16.12.1948
Neðri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér skildist svo, að hæstv. fjmrh. ætlaði að taka fyrstur til máls. Hefði verið gott að fá upplýsingar hjá honum. En sé þessu eigi þannig farið, vil ég nota tækifærið til að ræða ofurlítið þetta mál.

Svo lízt mér sem með þessu frv. gangi hæstv. stj. spori lengra, en áður í þá átt að auglýsa ráðleysi sitt í aðsteðjandi vandamálum. Virðist mér, að ekki verði komizt hjá því að ræða ýtarlega ástand það, sem sjávarútvegurinn á nú við að búa, og hvernig þessar ráðstafanir munu verka á hann. Hæstv. ríkisstj. telur, að frv. eigi að vera aðstoð við bátaútveginn. En ég vildi kalla það aðför að honum. Mér sýnist, að af hálfu hæstv. stj. sé markvisst unnið að því að ganga af sjávarútveginum dauðum. Ég sé ekki betur, en verið sé — og það er kórónan á allt saman — að tryggja þeim mönnum, sem græða á framleiðslu þjóðarinnar og í landi eru, völd og sérréttindi áfram. Mér sýnist, að með frv. sé stefnt að því að eyðileggja sjávarútveginn; sem þjóðin lifir af, en tryggja skrifstofuvaldinu í landi og sterkasta auðvaldinu æ betri aðstöðu til að kreppa að sjávarútveginum. Við verðum að gera oss ljóst, að sjávarútvegurinn er vandræðum hlaðinn. Í fyrsta lagi fyrir sakir þess, að með valdboði eru afurðir hans teknar af honum, og í öðru lagi, þegar vörurnar hafa verið teknar, þá er gjaldeyri þeim, sem kemur inn fyrir þær, úthlutað til óviðkomandi manna í þjóðfélaginu. Svo fremi sem hér ríkti það frelsi í atvinnulífinu, sem stjskr. gerir ráð fyrir, væri sjávarútvegurinn hin eftirsóttasta atvinnugrein sökum valda þeirra, sem útvegsmenn hlytu í þjóðfélaginu vegna yfirráða sinna yfir eigin afurðum og gjaldeyrinum fyrir þær. En nú sviptir ríkið sjávarútveginn þeim vörum, sem hann framleiðir til útflutnings. Leggur þetta þær skyldur á þjóðfélagið að taka það tillit til sjávarútvegarins, að honum sé eigi þjakað með svo þungum byrðum, að hann brotni undir þeim, og veita öðrum stéttum ekki meiri fríðindi en honum. Á hinn bóginn er með pólitík þeirri, sem rekin hefur verið undanfarið, verið að flæma menn inn í skriffinnsku- og verzlunarstéttirnar, en koma þeim burt frá framleiðslustörfunum, höfuðatvinnuvegum landsmanna. Hefur aldrei áður verið gert eins mikið í þessu skyni og nú í þessu frv. Hér í þjóðfélagi voru hefur átt sér stað barátta um skeið: hvort ríkið eigi að gera ráðstafanir til að efla sjávarútveginn eða auka skriffinnskuapparatið. Í tíð fyrrv. stj. voru skipin spor í eflingarátt sjávarútveginum til undirstöðu þjóðlífsins. Þá baráttu varð að heyja, þar sem bankavaldið var í broddi fylkingar og verzlunarauðvaldið og skriffinnskuapparatið þeir aðilar, sem berjast varð við. Stóð í þófi við Landsbankann mánuði eða eitt ár út af stofnlánadeildinni til lána handa sjávarútveginum. Ég vissi, að svo framarlega sem þessi öfl væru látin leika lausum hala áfram,að verzlunarauðvaldið rakaði til sín gróðanum af okurvöxtum, þá mundi sjávarútvegurinn lenda í sömu vandræðunum og milli stríðanna. Það varð að gera út um það, hvort ríkið vildi styðja sjávarútveginn í sama mæli og landbúnaðinn, sem ég man eigi betur en njóti í fjárlagafrv. um 20 millj. kr. framlags úr ríkissjóði, þó að eigi sé nægilegt til fulls til styrktar, en til sjávarútvegsmála mun lögð um 1 milljón. Það varð eindregið að skera úr um, hvor stefnan ætti að verða ofan á, afætustefnan eða stefna framleiðenda. Við sósíalistar urðum varir við, meðan við sátum í stj., hve sterk þau öfl voru, er koma vildu útveginum í sama ófremdarástandið og fyrir ófriðinn. Og þessi öfl hafa nú sigrað, sem lýsir sér í þessari beinu árás á sjávarútveginn, sem fram kemur í frv., — að gera á hann upp, á sama tíma og þjóðfélag vort er ríkara, en nokkru