11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Síðan haustið 1946 að ég kom fyrst á þing, þá hefur þetta alltaf verið á dagskrá um þetta leyti árs, að fresta fundum næsta reglulegs Alþ., af því að fundum yfirstandandi þings væri ekki lokið, og það yrði að búa við það, að fjárlög yrðu ekki afgr. fyrir næsta ár fyrr en komið væri fram á fjárhagsárið, því að það hafa menn horfzt í augu við, þegar þeir hafa gengið frá þessari breyt. á samkomudeginum. En þetta ástand er búið að vera miklu lengur en síðan 1946, ef ég man rétt. Og allir, sem um þetta hafa talað öll þessi ár, hafa talið þetta óviðunandi og að þetta væri í sjálfu sér ófremdarástand, að geta ekki gengið frá fjárl. áður en það fjárhagsár, sem þau eiga að gilda fyrir, byrjar. Og það má segja, að það megi komast af án fjárl. til að stjórna ríkisbúskapnum yfir einn fjórða eða einn þriðja hluta ársins. Og því þá ekki að gera ráðstafanir til þess að kippa þessu í lag um afgreiðslu fjárl., þegar mönnum ber saman um, að ástandið, sem nú ríkir í því efni, sé ekki viðunandi? — Það er tvennt, sem hefur farið úrskeiðis í þessu efni. Það er, að Alþ., sem á að koma saman 15. febr. ár hvert, kemur ekki saman fyrr en síðari hluta ársins, og hitt, að fjárlög, sem eiga undir öllum kringumstæðum að vera fullgerð áður en fjárhagsár það byrjar, sem þau eiga að gilda fyrir, hafa að undanförnu ekki verið fyrir hendi, fyrr en langt hefur verið komið fram á viðkomandi fjárhagsár. Þessu tvennu þarf því að gera ráðstafanir til þess að kippa í lag. Eftir ákvæðum stjskr. á reglulegt Alþ. 1949 að koma saman að örfáum dögum liðnum, eða 15. febr., og þá er auðvitað tilætlunin, að reglulegt Alþ. 1948 sé löngu búið að ljúka störfum. Það ætti því að vera hlutverk þess reglulega þings fyrir 1949, sem kæmi saman þann 15. febr., að afgr. fjárlög fyrir 1950. Það mætti búast við, að það yrði ekki seinna en í marz eða aprílmánuði, skulum við segja, og að þá fyrst gæfist tóm til þess að undirbúa allar framkvæmdir, áætlanir og efnispantanir og annað þess konar, sem nú þarf freklegri tíma til en á normal tíma.

Þegar þessar umr. voru að byrja, lagði ég inn hjá hæstv. forseta d. till., þar sem lagt er til, að samkomudagur næsta reglulegs Alþ. 1949 verði 1. sept. Það hefur nú komið fram í ræðu tveggja hv. þdm., að ef það ætti að takast að kippa því í lag, að fjárlög gætu orðið afgreidd fyrir byrjun þessa árs, sem þau eiga að gilda fyrir, þyrfti þingið að koma saman ekki síðar en 1. sept. Það hefur komið fram hjá hv. 1. landsk. þm. (SÁÓ) og hv. 8. landsk. (ÁS). Ég tel, að það sé öruggt, ef sæmileg vinnubrögð eru höfð að því er snertir afgreiðslu fjárl., að ríkisstj., fjvn. og Alþ. eigi að takast að afgr. þau á fjórum mánuðum. Og ekki er rétt að gera ráð fyrir því, að þingsetan sé yfirleitt lengri en fjórir mánuðir og í mesta lagi fimm mánuðir. Með því að ákveða samkomudaginn 1. sept., held ég, að örugglega væri hægt að kippa því í lag að afgr. fjárlög fyrir áramót. Í öðru lagi þurfum við að kippa því í lag, að reglulegt Alþ. geti byrjað á þeim tíma, sem til er tekinn í stjskr., sem sé 15. febr. Og væri hægt að ljúka næsta þingi fyrir áramót, væri hægt að láta þar næsta þing koma saman 15. febr. o.s.frv.

Ég held, að það sé hégómaástæða, að þessi frestun á þinghaldinu þangað til í óefni er komið með afgreiðslu fjárlaga sé gerð til þægðar nokkrum þm. utan af landi. Ég er utan af landi, og er þetta ekki mín þægðin, og ég held, að þeir mundu vera fleiri þm. utan af landi, sem vildu láta þingið byrja 1. sept., svo að hægt væri að kippa því í lag í þessu efni, sem um hefur hér verið rætt.

Páll Zóphóníasson: Herra forseti. Það var fjarri því, að ég gagnrýndi störf fjvn. Ég minntist bara á þessa staðreynd, að ekki hefur verið búið að afgr. fjárlög fyrir jól. Hins vegar virðist mér hv. 1. landsk. vera að því. En hvað segir svo reynslan? Eftir að hv. 1. landsk. er búinn að segja, að fjvn. geti lokið störfum á tveimur mánuðum, kemur hann með munnlega till. um, að þingið verði látið hefja störf 1. sept. Hvað á þá fjvn. að gera það sem fram yfir er tvo mánuði af þeim tíma til áramóta, ef hún þarf ekki nema tvo mánuði til að afgreiða fjárlfrv.? Það er hann, þessi hv. þm., sem er með þessu að skamma fjvn., en ekki ég, með því að segja, að fjvn. geti unnið sitt verk á tveimur mánuðum, en vill ætla henni fjóra mánuði til þess, en ekki tvo, sem virðist mega skiljast þannig hjá hv. þm., að hann leggi þetta til af því, að hann álíti, að fjvn. vinni illa. En mér er hins vegar ljóst, að fjvn. þarf meira en tvo mánuði til að vinna á hverju þingi.

Hæstv. forsrh. var að tala um fríin. Ég sagði þetta um fríin af þeirri ástæðu, að það er sagt, að einn og annar hefði verið í fríi, svo að ekki hefði verið hægt að ná í þá yfir sumarið. (Forsrh.: Af starfsmönnum stjórnarráðsins.) Já, eru þeir ekki að undirbúa fjárlögin, má ég spyrja? Það er ekki ríkisstj. ein, sem gerir það.

Hæstv. forsrh. fór að draga í land í sinni síðari ræðu, og skildist mér þá, að hann ætlaði ekki að kalla þing saman fyrr en ákveðið væri í frv., því að hann talaði þá um það, að það væri misjafn skilningur manna á því, hve langan tíma þyrfti til þess að afgr. fjárl., sem átti að gera enn meir óákveðið það, sem hann sagði í sinni fyrri ræðu, þegar hann sagðist vilja, að þingið kæmi svo snemma saman, að hægt væri að afgr. fjárlög fyrir áramót. Þetta hefði gefið mér tilefni til þess að koma með brtt. En ég tel, eftir því sem ég þekki vinnubrögð fjvn., að þó að Alþ. kæmi saman 1. sept., væri ekki hægt að afgr. fjárlög fyrir áramót fyrir því, nema betur væri unnið eða samstilltari meiri hl. stæði að fjárl. en enn er til á Alþ.