fara þessa leið til að draga saman þær 3 millj., sem talið er, að vanti til að fullgera þjóðleikhúsið. Auðvitað er það svo, eins og fram hefur komið af hálfu annarra, að jafnvel þessi áætlun getur brugðizt, við getum ekki tekið ábyrgð á, að hún standist, en þetta er það gleggsta, sem við höfum nú til að byggja á, eins og málið liggur fyrir í dag.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en mun láta máli mínu lokið og ekki ræða þetta mál frekar, nema sérstakt tilefni gefist til.