05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

100. mál, jeppabifreiðar

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað frv. þetta allrækilega og komizt að þeirri niðurstöðu að leggja til, að tveimur gr. þess verði breytt lítillega.

Fyrri brtt. er um að fella niður síðasta málslið 3. gr., en hann hljóðar á þá leið, að tala þeirra bifreiða, sem afhentar eru stofnunum og starfsmönnum þeirra, megi ekki fara fram úr 1/25 af úthlutaðri bifreiðatölu hverju sinni, nema úthlutunarn. gjaldi því samhljóða jákvæði. Það kom nefnilega í ljós við athugun, að til að byrja með mundi þetta ákvæði rekast tilfinnanlega á þörfina. Jeppar hafa ekki verið fluttir inn undanfarin ár, og er því tilfinnanleg vöntun á þeim til starfsmanna stofnana landbúnaðarins, sem ferðast um land allt erinda þessa atvinnuvegar. N. komst því að þeirri niðurstöðu, að eins og sakir stæðu a.m.k., væri rétt að fella þetta ákvæði niður og treysta á, að úthlutunarn. gætti hófs í þessu efni og úthlutaði ekki fleiri bílum í þessu skyni, en brýna þörf bæri til hverju sinni.

Síðari brtt. n. er við 6. gr., og eru tölul. hennar umorðaðir nokkuð. Þannig er t.d. gert ráð fyrir, að þeir einir komi til greina við úthlutun bifreiðanna, sem hafa þeirra full not, þ.e. búa við slík samgönguskilyrði. N. lítur svo á, að þar, sem ekki hagar svo til með vegi, að bifreiðar komi að fullum notum til fólks- og vöruflutninga, sé miklu heppilegra að fá léttar dráttarvélar á þá bæi og nota þær. Þær koma að fullum notum, þótt ekki séu vegir, og þeim er ætlaður dráttur, en jeppum ekki nema að litlu leyti. Þar, sem þannig hagar til, að hægt er að nota jeppana til ferðalaga og flutninga auk dráttar, eru þeir einkar hagkvæm tæki, en þar, sem lítil not eru að þeim til ferðalaga og flutninga vegna vegaleysis, er engin meining í að fá þá; þar er bæði ódýrara og miklu heppilegra að eiga litlar dráttarvélar. Á þetta vildum við benda.

Þá leggjum við til, að 4. tölul. 6. gr. falli niður, því að hann er raunverulega tekinn upp í 3. lið. — Loks vill n. gera smáorðalagsbreyt. á 5. lið, en annað hefur hún ekki að athuga við frv. og leggur til, að það verði samþ. með þeim breyt., sem ég hef lýst og tel ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir.