31.01.1949
Efri deild: 51. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

117. mál, vöruhappdrætti fyrir Samband íslenzkra berklasjúklinga

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar deildar hefur borið fram það frv. til laga, sem hér liggur fyrir á þskj. 298. Hefur n. með því orðið við tilmælum, sem henni hafa borizt um að flytja frv., en einstakir nm. áskilja sér vitaskuld rétt til að koma fram með brtt., ef þörf þykir, og fylgja öðrum, er fram kynnu að koma og þeir teldu til bóta.

Með frv. þessu er farið fram á það, að S.Í.B.S. verði veitt leyfi til að stofna vöruhappdrætti og reka um 10 ára skeið, þar sem dregið yrði einu sinni á ári. Sambandið hefur rekið happdrætti undanfarið, en orðið að fá leyfi í hvert skipti sérstaklega, en með því að tryggja slíkt leyfi í lögum til langs tíma þykir sem þetta mundi verða öruggari tekjustofn fyrir sambandið.

Ég skal nú ekki fara mörgum orðum um þjóðnytjastarf það, sem unnið hefur verið til útrýmingar berklaveikinni hér á landi. Eins og öllum er kunnugt, er þar um hinn skæðasta sjúkdóm að ræða og skipuleg barátta hefur verið háð gegn honum hérlendis síðan um aldamót. En þrátt fyrir ágætt starf hinna nýtustu manna er það þó enn svo, að berklahælin eru ofhlaðin og það er ekki unnt að veita öllum sjúklingum þá aðhlynningu sem skyldi, og þeir fá ekki að dveljast nógu lengi á hælunum, en verða að hverfa þaðan of fljótt út í lífið, þar sem margvísleg barátta reynir um of á þeirra veiku krafta. Margir þeirra verða af þeim sökum að fara aftur á hælin og verða þar langvarandi sjúklingar. Alvarlegast er þó, að þetta öryggisleysi skapar hjá sjúklingunum skelfingu, sem er mjög lamandi og þungbær.

Engum var þetta ástand betur ljóst en þeim, sem stofnuðu S.Í.B.S., en það samanstendur einmitt af eldri og yngri berklasjúklingum. Það var stofnað á árinu 1938, og samstundis var hafin fjársöfnun um land allt í þeim tilgangi að koma upp vistheimili fyrir brautskráða hælissjúklinga, sem enn voru of þróttlitlir til þess að vinna algeng störf, þurftu að vera undir eftirliti læknis og fá vinnu við sitt hæfi, þar til úr því væri skorið, að þeir hefðu læknazt að fullu. Þessi verkefni voru þegar skipulögð af sambandinu. Fyrst og fremst átti að koma upp sérbýlishúsum — fjögurra manna —, sem gætu orðið heimili nokkurra sjúklinga, og auk þess vinnustofu, þar sem sjúklingarnir gætu starfað að hæfilegum viðfangsefnum. Síðan skyldi komið upp aðalhúsi með sameiginlegri borðstofu, læknastofum o.s.frv.

Almenningur skildi vel þá merkilegu tilraun, sem hér var verið að gera, og það safnaðist þegar töluvert fé, enda hefur hælið verið byggt að mestu fyrir slíkt fé, enda þótt ríkissjóður hafi á hverju ári lagt nokkuð fram til styrktar starfseminni. Vistheimilinu var valinn staður að Reykjalundi í Mosfellssveit og hafizt handa um byggingar í júní 1944. Heimilið tók svo til starfa 1. febr. 1945, og var ráðinn þangað sérstakur læknir kostaður af ríkinu samkv. ákvæðum laga, og var hann forstöðumaður heimilisins jafnframt. Þá var búið að reisa þar 5 smáhús, og þar fengu 20 vistmenn heimili. Önnur 6 hús sams konar voru þá og í smíðum, og var þeim lokið í maí árið 1945 og tekin strax í notkun. Árið 1946 var svo byrjað á aðalbyggingunni, og gert er ráð fyrir, að henni verði nú lokið á fyrri hluta þessa árs. Kostnaður við hana er rúmar 3 millj. kr., og vantar ekki nema 600 þús. kr. til þess, að sá kostnaður sé að fullu greiddur. En allur byggingarkostnaður við heimilið nú er orðinn um 6 millj. kr. að meðtöldum kostnaði við hermannaskálana, sem notaðir voru til bráðabirgða. Aðalhúsið er mjög myndarleg bygging, og eru þar dagstofur, borðstofur, svefnklefar, sjúkrastofur, lækna- og rannsóknarstofur, böð og sólbyrgi, allt mjög vandað, en íburðarlaust. Sem stendur eru 44 vistmenn á heimilinu, en gert er ráð fyrir, að unnt verði að bæta við 50 vistmönnum, þegar aðalhúsinu er lokið. Ýmsar aðrar framkvæmdir eru fyrirhugaðar, en bygging vinnustofu er talin kalla mest að, og er gert ráð fyrir, að hún muni kosta um 2 millj. kr. Þá er í ráði að reisa 12 ný smáhús, sem hvert mun kosta um 140 þús. kr.; enn fremur gróðrarstöð og byggingar fyrir starfsfólk. Allur þessi kostnaður er áætlaður um 5 millj. kr. Öll árin nema hið fyrsta hefur rekstrarágóði af heimilinu orðið um 100 þús. kr. á ári, þó að gjafir og styrktarfé sé ekki reiknað til tekna, þar sem það hefur eingöngu farið til byggingarframkvæmda. Ríkissjóður greiðir nú 30 kr. dagpeninga fyrir hvern sjúkling, sem svo er ástatt um, að hann þarf í rauninni hælisvistar, og miðað við það, sem tíðkast á öðrum sjúkrahúsum, er það ekki full greiðsla. Aftur á móti eru þarna margir öryrkjar, sem engan styrk fá, en eru þarna sköpuð skilyrði til að vinna fyrir sér, og sparar það Tryggingastofnun ríkisins talsvert fé.

Í stjórn S.Í.B.S. eru aðeins eldri og yngri berklasjúklingar, og stjórn þeirra á þessum málum hefur verið svo góð, að það gæti ábyggilega verið mörgum ríkisstofnununum til fyrirmyndar. Markmið sambandsins er að koma heimilinu sem fyrst í það horf, sem fyrirhugað er, svo að heimilið geti tekið við öllum, er þangað vilja leita. Alls hefur hælið tekið á móti 99 sjúklingum til síðustu áramóta. Af þeim hafa 55 farið þaðan aftur, 39 með fullum bata og 16 til framhaldsvistar á berklahælum.

Það er ljóst, að ríkissjóður hefur nú í mörg horn að líta, en með þessu frv. er líka í rauninni verið að létta því af honum að leggja þarna í byggingarkostnað.

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forseta sérstaklega fyrir það, að hann skuli hafa tekið þetta mál svo fljótt á dagskrá, og ég vona, að það tefjist heldur ekki hér í deildinni og verði afgreitt á þessu þingi. Þetta mál er eitt hið allra merkasta nauðsynjamál, og það er í góðum höndum. Rekstur hælisins hefur verið hagkvæmur, svo að til fyrirmyndar er, og það, sem mest er um vert — skelfing sjúklinganna er með þessu móti rekin á brott og von þeirra styrkt um bjartari framtíð.

Ég vænti samþykkis hv. þd., og ef ástæða þykir til, mun n. að sjálfsögðu taka frv. til athugunar milli umræðna.