12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

42. mál, fjárlög 1949

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það er satt að segja ekki árennilegt að eiga hér brtt., þótt réttmætar séu, og þurfa að mæla fyrir þeim, því að það minnir mig helzt á þegar riðið er út í mikið jökulvatn, þar sem hvergi sér í botn, og jafnvel þar sem hyljir eru, felast skrímsli, svo að allt er að óttast. En þó að maður viti, að hið mikla ákvörðunarvald um fjárl. sé dulið eða saman sett af miklu handahófi, þá koma menn með sínar till. í trausti þess að hv. þm. meti þær að verðleikum. hverja um sig og láti sanngirni og ekki annað koma til greina. Maður veit að vísu, að það eru réttmæt orð, að í mörg horn sé að líta, en hinu treystir maður, að hin gamla og góða regla, að til samræmingar sé litíð, komi þar til mats.

Við 2. umr. fjárl. lagði ég ásamt hv. 1. þm. Árn. fram 3 brtt. við fjárl., sem hann mælti fyrir, en varð samkomulag um, að við tækjum aftur til 3. umr., í trausti þess, að það mundi vera hagkvæmara til yfirlits, þegar þar væri komið. Um eina þessara till. hefur svo farið, að hún verður að öllu tekin aftur, var það till. um nokkurn byggingarstyrk fyrir Árnýju Filippusdóttur húsmæðraskólaforstöðukonu í Hveragerði, og kemur hún því eigi til greina aftur, þar sem komið hefur fram ný till. á þskj. 681, liður VIII, þar sem er einungis um heimild fyrir ríkisstj. að ræða til að greiða henni nokkurn byggingarstyrk og líka annarri slíkri forstöðukonu við Löngumýrarskóla í Skagafirði, sem líkt stendur á um. Nú er beðið um 25 þús. kr. styrk til hvors skólans um sig, og er það gert í trausti þess, að þessari nauðsyn verði fremur sinnt, þegar svo mjög er stillt í hóf upphæðinni. Ég vil af minni hálfu láta hv. þm. vita það, sem mörgum er kunnugt, að hvað Hveragerðisskólann snertir, þá hefur hann frá öndverðu verið rekinn af frábærum dugnaði af forstöðukonunni, þar sem hún hefur lagt allt kapp á að auka kennsluna. Það þarf ekki að bera því við, að ekki sé nóg aðsókn að skólanum, því að hann er alltaf fullur, og stúlkurnar, sem þar hafa verið, bera skólanum bezta orð og hafa sjálfar tekið góðum framförum um að nema nytsama hluti til lífsstarfsins. Þetta hefur verið fjárfrekt, en eldlegur áhugi forstöðukonunnar hefur ráðið þar öllu til að geta fullnægt þörfinni, en fjárþröng er þar fyrir hendi, og er því nauðsynlegt, að þetta verði skilið og leyst. Ég þykist vita, að um Löngumýrarskólann sé svipuðu máli að gegna. Þó að við þm. Árn. séum flm.till. um Hveragerðisskólann, þá eru það fleiri en Árnesingar, sem þar koma til greina, ekki sízt af Suðurlandi, úr Rangárvallasýslu, Skaftafellssýslu og sjálfsagt víðar að, svo að þetta er víðtækur menningarskóli, þótt hann eigi grunn sinn á þessum stað. Þetta er einungis heimild fyrir ríkisstj. og því í rauninni sjálfsagt að samþ. hana.

Ég vil þá minnast á IX. till. á þskj. 681, sem ég er flm. að ásamt hv. 1. þm. Árn., samþm. mínum, það er líka heimildartill. Hún er um það að gefa þeim Ásólfi og Stefáni Pálssonum eftir áfallinn en ógreiddan veitingaskatt vegna gistihúss þeirra á Ásólfsstöðum. Þetta veitingahús var byggt af örtröð gesta á sínum tíma, það starfar ekki nema tvo sumarmánuðina, en hina 10 mánuðina er ekkert hægt að gera við það, það er helzt svolítill gestareytingur um helgar, sem kemur til greina á sumrin, og þetta hús hefur því enga möguleika til að geta borið sig. Ég geri ráð fyrir að margur mundi kannast við til samanburðar, að þarna sé líkt komið um afstöðuna og mundi vera með gistihúsið í Fornahvammi í Norðurárdal, ef engin vegasambönd væru yfir Holtavörðuheiði og þetta væri alger endastöð. Hvaða gróðavegur mundi vera að halda uppi gistihúsi í Fornahvammi, ef þar væri endastöð? Enda verður líklega sú raunin, að gistihúsið á Ásólfsstöðum gefist upp og það því fremur, ef þessari sanngjörnu beiðni verður ekki sinnt. En það er svo, að þetta er krafið jafnt af gistihúsum, sem eiga örðugt uppdráttar, sem og hinum, sem beinlínis eru gróðafyrirtæki. En l. um veitingaskatt þurfa að breytast, því að það þarf að taka tillit til þess, hvernig á stendur. En víst er um það, að þessi till. er ekki útgjaldaaukning fyrir ríkissjóð, eins og till. ber með sér, heldur aðeins heimild um að gefa eftir þennan skatt. Að þarna sé taprekstur þykist ég ekki þurfa að ræða frekar, það ber sjálfu sér vitni.

