04.05.1949
Neðri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

204. mál, einkasala á tóbaki

Einar Olgeirsson:

Ég skal alveg fría ríkisstj. af þeim áburði, sem fjmrh. virtist nú taka næst sér af því, sem ég bar á hana, að það væri fyrir hennar aðgerðir, að menn minnkuðu sérstaklega við sig brennivínskaup. Ég býst við, að það sé mjög fjarri því, að ríkisstj. geri nokkrar sérstakar ráðstafanir til þess eða hafi reynt að hindra menn í því að kaupa eða drekka áfengi. En ásökun mín var miðuð við hitt, að ríkisstj. hefði gert ráðstafanir til þess að minnka kaupgetu manna í landinu og rýrt afkomu þeirra og þar með gert þeim erfiðara fyrir að kaupa nauðsynjar sínar.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að ræða dýrtíðarmálin almennt við þessa umr., enda verður það nú ekki í stuttu máli betur gert en ríkisstj. hefur gert í grg. fyrir þessu frv.