12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

42. mál, fjárlög 1949

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er eins og oftar, að maður verður að tala yfir tómum stólum. Ég vildi þá fyrst segja það, að mér sýnist, að afgreiðslu fjárlfrv. ætli að bera þannig að, að Alþingi skilji við fjárl. með mjög miklum tekjuhalla. Það er að vísu að tölum til kannske talað um að ná einhverjum jöfnuði, en það vita allir, að verðlag er allt annað í Evrópu nú en menn héldu um áramótin, þannig að allt útlit er fyrir, að frv. fari frá Alþingi með raunverulega miklum tekjuhalla. Afleiðingin af því er aftur sú, að þó að hinir og þessir hreppar hafi kvartað undan því að fá ekki meira fé til vega, brúa og ýmissa hluta, þá hefur mér ekki dottið í hug að verða við því.

Ég tel, að það sé engin leið að bæta nýjum og nýjum útgjöldum ofan á fjárl., og hefur mér því ekki dottið í hug að flytja eina einustu brtt. til hækkunar. Brtt., sem ég flyt og allar eru á þskj. 704, eru allar til lækkunar og leiðréttingar. Ein þeirra er leiðrétting á prentvillu, sem slæðzt hefur inn, þ.e. III.1. Það má nú kannske segja, að óþarfi hafi verið að bera fram um þetta brtt. En svipað tilfelli hefur komið fyrir einu sinni áður í sambandi við framlög til hafnargerða, þar sem vafi gat á því leikið, hvort átt var við Höfn í Hornafirði eða Höfn í Bakkafirði, og langar mig ekkert til, að slíkt endurtaki sig. Ég hef því borið fram brtt. þess efnis, að í stað orðsins „Úthlíðarvegur“ komi: Úthéraðsvegur.

Hinar brtt. eru allar lækkunartill. Ekki vegna þess, að ég haldi, að þær verði samþ., heldur eru þær teknar sem sýnishorn um það, hvernig megi spara íburð og bruðl, eins og t.d. við sendiráðið í Moskva, risnu skrifstofustjóra í stjórnarráðinu og geysilegan kostnað við skriftir á fundum ríkisráðs, sem ekki eru ákaflega oft haldnir. Þessar till. eru sýnishorn um íburð og bruðl. Aðrar eru þannig, að þær sýna sparnað í málum, sem talið er, að snerti hina andlegu hlið málanna, eins og t.d. kirkjusöngur og ýmislegt fleira. Þá eru enn aðrar till., t.d. brtt. um að fækka mönnum hjá vegamálastjóra, sem hefur aukið starfslið sitt mest næst á eftir Bifreiðaeftirliti ríkisins, sem hefur margfaldað starfskrafta sína, án þess þó að unnið sé meira en meðan mannskapurinn var miklu fámennari. Till. þessar eru því ekki til annars en að sýna bæði þm. og öðrum, að ég tel, að ná mætti verulegum sparnaði frá því, sem nú er. Og þó að fjvn. hafi starfað mikið, tel ég, að það sé ekki nærri nóg, sem hún hefur lagt til í sparnaðarátt. Ég skal ekki fara frekar út í það við þessar umr., en aðeins geta þess, að ein þeirra brtt., sem ég flyt, er beinlínis fram borin til þess að reyna að fyrirbyggja, að peningum sé fleygt í sjóinn, en það er till. VII.1 á þskj. 704. Ætlast ég þar til, að niður falli liðurinn til svokallaðra Hvalfjarðarferjuhafna. Það hlýtur að vera öllum mönnum ljóst, að eftir að vegurinn inn fyrir Hvalfjörð er orðinn eins og hann er, dettur engum manni í hug að kaupa sér ferju yfir Hvalfjörð. Ég vil því reyna að fyrirbyggja, að hent sé í sjóinn kvartmilljón til þessara hluta, eins og hér er ætlazt til.

Þá er hér brtt. XXI. á sama þskj. Nú hagar þannig til, að mjög gengur seint og hægt að fá notendasíma út um sveitir landsins, en mjög mikil eftirsókn eftir þeim og varla talið hægt að vera í strjálbýlinu, ef ekki fæst þangað sími. Þetta stendur þannig í dag, að um síðustu áramót var sími á um það bil öðrum hverjum bæ á landinu. Í þeim sýslum, sem bezt voru símaðar, var prósenttalan 80, en í þeim sýslum, sem verst voru símaðar, var hún 22, svo að misjafnt er þessu dreift um landið. Það má segja, að þarna sé um nýja lántöku að ræða, og það er rétt. En það er lántaka, sem gefur ríkissjóði beinlínis auknar tekjur í notendagjöldum þeirra, sem símann fá. Þess vegna er það hagur fyrir ríkissjóð að geta komið notendasímanum sem allra fyrst áfram og gott fyrir mennina, sem hafa beðið um hann. Þetta er till., sem ég held, að menn mundu mjög óska eftir, að væri samþ. Nú liggur ekki fyrir frá póst- og símamálastjórninni, hvað kostar að leggja síma til þessara bæja, sem ekki hafa fengið hann. Það er langt komið með það yfirlit, en það liggur ekki fyrir enn þá. Það er mikið fé, sem það kostar, með núgildandi verðlagi. En það er þó, held ég, eina leiðin til þess að láta það ganga sæmilega fljótt að reyna að fara inn á þessa braut. Ég treysti því alveg ákveðið, að þessi till. verði samþ., og sé ekki nokkurn hlut, sem geti mælt á móti henni. Það væri þá helzt það, ef segja mætti, að það gæti farið svo að ári, að þá yrði verzlunarjöfnuður okkar það óhagstæður, að við hefðum ekki erlendan gjaldeyri til þessara efniskaupa. En ef það færi svo, yrði þetta að sitja á hakanum, ef það reyndist eitt af því, sem fyrst kæmi til greina að láta sitja á hakanum, en á þessu stigi er ekki hægt að segja um það. Þetta væri sem sagt eina mótbáran, sem hægt væri að hafa á móti till.

Ég skal að lokum geta þess, að þótt ég hafi lagt fram þessar lækkunartill., hefði verið vandalaust að hafa þær 10–20 sinnum fleiri og ná með þeim miklu meiri sparnaði en þarna er gert. En ég taldi það ekki hafa þýðingu að eyða kröftum í þær fleiri, þó að ég teldi, að þær ættu fleiri rétt á sér.