Þá eru 2 till., sem bornar voru fram af okkur þm. Árn. við 2. umr., en voru teknar aftur til 3. umr. Þær eru endurprentaðar nú, og skal ég aðeins minnast á þær. Það er fyrst till. V. á þskj. 704 um framlag til þjóðvegarins um Selfosskauptún, 100 þús. kr. Ég get skilið, að þm., sem eru ókunnugir, komi það dálítið spánskt fyrir, hvernig liggi í því, að verið er að biðja um 100 þús. kr. til þjóðvegarins um Selfosskauptún. En ég vil fyrst taka það fram, að það er fyrst og fremst vegamálastjóri, sem mælir með því, að þessi fjárhæð sé veitt, og hygg ég, að hann eins og við vilji með því mæla með till., og hann gerir það með fullum rökum. Selfossbyggð er þannig háttað, að skipulag þess er orðið þess valdandi, að bærinn hefur vaxið áfram að endilöngu með þjóðveginum. Þarna er svo mikil umferð af allra sveita mönnum sunnanlands, að slíks eru engin dæmi um kauptún utan Reykjavíkur. Umferðin líkist meir umferð á fjölförnustu götum Reykjavíkur, en í gegnum kauptún. Vegna þessarar sífelldu áníðslu um þjóðveginn í gegnum þorpið gerir svo mikinn aur og svað, að þorpsbúum er illfært á milli húsa. Þarna er ekki einungis umferð úr Árnessýslu, heldur líka úr Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslu og svo allir bílarnir úr Reykjavík. Þannig er umferðin svo mikil, að hún gerir ófriðvænlegt fyrir þorpsbúa að ganga þar um. Þorpið er vel upp byggt og þorpsbúar una ekki við að hafa þennan þátt svo illa rekinn sem er. En til þess að þetta verði gert og steinlagt þar í gegn, eins og allur vegurinn frá Reykjavík á að verða samkvæmt lagaákvörðun Alþ., þá hugsa menn sér gangstéttar sitt hvoru megin við veginn. En þetta verður alldýrt, það er eins hægt að búast við, að það kosti 200 þús. kr. eins og 100 þús. kr. En þeim dettur ekki í hug annað, en að kosta þetta að öllu leyti sjálfir, en vegamálastjóri hefur lagt til, að sérstakt fé verði veitt í þessu skyni, en verði ekki tekið af því, sem á að fara til viðhalds veginum. Maður treystir því, að þetta fái góða áheyrn og verði samþ. af hæstv. Alþ.

Þá er það að síðustu IX. till. á þskj. 704. Það er till. frá okkur þm. Árn. um að veita til endurbóta og aukningar á sjóvarnargarði á löndum ríkisins á Stokkseyri 12 þús. kr. Það hefur lengi verið svo, að sjóvarnargarðurinn hefur verið mesta nauðsyn. Þegar stórflóð gerir, er alltaf mikil hætta á, að sjórinn flæði inn í kjallara og garða í kauptúninu til hinnar mestu áhættu og stríðs, og sú hefur stundum orðið raunin, og til þess að koma í veg fyrir það, er ekki annað til en að auka þennan garð og lengja hann. Það er að því leyti óþarft að mæla með þessari till. mörgum orðum, að það er ríkið sjálft, sem er jarðeigandinn. Þess vegna eru það fulltrúarnir á Alþ., sem munu finna sjálfa sig í því að velja í þessu máli.

Ég held, að það séu ekki fleiri till., sem ég treysti mér að bera fram. Það væri margt hægt að taka fram í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, en það verða aðrir til þess, og ég ætla að láta máli mínu lokið og fela sanngirni hv. þm. meðferð þessara till. Ég þykist vita, að þær fái réttar og góðar undirtektir.