sinni fyrr og meira til af milljónamæringum í Reykjavík en áður, þótt fæstir þeirra hafi auðgazt á útgerðinni sjálfri. Gott er, að fram komi, að um frv. verði nú sú barátta, hvort skriffinnskuapparatið eigi að fá að læsa helgreipum sínum um atvinnuvegina. Það er eigi hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að tala um flóttann frá framleiðslustörfunum, þegar um leið er rýrð aðstaða þeirra, sem að framleiðslunni standa, en greitt fyrir skriffinnunum og auðmönnunum í Reykjavík. Sjávarútvegurinn er algerlega fjötraður. Ríkið hefur allt ráð hans í höndum sér. Hæstv. stj. spyr ekki útvegsmenn, heldur selur vörur þeirra, án þess að þeir fái að fylgjast með. Afurðirnar eru teknar með valdboði, eins og á tímum lénsfyrirkomulagsins, þegar aðalsmenn réðu yfir afurðum ánauðabændanna. Á svipaðan hátt er nú sýslað með afurðir smábátaútgerðarinnar. Hæstv. stj. tekur sér valdið, og útvegsmenn eru ekki frjálsir. Ég var t.d. eitt sinn staddur á Djúpavogi. Þar er nýtt hraðfrystihús, er miklar vonir eru bundnar við varðandi útgerðina. En þá berst bara tilkynning frá bönkunum, að þeir láni hvorki út á steinbít né þorsk, nema fiskurinn sé settur í amerískar pakkningar. Útgerðarmenn á staðnum höfðu þá eigi bolmagn og engan rétt til að flytja út fiskinn. Þó voru hundrað fyrir einn, sem buðust til að kaupa hann. En allt stöðvaðist. Þeir voru ekki frjálsir. Og þannig er farið að því á ýmsa vegu að stöðva bátaútveginn. Ég veit, að á Austurlandi eru t.d. 10 hraðfrystihús. En útgerðarmenn þar finna aðeins skilningsleysi. Þegar þá langar til að halda áfram, fá þeir ekki lán, eru sviptir yfirráðum afurða sinna og eru svo allar bjargir bannaðar. Vegna þessa býr útvegurinn við kröpp kjör. Ég sé á frv., að hert er harðvítuglega að útgerðarmönnum. Er alveg dæmalaust, að hægt skuli á svo skömmum tíma eftir stór átök til að auka sjávarútveginn að koma fram með slíkar aðgerðir. Verður þess ekki vart, að hv. þm. geri sér ljóst, að verið er að koma sjávarútveginum í sjálfheldu. Þrátt fyrir aflabrest hefði hann komizt betur af, ef hann hefði fengið að ráða fyrir afurðum sínum sjálfur. Er hart aðgöngu, að enginn skilningur skuli koma fram um þetta. Hér er fyrst og fremst framið óréttlæti gagnvart sjávarútveginum og þeim, er að honum vinna. Hagur þeirra er rýrður, og verið er að koma skuldaskilum á útveginn, á meðan stéttum þeim, sem græða, er hlíft, og án þess að hér fylgi með álögur á auðmannastéttina. Mér var það ljóst við stjórnarskiptin, að um var að ræða átök milli sjávarútvegsins og verzlunarauðvaldsins í Reykjavík. Og í þessu frv. lætur það nú kné fylgja kviði. Við sósíalistar lögðum það til, þegar samningar fóru fram um, stjórnarmyndun veturinn 1946–47, að gerðar yrðu þjóðfélagslegar ráðstafanir varðandi verzlunarauðvaldið, því að skera varð niður gróða þess. Öllum slíkum till. var hafnað, og hinir urðu ofan á, þeir er rýra vildu lífskjör fólksins. Kemur hér fram enn ein ráðstöfun í þá áttina. Þetta er þeim mun verra, að hér er verið að ráðast á alþýðumenn, en hinum hlíft, þar sem auðurinn er meiri. En nú er það svo, að um 200 ríkustu einstaklingar og einkahlutafélög í Reykjavík eiga um 500–600 millj. kr. í skuldlausum eignum, fasteignum og öðru. Ég þykist vita, að hæstv. ríkisstj. muni sem fyrr svara því til, að vandræðaástandið í sjávarútvegsmálum stafi frá verðbólgunni. Þá mætti búast við till. um að draga úr henni. En hér er reynt að auka hana. Á sama tíma og verzlunarauðvaldið græðir, er sjávarútvegurinn rekinn með tapi — með valdboði. Þetta ástand stafar eigi frá verðbólgunni. Jafnvel þótt hæstv. stj. væri búin að koma hér á atvinnuleysi að nýju, lækka kaup verkamanna og rýra kjör þeirra eins og á árunum 1933–34 og hún væri búin að koma