03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

204. mál, einkasala á tóbaki

Gísli Jónsson:

Út af fyrirspurn til mín frá hv. 3. landsk. (HV) um það, hvað liði afgreiðslu fjárl., vildi ég aðeins upplýsa eftirfarandi: Við afgreiðslu fjárl. eftir 2. umr. felldi meiri hl. Alþ. sparnaðartill., sem fram komu frá fjvn., að upphæð tæpar 1.600.000 kr., og hygg ég, að hv. 3. landsk. hafi a.m.k. átt þátt í falli sumra þeirra till. Eins og kunnugt er, er greiðsluhallinn 28 millj. kr., en það er ekki fyrir rask fjvn. sérstaklega. Það voru fyrirskipanir frá meiri hl. Alþ., að 76 millj. kr. væru teknar til dýrtíðarráðstafana, og var sumt af því gert eftir vilja hæstv. fjmrh., eftir því sem hann lýsti í fjármálaræðu sinni. Fjvn. hefur hins vegar gert till. um 8–9 millj. kr. hækkun og jafnframt 7 millj. kr. lækkun, svo að röskunin, sem fjvn. gerði á frv., er sáralítil. Síðan þetta skeði, hefur orðið samkomulag um það við flugmálastjórnina og flugmálaráðh. að lækka aftur um 340.000 kr. framlagið til flugmálanna. Annað hefur ekki orðið samkomulag um. En ríkisstj. hefur tjáð mér, að hún sé með ýmsar till., sem hún muni síðar leggja fram sem umræðugrundvöll fyrir n. Það mál er ekki komið lengra í dag, enda hefur hæstv. utanrrh. skýrt frá því. — Ég tel rétt, að þetta komi fram, úr því að beint er til mín fyrirspurn um þetta atriði.

Afstaða mín til þessa máls, sem fyrir liggur, er ekki mörkuð í sambandi við afgreiðslu fjárl. Að vísu gefur þetta tekjur, sem hjálpa til að koma saman endum fjárl. En afstaða mín til þessa máls er mörkuð af þeirri lífsskoðun, að það ætti helzt að útrýma tóbaki og áfengi úr landinu. Ég tel þetta eina leiðina til þess að draga úr neyzlu tóbaks og áfengis, og þeir, sem á annað borð vilja hafa þennan munað, eru þá ekki of góðir til þess að greiða þennan skatt til ríkissjóðs. Af þeirri ástæðu mun ég greiða atkv. með frv., burtséð frá afgreiðslu fjárl.