04.05.1949
Neðri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

204. mál, einkasala á tóbaki

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég álít, að þetta mál, sem hér er til 2. umr., hefði gjarna mátt fara til fjhn. Það er góð regla hjá okkur að láta mál fara til n., og hefur það að minnsta kosti komið fyrir, hafi ríkisstj. lagt áherzlu á að fá mál afgr. nógu fljótt, að hún hefur óskað þess, að fjhn. afgr. það á 5 mínútum. Nú var fellt af meiri hl. að láta þetta mál fara til n., og álít ég það vera mjög ópraktíska meðferð á þingmáli. Það var líka annað mál flutt í d., að beiðni hæstv. ríkisstj., sem fjhn. hafði verið beðin fyrir. Fékkst aldrei neinn fundur í fjhn. um það mál, og svo féll málið. Það eru góð vinnubrögð að láta þetta ganga þannig! Ég skal ekki segja, að þannig fari um þetta, en vildi aðeins segja þetta út af atkvgr., sem fór fram hér áðan, því að það hefði ekki tafið málið, þó að fjhn. hefði fjallað um það.

Ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., hvað ríkisstj. gengur út frá, að þessi fækkun, sem hér á að verða á tóbakinu, muni gefa mikið í ríkissjóð á þessu ári, þannig að hægt verði að gera sér nokkra grein fyrir, hvað þetta mundi þýða miklar tekjur. Það var venjulegt hér áður fyrr, að slíkt var nefnt í grg. En væri það ekki gert, fengu, fjhn. þingsins venjulega upplýsingar um, hvað reiknað var með miklum tekjum af hverjum tekjulið. Mér þætti því vænt um, ef hæstv. fjmrh. vildi gera grein fyrir, hvað hann byggist við, að þetta mundi afla ríkinu mikilla tekna.