fram öllu því, sem hana dreymir um og einkenndi kreppuárin um lágt verð á öllum sjávarafurðum, þá hefði þetta ástand ekki breytzt. Hvernig var t.d. ástatt 1933? Sjávarútvegurinn var þá rekinn með tapi, þó að kaupið væri lágt. Eftir skýrslum frá Rauðku nam tapið á árinu um tveim millj. kr., en gróði verzlunarinnar um 500 milljónum. Núverandi ástand mun því haldast, þótt verð og kaup væri orðið eins og það var 1933, þegar útvegurinn var rekinn með tapi, en verzlunarauðvaldið græddi. Þetta er því aldagömul barátta, og verður hún eigi gerð upp á annan hátt en þann, að tryggðar séu aðalatvinnugreinar þjóðarinnar, svo að betur borgi sig að starfa við þær, en drottna í skriffinnskuhappdrættinu og verzlunarbákninu í Reykjavik. En frv. það, sem hér liggur fyrir, gengur í þveröfuga átt. — Þetta vildi ég sagt hafa varðandi höfuðstefnu frv. og hverjum höndum hér er tekið á aðalvandamálunum.

Hv. 2. þm. S–M. bar hér fram fsp. um síðari mgr. 2. gr. í I. kafla frv.: hvers vegna fiskábyrgðin takmarkaðist af markaðshorfunum. Ég hafði nú búizt við svari frá hæstv. ríkisstj., — og því meiri ástæða var til þess, sem auðséð er, að hæstv. ríkisstj. vegna ráðstafana sinna um afurðasöluna liggur undir harðri gagnrýni og þungum grun um að hafa eigi hagnýtt sér sölumöguleikana til fulls. Og ég verð að taka það fram, að hart er í meira lagi, úr því að hér er um milljónaálög á þjóðina að ræða, að hæstv. stj. fái í hendur allar afurðir sjávarútvegsins. Hún á að annast sölu þeirra, án þess að Alþ. sé gerð grein fyrir ráðstöfunum hennar eða það fái að hafa þar hönd í bagga. Það er ekki óeðlilegt, þó að menn sjái ástæðu til að andmæla því, að með einokun, valdboði eins ráðh., sé farið að selja allar afurðirnar út úr landinu og því næst afnumið allt eftirlit. Það er staðreynd, að n. þær, sem áður störfuðu að þessum málum, hafa verið afnumdar í því skyni að einoka þetta undir stj. og koma sölunni undan öllu eftirliti. Hart er, að hægt skuli vera að fara svona að, örfáir menn skuli geta framið ábyrgðarlausa hluti, án þess að þjóðin fái aðstöðu til að rannsaka gerðir þeirra til hlítar. Hart er og, að síðan skuli komið og þess krafizt eftir á,að fulltrúar þjóðarinnar samþykki 20 millj. kr. álög á þjóðina, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hafi ekki getað selt þessar afurðir fyrir ábyrgðarverð. Ég hef skorað á hæstv. stj. að hreinsa nú til hjá sér, gefa yfirlýsingu eða heimila frjálsa sölu, og skora á hana enn að láta nú staðreyndirnar tala. En í þess stað eru afurðirnar teknar með valdi af landsmönnum og seldar við því verði, sem hæstv. stj. ein veit um. Síðan eru lagðar álögur á landslýðinn til að bæta mönnum upp tapið, þó að hægt hefði verið að selja fyrir hærra verð, en hæstv. ríkisstj. fékk. Íslendingar hafa of lengi búið við einokun til þess að þola möglunarlaust, að slíku sé fram haldið í skjóli einokunar. En það er einmitt það, sem verið er að gera. Maður skyldi nú ætla, að fyrsta ríkisstj., sem Alþfl. myndar hér á landi, — maður hefði getað ætlað, að hún sýndi ofurlitla viðleitni til þess að bæta úr þessu ófremdarástandi. En það er öðru nær, og hvergi bólar á einu einasta atriði í þessu frv., sem miðar að því að bæta hag alþýðunnar í landinu, heldur er þvert á móti allt gert til þess að hlaða undir heildsala og svartamarkaðsbraskara. Ríkisstj. hefur ekki með þessu frv. sýnt neina viðleitni til þess að bæta kjör alþýðu manna, heldur miða allar hennar gerðir að því að hlaða undir auðmenn og svartamarkaðsbraskara, að ógleymdu skrifstofubákni því, sem ríkisstj. hefur komið upp. Það er hvergi gerð tilraun til þess að draga úr því, heldur þvert á móti. Það er þegar á þessu þingi búið að bæta við nefndum, og því er haldið áfram með þessu frv.

