17.05.1949
Sameinað þing: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

42. mál, fjárlög 1949

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 6. landsk., sem hér talaði af hálfu sósíalista, lagði á það ríka áherzlu, að það, sem þessi ríkisstj. hefði fyrst og fremst gert, væri að leggja á nýja skatta og tolla, vörumagnstollinn og verðtollinn, og með því íþyngt svo landsfólkinu, að það gæti nú varla undir álögum þessum risið. Það er nú svo, að tollar eru þeirrar náttúru, að hægt er að leggja þá á þannig, að þeir komi misjafnlega þungt niður, eftir því á hvaða vörur þeir eru lagðir og ríkisstj. hefur hugsað þessa tollaálagningu svo, að hún kæmi minnst við þá, sem minnstar hafa tekjur og með þessu móti hefur það unnizt, sem mest er um vert, að dýrtíðinni hefur mjög verið haldið í skefjum. Frá því í desember 1947 og þar til nú hefur dýrtíðarvísitalan ekki hækkað, heldur lækkað um 1 stig. Hún var 328 stig þá, en er í dag 327 stig, þannig að þessi tollahækkun hefur fyrst og fremst komið fram á vörum, sem ekki heyra til daglegra nauðþurfta manna. Hv. þm. orðaði það svo, að benzín hefði verið sett í flokk með brennivíni og tóbaki. Sannleikurinn er nú sá, að á Norðurlöndum er benzínskatturinn t.d. enn hærri og hefur verið heldur, en hann verður hér nú eftir þessa hækkun, enda er venjan sú erlendis, að vegir eru byggðir og þeim við haldið fyrir það fé, sem fæst með tollum á benzíni. Nú hefur nýbygging vega og viðhald vaxið meira hér síðustu árin, en á nokkru tímabili öðru, og það er fullkomlega réttlátt, að kostnaðurinn af því komi niður á þeim, sem vegina nota.

Hv. þm. sagði, að barátta ríkisstj. gegn dýrtíð og verðbólgu hefði komið fram í því, að lagðar hefðu verið nýjar byrðar á almenning í sköttum og tollum, og t.d. væri nú tollurinn á einum fatnaði kominn upp í 600 kr. Ég hef nú ekki aðstöðu til að rannsaka, hve vitlaust þetta er, en það er áreiðanlega mjög vitlaust. Þá sagði hann að kjöt hefði hækkað um 20%. Þegar kommúnistar settust í ríkisstj. 1944, var kjötverðið 6.50 kr. á kíló, en í þeirra valdatíð hækkaði það upp í 11.50 á kíló. Nú hefur það ekki hækkað um 20%, heldur lækkað niður í 10.05 kr., að vísu með nokkurri niðurgreiðslu úr ríkissjóði. Aðalhækkunin á kjötinu varð sem sagt í valdatíð fyrrv. stj., er þessi hv. þm. hefði átt kost á að lækka það. En hann og hans flokkur hirti nú ekki um það. Tíminn var notaður, eins og hv. þm. orðaði það, til að pína Sjálfstfl. út í byltingarkenndar framkvæmdir. En það munu nú vera fleiri en ég, sem lítið hafa orðið varir við þær pyndingar. Hitt er rétt, að Alþfl. setti ákveðin skilyrði um framkvæmd nýsköpunarinnar, en kommúnistar sögðu þá ekki orð.

Þá sagði hv. þm., að þingflokkur Alþfl. hefði greitt atkvæði gegn 20% launauppbót til opinberra starfsmanna. Alþfl. hefur haft þetta mál til athugunar, og eru líkur til, að hann hafi unnið málinu það fylgi, að einhver lausn fáist áður en þingi lýkur, en það verður án tilverknaðar sósíalista, sem aðeins hafa flutt í málinu sýndartill., sem enga þýðingu hafa um afgreiðslu þess.

