15.02.1949
Neðri deild: 65. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

127. mál, sala á steinolíu, hráolíu o.fl.

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Af því að hæstv. atvmrh. var ekki viðstaddur 1. umr. málsins hér, vildi ég hér með í hans viðurvist leiða athygli að því, að allshn. leyfði sér, er hún flutti þetta frv. að hans beiðni, að breyta því í einu atriði, sem sé því að setja í frv. sérstök ákvæði um, að setja skuli reglugerð um mælingu á olíum og framkvæmd löggildingar á mælitækjum fyrir olíur og um eftirlit í þessum efnum. Ákvæði um þetta virðist ekki vera til neins staðar í öðrum lögum, vegna þess að lögin um mælitæki og vogaráhöld eru orðin það gömul, að mikil breyting hefur orðið á mælitækjum síðan þau lög voru sett.

Ég vildi í þessu sambandi fyrir hönd allshn. óska eftir, að hæstv. atvmrh. athugaði það að setja hið allra fyrsta nauðsynlega reglugerð samkv. þessu frv., ef að lögum verður. Og enn fremur vil ég leiða athygli að því, að þar sem lögin um mælitæki og vogaráhöld, sem innihalda ákvæði um löggildingu vogaráhalda og mælitækja, eru orðin mjög gömul og mæliker hafa tekið miklum breyt. síðan þau lög voru sett, þá er nauðsynlegt að láta fara fram endurskoðun á þeirri löggjöf, svo og þeirri tilskipun, sem nú gildir í þessu efni.