10.12.1948
Neðri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég tel, þrátt fyrir það að það sé rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að mínar skoðanir og skoðanir Landsbankans falli ekki alltaf saman, í fyrsta lagi, að það þurfi að vera nokkur takmörk fyrir því, hvað stofnanir og einstakir starfsmenn þjóðfélagsins eru dregnir inn í umr. á Alþ. á þennan hátt. Í öðru lagi vildi ég segja það, og tel ég mér það skylt vegna þess, að ég gegni þessum störfum, störfum fjmrh., að ég veit það með vissu, að sú mikla fjárþörf ríkissjóðs, t.d. á þessu ári, sem nú er að líða, og þær miklu skuldir, sem ríkissjóður hefur komizt í við Landsbankann, hafa óneitanlega bakað þessari lánsstofnun, Landsbankanum, mikil vandræði, og það verður maður að hafa í huga, þegar maður athugar afstöðu bankans til hinna ýmsu krafna, sem bæði ríkisstj. og Alþ. gera til hans og til bankanna yfirleitt. — [Fundarhlé.]