Ég skal svo ekki fara mikið meira út í það, sem hv. þm. tilfærði meira og minna rangt um hækkun á nauðsynjavörum. Hann sagði t.d., að kornvörur hefðu hækkað um 10–30%. Sannleikurinn er sá, að í tíð fyrrv. stj. hækkuðu þær úr 0.93 kr. í 1.46 á kíló, en hafa nú lækkað niður í 1.41 kr. Það, sem hv. þm. annars lagði höfuðáherzlu á, var það, að í þessari stjórn hefði Alþfl. forustu og yrði þetta aðallega að skrifast á hans reikning. Þegar þrír flokkar með ólík sjónarmið ganga saman til stjórnarmyndunar, eins og hér hefur átt sér stað, verður það vitaskuld ekki stefna neins einstaks þeirra, sem ræður. Störf og stefna slíkrar stjórnar verður að vera byggð á samkomulagi um þau atriði, sem hægt er að ná samkomulagi um. Önnur mál, sem ekki tekst að ná um samkomulagi, verða að bíða betri tíma. Það verður svo hver flokkur að gera upp við sjálfan sig, hvort honum finnst, að sá árangur, sem náðst hafi, réttlæti það, að stjórnarsamstarfinu sé haldið áfram eða ekki. Það, sem hér hefur á unnizt, er að mínu viti þetta fyrst og fremst:

1. Það hefur náðst viðskiptajöfnuður í gjaldeyrisviðskiptum okkar við útlönd.

2. Nýsköpun atvinnuveganna heldur áfram, að verulegu leyti af eigin rammleik, en líka og alveg sérstaklega vegna samninga, sem tekizt hefur að gera um þátttöku í efnahagssamstarfi Vestur-Evrópuríkjanna, með aðstoð Bandaríkjanna.

3. Það hefur að mestu tekizt að viðhalda atvinnu handa öllum og hindra atvinnuleysi. Að nokkru leyti er þetta að vísu fengið með greiðslum úr ríkissjóði sem styrk til framleiðslustarfsins og að nokkru leyti með takmörkun neyzluvöruinnflutnings.

4. Það hefur verið komið á eftirliti með allri fjárfestingu í landinu og vísi að skipulögðum þjóðarbúskap. Þetta kostar eigi 1% af þjóðartekjunum, sem eru á annað þúsund millj.

5. Það hafa nú í fyrsta sinn um langt skeið verið afgreidd fjárl. að heita má án greiðsluhalla.

6. Það hefur tekizt að mestu að halda í skefjum verðlagi á hinum helztu nauðsynjavörum, svo að vísitalan hefur aðeins hækkað um 11 stig á rúmum 2 árum, á móti 45 stigum; sem vísitalan hækkaði, þegar kommúnistar tóku þátt í stjórn landsins með Ólafi Thors, miðað við jafnlangan tíma, og það hefur tekizt að stöðva algerlega hækkun á þessum vörum, síðan dýrtíðarl. voru sett um áramótin 1947—48, eða nærri í 11/2 ár.

7. Innkaupastofnun ríkisins hefur verið komið á fót.

8. Það hefur með samningum verið leitazt við að tryggja öryggi landsins í framtíðinni gegn utan að komandi árásum án þess að þurfa að leggja í sölurnar neitt það, sem við ekki vildum láta. Þó að ekki hafi verið um þennan samning fullt samkomulag, er ég fyrir mitt leyti sannfærður um, að hann verður ekki aðeins okkur Íslendingum til gagns, heldur stuðlar hann einnig að því, að friður geti haldizt í heiminum.

Það, sem ekki hefur náðst af því, sem að var stefnt, er fyrst og fremst þetta:

1. Það hefur ekki tekizt til fulls að skapa vinnufrið í landinu. Kaup hefur hækkað, og vöruverði hefur því aðeins verið hægt að halda niðri, að framlög úr ríkissjóði væru aukin. Þó hefur verið hægt að halda verðlagi í skefjum.

2. Skattar og tollar hafa hækkað af þessum ástæðum. Þó hefur verið leitazt við að undanþiggja þá álögum, sem minnsta hafa gjaldgetuna.

3. Engin lausn hefur fengizt á húsaleiguvandamálinu, sem með hverjum degi sem líður verður meira og meira aðkallandi.

4. Samkomulag hefur ekki tekizt um skiptingu innflutningsins milli samvinnuverzlana og kaupmannaverzlana. Út af fyrir sig tel ég þetta atriði ekki vera það höfuðatriði, sem reynt hefur verið að gera það að. Það er enginn vafi á því, að það er ekki hægt að bæta neitt verulega úr dýrtíðarvandamálunum, þó að þessu yrði breytt í það horf, sem farið er fram á. Hitt er svo annað mál, að stefna verður að því, að skömmtunarvörur séu fyrst um sinn fluttar inn meiri, en sem skömmtuninni svarar, svo að birgðir safnist og fólk eigi kost á að velja og hafna og taka það, sem því finnst ódýrast samanborið við gæði. Um þetta hef ég flutt frv. á þessu þ., sem ekki hefur náð fram að ganga.

Þessi mál og önnur, sem snerta dýrtíðarvandamálið, verða tekin upp á næstunni, og ég álit, að affarasælast verði fyrir íslenzku þjóðina að hækka ekki kaupið, heldur fara hina leiðina, að fá fram lækkun á erlendum varningi og hafa hemil á kostnaðarliðunum. Langþýðingarmesta málið, sem úrlausnar bíður og varðar mest afkomu manna í þessu landi, er lausn dýrtíðarvandamálsins. Það eru þrír kostnaðarliðir, sem valda úrslitum og eru að mestu á okkar valdi: kaupgjald, verð á innlendum vörum og húsaleiga, og er hvert öðru háð. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er það enn, að einhliða hækkun kaupgjalds sé hér ekki rétta úrræðið, nema að sjálfsögðu það, sem lagfæra þarf til samræmingar milli stétta.

Almenn hækkun launa, þegar komið er sem hér, að aðalframleiðslustarfsemin ber sig ekki nema með framlagi úr ríkissjóði, kemur aðeins niður sem hækkun verðlags og skatta, svo að launþegarnir verða að engu bættir. Lækkun á ýmsum útlendum varningi er nú að byrja að koma í ljós. Kornvörur lækka ört í verði, feitmeti sömuleiðis og raunar fleiri vörur, þegar framboðið af þeim fer að verða meira en eftirspurnin. Þegar fóðurvörur lækka, ætti að vera grundvöllur fyrir lækkun á landbúnaðarvörum, Og þannig ætti að mega þokast niður á við. Húsaleiguvandamálið krefst aðgerða þegar í stað, fyrst og fremst stóraukinna bygginga verkamannabústaða, sem vegna gildandi löggjafar hafa sýnt stórkostlega yfirburði fram yfir aðrar byggingar hvað kostnað snertir.

Smásöluverðsvísitalan lækkaði á tveim árum, skömmu eftir heimsstyrjöldina fyrri, frá 1920–22, um hátt á annað hundrað stig, úr 454 niður í 286, og þó að lækkunin yrði ekki eins ör nú, mætti vænta þess, að áhrif hennar yrðu allveruleg, ef þeim ekki verður eytt jafnóðum með verðhækkunum á innlendum vörum og hækkuðu kaupgjaldi.

Alþfl. hefur ekki viljað hingað til ganga með í setningu ýmissa neyðarráðstafana, svo sem gengislækkunar, mikillar verðhjöðnunar, meiri en orðið er, o.s.frv., heldur haldið sig við þá einu aðferð, sem þá var eftir tiltæk, niðurgreiðslur úr ríkissjóði, svo að framleiðslustarfsemin stöðvaðist ekki, því að það, sem raunverulega veldur úrslitum um afkomu þjóðarinnar, er, hversu mikið okkur tekst að framleiða, bæði til heimanotkunar og útflutnings. Fyrsta og aðalatriðið, sem gæta þarf, er, að allir hafi atvinnu og framleiðslustarfsemin aukist, og vitanlega, að sala takist á þeim vörum, sem framleiddar eru. Öll aukning í þessa átt gefur von um betri afkomu og bættan hag.

Verðbólgustefna kommúnista með aukningu lánsfjár úr þjóðbankanum, einhliða hækkun kaups og ábyrgðarlausri fjárlagaafgreiðslu leiðir aftur beina leið til glötunar.