12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

42. mál, fjárlög 1949

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, en um einstakar aths., sem hv. þm. Barð. gerði við mínar till., vildi ég segja nokkur orð. Ég tók það fram áðan, að ég hefði komið fram með þessar till. mínar til þess að benda á það fyrst og fremst, hvað hægt væri að spara á tildri og rekstrarkostnaði alls konar, en ég gerði hins vegar ráð fyrir, að þær yrðu felldar. Hv. þm. minntist á vegarlagninguna í Kópavogi og þótti till. mín ómakleg, þar sem ríkið ætti allt landið. En hvernig er þessu farið? Jú, landið var látið í erfðafestu á 5 kr. hektarinn. Síðan er það búið að ganga kaupum og sölum á okurverði, og síðan ætlar ríkið að fara að hjálpa þeim, sem þannig hafa grætt á erfðafestulandinu, til að leggja um það vegi. Það er alveg nóg að þurfa að kaupa landið undir vegina, þó að ríkið kosti þá nú ekki líka. Það er hreinasta fjarstæða eins og allt er í pottinn búið, að ríkið fari að kosta þessa vegi.

Þá talaði hv. þm. um það, að bæði ráðh. og þm. kjördæmisins hefðu lagt mikið upp úr ferjunni yfir Hvalfjörð og veginum þar. Mér er nú kunnugt, að vegurinn er þegar orðinn miklu dýrari, en ráð var fyrir gert og er þó ólokið og ekki komin nein ferjuhöfn. Og það sjá allir, að þegar þetta verður komið upp í hátt á 4 millj. kr., verður það svo dýrt, að það fer enginn maður ferjuna. Og það er lítið vit í að fleygja fé í verk, sem enga þýðingu hefur. Ef farinn er vegurinn norður um land, sjást víða smábrýr utan við veginn frá þeim tímas er menn eygðu ekki annað en hestslóðirnar gömlu, og standa þær eins og minnisvarði yfir skammsýni þeirra manna, er réðu þar vegabótum. Eins mun verða með ferjuna. Hún verður fljótt úrelt eins og þessar brýr.

Um styrk til námsmanna skal ég ekki fjölyrða. Allt, sem hv. þm. sagði um það, var á misskilningi byggt. Mínir synir hafa engir eytt nema um 1/3 af því fé, sem sonur hans eyddi, þótt þeir hafi verið á álíka dýrum skólum, og þola því vel samanburð í þessu efni — og skal ég ekki að öðru leyti um þetta tala.

Um lið á þskj. 704 er það að segja, að Pétur Lárusson samdi hann, og hefur orðalag hans. verið borið undir skrifstofustjóra og fleiri, og þykir ekki orka tvímælis, að ekki verði lagður sími til annarra en þeirra, sem lán veita, á árinu 1950. Þess vegna er alveg ljóst, að ef lán yrði tekið hjá Landsbankanum, yrði að leggja símann þangað, eins og hann verður lagður til þeirra bænda, sem lán veita. Hitt er framkvæmdaratriði, hvort lánið yrði tekið hjá einstökum bændum eða hjá hreppsfélögunum, — eða öllu heldur fyrirkomulagsatriði. En landssímastjóri hugsar það þannig, að lokið verði við að leggja síma í þá hreppa, sem lán vilja veita. Hv. þm. talaði um það, að þetta mundi draga úr því, að bændur, sem voru afskekktir, fengju sína — t.d. í Barðarstrandarsýslu. Það væri nú skrýtið, ef veittar eru 800 þús. úr ríkissjóði og heimild fyrir að taka 3 millj. kr. lán hjá þeim, sem vildu veita lán, ef þessar 3 millj. ættu að útiloka einhvern frá því að fá síma. Þessar 800 þús. kr. hafa ekki verið skertar, og þá get ég ekki skilið, að lántakan hafi nokkur áhrif á það, hverjir fái símann. Hitt get ég hugsað mér, að þetta gerði greiðara fyrir að koma til móts við þá, sem verst eru settir, með þessu takmarkaða framlagi úr ríkissjóði. Hitt er annað, að það getur orðið erfitt að fá efni. Um það veit enginn nú. En hitt getur á engan hátt staðið í vegi fyrir því, að sem flestir fái símann, og það er augljós hagur fyrir ríkið, að hann verði lagður sem fyrst og til sem flestra, því að þeim mun meira fær landssíminn í afnotagjöldum og því betur ber hann sig. Og þetta er leiðin til að koma þessu fram sem fyrst.

Þennan misskilning hv. þm. vildi ég leiðrétta og ekki láta ómótmælt. Það þarf að aðstoða þá, sem verst eru settir og þurfa á því að halda, og því léttar leysast vandræði þeirra, sem þurfa að fá síma, en eru ekki eins illa settir.