11.11.1948
Efri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

60. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hvað snertir afgreiðslu þessara tveggja frv., sem hér hafa komið fram á þinginu um þetta sama mál, þá hef ég fyrir mitt leyti ekkert við það að athuga, þó að þau séu afgr. saman, eða hvort þeirra verður afgr. þá fyrst. Annars vil ég benda á, að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er það ákvæði, sem bráðabirgðal. stj. gera ráð fyrir, en það er að sjálfsögðu framkvæmdaatriði, sem ég mun ekki deila um. En um það má lengi deila, meðan ekki fæst úrskurður dómstólanna, hvort heimilt sé fyrir ríkisstj. að láta framkvæma l. á þennan hátt, sem hún hefur gert, eða með öðrum orðum, hvort ríkisstj. sé leyfilegt að dæma alla landsmenn fyrir fram brotlega við gjaldeyrisl., ef þeir vilja fara úr landi. Það er dómur yfirvaldanna, að hver, sem fer úr landi, sé brotlegur í þessum efnum, þess vegna þurfi að hafa við hann þær reglur, sem n. hefur sett, sem ég tel óverjandi, hvernig sem lítið er á. Það, að sumir menn eigi gjaldeyri í útlöndum og svo og svo margir hafi ferðazt til útlanda án gjaldeyris, er ekki aðalatriði í þessu sambandi. Aðalatriðið er, að Íslendingar eru nú lokaðir inni eins og melrakkar í greni. Íslendingar hafa ekki rétt nema með leyfi n., sem greinilega hafa oft verið mislagðar hendur, að fara ferða sinna til útlanda. Það er lagt í hendur þessarar ákveðnu n. að ákveða, hverjir megi fara úr landi, hvernig sem á stendur. Ég tel það enga sönnun fyrir réttmæti þessa máls og þessara l., að n. hafi veitt 2.000 mönnum leyfi til þess að fara úr landi án gjaldeyrisleyfis og öðrum 2.000 mönnum með leyfi. Slíkt sýnir ekki það meginatriði, sem hér er verið að ræða um, því að hver er kominn til þess að segja, að viðskiptan. hafi afgr. þessi leyfi hlutdrægnislaust gagnvart öllum. Engum kemur til hugar, að það sé gert. Ég er þó ekki að væna í sjálfu sér nm. hvern fyrir sig, að þeir vinni starf sitt ekki vel. En ég fullyrði, að þeirri n. séu svo gersamlega mislagðar hendur í sínu starfi, að slíkt hefur ekki þekkzt hér áður.

Hæstv. ráðh. gat um það., að þessar ráðstafanir væru gerðar af gjaldeyrisástæðum: Já, í orði kveðnu kann það að vera, að svo sé, — en hve mikið ætlar hæstv. ráðh. að spara gjaldeyri á því að halda við þessum reglum? Gerir hæstv. ráðh. ráð fyrir því, að það sé ákaflega mikill sparnaður í því? Ef svo er, eins og hann segir, að mikið af erlendum gjaldeyri sé í eigu einstakra Íslendinga erlendis, sem ekki hafi verið gefið upp, gerir hann þá ráð fyrir því, með því að inniloka Íslendinga svona í landi sínu, að þessi faldi gjaldeyrir komi fram til þess að kaupa fyrir nauðsynjavörur, sem hæstv. ráðh. sagði, að vantaði í landið? Að birgðalaust sé í landinu af nauðsynjavörum og matvörum þrátt fyrir þrjú til fjögur hundruð millj. kr. gjaldeyri fyrir útfluttar vörur, tel ég alveg óverjandi. En ég skal ekki mótmæla hæstv. ráðh., að slíkt ástand stafi að einhverju leyti af gjaldeyrisleysi, en ég hef þó mjög ríka ástæðu til þess að ætla, að einnig hafi skort leyfi til þess að flytja inn matvörurnar. Og þegar hreyft hafði verið við þessu máli, var frá því skýrt, að viðskiptan. og fjárhagsráð muni gera ráðstafanir til þess, að séð verði um, að 3–5 mánaða birgðir verði til í landinu af þessum vörum.

Það má á ýmsan hátt túlka þetta mál, m.a. þannig, að maður sjái ekki aðalatriðið í málinu, sem er, að verið er að loka Íslendinga inni í sínu eigin landi og þeir mega ekki hreyfa sig út úr landinu, hvernig sem á stendur, nema með leyfi n., sem viðurkennt er, að séu mjög mislagðar hendur í starfi sínu. Það má líka segja, að við getum ekki borgað fyrir matvörur, á meðan við flytjum inn kapítalvörur fyrir nærri helminginn af þeim gjaldeyri, sem við höfum yfir að ráða, sem á þessu ári komst upp í 40–50%. Virðist því þurfa að breyta hér um stefnu og vinnuaðferð, og hef ég ástæðu til þess að ætla, að fjárhagsráð sé farið að gera ráðstafanir í þá átt. Ég skal ekki koma inn á þá fjárfestingu, sem við erum nú að komast inn á hér. Það er annað mál, sem kemur ef til vill til umræðu síðar. Ég veit líka, að allir eru í raun og veru sammála um það, að þátt nauðsynlegt sé að byggja margt hjá okkur, þá getum við ekki gert það á kostnað almennra neyzluvara í landinu, með öllum þeim afleiðingum, sem það hlýtur að hafa í sambandi við vaxandi verðbólgu.