06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið umræður um þetta mál. Enda þótt umræður hafi að talsverðu leyti snúizt hér um hið almenna fjármálaástand og hverjir þar beri ábyrgðina, þá mun ég ekki fara út í það að neinu ráði. Hæstv. fjmrh, taldi, að hv. þm. Str. bæri þarna sökina á þeirri þróun, sem hófst árið 1942. Jú, ég man eftir, því, að hv. þm. Str. beitti sér fyrir því árið 1942, að sett voru lög, sem miðuðu að því að stöðva hækkanir á verðlagi í landinu. L. mættu mikilli mótspyrnu, en ég býst við, að hægt hefði verið að halda þeim uppi, ef aðrir stuðningsmenn þeirra hefðu staðið við það, sem þeir höfðu samþ. Og ég býst líka við, að það væri allt annað fjármálaástand nú, ef stefnu hv. þm. Str. hefði verið fylgt.

Þá verð ég að segja, að mér þykir hart að heyra ráðh. úr fyrrv. ríkisstj. deila mjög á núv. ríkisstj. fyrir fjármálastjórn hennar. Það er eins með ríkisstjórnir eins og ábúendur á jörð, þar sem sonur tekur við af föður, að fjármálastjórn hverrar ríkisstj. markast af því hvernig fyrirrennari hennar hefur staðið í stykkinu. Aðstaða hæstv. ríkisstj. nú er svipuð og sonar, sem hefur tekið við af föður sínum, — faðirinn tekið við auð fjár,en eytt honum og sóað og skuldbundið búið við alls konar útgjöld, sem sonurinn á örðugt með að rísa undir, og ekki nóg með það, heldur vanið hjúin þar að auki á ýmislegt, sem ekki er búinu til hagsbóta a.m.k. Svo getum við hugsað okkur að faðirinn komi í hornið hjá syni sínum, og þá lætur hann sig ekki muna um að vera með sífellt nöldur og kenna honum allt, sem aflaga fer. En ég skal nú ekki fara lengra út í þetta.

Hér er til umræðu frv. um bifreiðaskatt, en ekki um almenna fjármálastjórn. Þess vegna hef ég kvatt mér hljóðs til að lýsa því yfir, að þótt við engin fjármálavandræði hefði verið að stríða í svipinn, þá hefði ég verið með frv., sem gengur í þessa átt sökum þess að ég hef enga trú á því, að við Íslendingar höldum uppi góðu vegakerfi nema með því að láta samgöngurnar sjálfar bera nokkurn kostnað af því. Ég hygg það sé víðast hvar svo meðal annarra þjóða. Járnbrautir eru víða gróðafyrirtæki, sem rekin eru af gróðafélögum. Annars staðar eru ríkisjárnbrautir, og eftir þeirri reynslu, sem við höfum af slíkum rekstri hér á landi, er við búið, að þær beri sig ekki eins vel. En þrátt fyrir það, sem sagt, þótt aðrar þjóðir hafi járnbrautir og noti því vegi tiltölulega minna, en hér er gert, þá hafa þær skatt á benzíni og ekki lægri en við. Ég skal játa, að mér er ekki kunnugt um, hvað þessi skattur er hár í dag hjá ýmsum þjóðum. En fyrir nokkrum árum, er ég var í fjhn. þessarar hv. d., lágu fyrir skýrslur um þetta efni, og ég man ekki betur, en þá þegar væri benzínskatturinn í Danmörku 35 aurar á lítra. Nú erum við 30 sinnum færri en Danir, en búum á þrisvar sinnum stærra landi, sem auk þess er mjög fjöllótt og illt yfirferðar. Mér er því óskiljanlegt, hvernig við eigum að geta komizt hjá því að hafa eitthvað hærri toll á benzíni en Danir t.d. Ég get því fyrir mitt leyti tjáð ylgi mitt við þetta frv. í aðalatriðum. Ég álít, að það fyrirkomulag verði að vera, að samgöngur borgi sjálfar vegaviðhaldið, en get hugsað mér, að ríkissjóður greiði nýbyggingu vega með sérstökum framlögum. Þessi skoðun mín byggist á því, að notkunin á veginum skapar viðhaldsþörfina og þess vegna eðlilegt, að notendurnir haldi veginum við.

Ég óska eftir, að athugaðir verði möguleikar á því, að vissar bifreiðar fái undanþágu frá þessum skatti. Þar hef ég í huga bifreiðar, sem flytja vörur fyrir almenning, og slíkri undanþágu væri ég samþykkur, ef hægt væri að koma henni við. Ákaflega mikið af bifreiðaakstri hér er í sambandi við skemmtiferðir. Það má að vísu segja, að það sé ekki óþarfi að skemmta sér, en það er svo margt hér, sem verður að skattleggja, og hvers vegna má þá ekki skattleggja þessar skemmtiferðir eins og annað, t.d. ferðapelann, sem aldrei þykir of hátt tollaður? Og sannleikurinn er sá, að skemmtiferðafólki er ekki svipað því eins tilfinnanlegt að greiða ofur lítinn skatt af benzíninu eins og tollinn af ferðapelanum. (HV: Og kannske jafnhátt.) Það sagði ég ekki. Þessi skattur er ekki heldur svo hár, að hann hafi stórkostleg áhrif á ferðakostnað, því að benzínið er ekki aðalkostnaðurinn við útgerð bifreiða. En hvað sem um þetta er að segja, þá hef ég ekki trú á, að þessi fámenna þjóð fái haldið uppi góðu samgöngukerfi í þessu landi nema hún fái að minnsta kosti viðhaldskostnaðinn greiddan af samgöngunum sjálfum.