11.03.1949
Efri deild: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

126. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Mál þetta, sem hér liggur fyrir, um breyt. á l. um lax- og silungsveiði, var við upptök sín ákaflega meinlaust og smátt mál. Það var aðeins um það, að menn mættu veiða göngusilung til 15. sept. í stað 1. sept., og virtust í rauninni allir vera sammála um það atriði. Nú hefur hv. þm. Barð. barið fram brtt. á þskj. 433, og þar er þessu breytt á allt annan hátt. Fyrst og fremst er lagt til að leggja niður embætti veiðimálastjóra og setja það undir háskólann, og svo er lagt til, að kostnaður allur við veiðimálastarfsemina leggist á veiðieigendur að tiltölu við veiðimagn hvers þeirra um sig. Landbn. kom saman og ræddi þessa brtt. og gat ekki fellt sig við hana, og flestir nm. létu uppi þá skoðun að þeir teldu ekki rétt að samþ. þessa brtt. Færðu þeir fram þær ástæður m.a., að bráðlega ýrði að gera endurskoðun á lax- og silungsveiðil., það yrði t.d. að flokka niður ár eftir veiðihætti og veiðimagni, og nú væri hafin starfsemi ekki svo lítil undir eftirliti veiðimálastjóra um klak o.fl. í árnar og það gæti orðið til að kippa úr þessu starfi, sem hefur verið unnið mest sjálfstætt, ef það væri fært undir Atvinnudeild Háskólans. N. leit því svo á, að þessi breyt. gæti aðeins verið til óþæginda og það væri ekki rétt áð fara nú að taka einn mann út úr til sparnaðar. N. gat heldur ekki fellt sig við orðalag c-liðar brtt., þar sem það er ónákvæmlega orðað, en þar segir, að leggja skuli gjald á veiðieigendur að tiltölu við veiðimagn hvers þeirra. Veiðieigendur veiða sjaldnast sjálfir, heldur er þetta leigt út sameiginlega, og vita svo ekki einu sinni skýrt um það, hvað mikið er veitt í hverjum hyl, og yrði því erfitt að fást við þá álagningu, enda sýnist ekki vera í fjárlfrv. gert ráð fyrir lækkun út af þessum veiðimálakostnaði.

Þá vildi ég snúa mér til hv. flm. strax, af því að hann er frsm. fjvn., út af því, að það sýnist vera í fjárlfrv. veitt fé til eftirlitsmanna, hvort það muni vera þannig, að eftirlitsmönnum við sumar árnar sé veitt fé úr ríkissjóði. En l. segja fyrir um það, að sýslusjóður eigi að borga þann kostnað, og svo eiga veiðieigendur að borga sýslusjóði. N. treystir sér ekki til að mæla með þessari brtt., en leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, sérstaklega vegna þess, að ef það er samþ. óbreytt við þessa umr., þá verður það að l.