Ég ætla ekki að gera II. kafla að umræðuefni hér, meðan hæstv. ráðh. er ekki búinn að svara þeim fyrirspurnum, sem fram hafa verið bornar af flokksbróður mínum varðandi þann kafla, hv. 2. þm. S-M., en það væri óneitanlega gott að fá skýringar á þeim kafla, áður en málinu verður vísað til nefndar.

Viðvíkjandi III. kafla vildi ég gera nokkrar athugasemdir við 29. gr. Þar virðist vera gert ráð fyrir allmiklum innflutningi bíla, því að mér skildist það á hæstv. forsrh., að þessi liður mundi gefa af sér 4 millj. kr., en til þess að það geti orðið, þá þarf að flytja inn bíla fyrir 8 milljónir. Að stj. slái því föstu, að flytja eigi inn bíla fyrir 8 millj. kr., það verð ég að segja, að beri ekki mikinn vott um gjaldeyrisskort. Ekki veit ég, hvers konar bílar þetta eru, sem stj. hefur í hyggju að flytja inn, en varla geta það allt verið jeppar til landbúnaðarins. En ef þetta verður samþ., þá er það sýnilegt, að stj. ætlar sér að flytja inn ekki minna en 400–500 bifreiðar á næsta ári. Ef stj. ætlar að flytja inn 400 lúxusbíla, þá er gaman að athuga það, sem hæstv. forsrh. sagði: að ríkisstj. miðaði verðið við svartamarkaðsverð, og þó að menn þyrftu að greiða þessa tolla, þá væri samt hægt að selja þá með 50 þús. kr. álagi. Hvaða ráðstafanir hefur ríkisstj. gert í þessu sambandi? Á allur ágóðinn að renna áfram í hendur svartamarkaðsbraskaranna? Ef bílar verða fluttir inn fyrir 8 milljónir, eða samtals 400–500 bifreiðar, þá verður 20–25 milljóna svartamarkaðságóði af bílainnflutningi ríkisstj. látinn renna áfram til þeirra, sem alltaf fá að græða í skjóli ríkisstj. Er það ekki þetta, sem er meiningin? Ef hæstv. ríkisstj. er ekki búin að gera ráðstafanir, hvernig væri þá að láta þennan gróða renna til útgerðarinnar, láta útvegsmenn hafa svartamarkaðságóðann? Mér er næst að leggja hér fram till. um, að þessum leyfum verði úthlutað til útgerðarmanna, en það má vera, að það fari í bága við móral hæstv. ríkisstj. — þ.e.a.s., að auðvaldið skuli græða, skrifstofubáknið í Reykjavík skuli tútna og blása út, en útveginn skuli umfram allt drepa. Það er verið með einum undirlið 29. gr., c-lið, — það er verið með þessum eina lið að skapa 20–25 millj. kr. fyrir auðvaldsbraskarana hér í höfuðstaðnum. Það væri því synd að segja, að ekki væri til nóg af peningunum, — það er gróðinn, sem gengur hér manna á milli. Þennan gróða gæti stj. tekið, ef hún vildi. Það væri ekki mikill vandi fyrir stj. að klípa svona 20% af milliliðaálagningunni. Nei, ég segi það, að ef stj. hefði snefil af vilja, þá væri vandalaust fyrir hana að aftaka þennan milliliðagróða, náttúrlega á kostnað auðvaldsbraskaranna, og þar með komið útgerðinni að notum og bætt kjör alþýðunnar. En það virðist ekki mega gera.

Við vorum í fjhn. að athuga álagningu á gosdrykkjum og þess konar vöru. Það var talað um að tvöfalda hana. En því þá ekki að þjóðnýta gosdrykkjaverksmiðjurnar? Nei, það má nú ekki. Haldið þið ekki, að „Egill Skallagrímsson“ og „Coca-Cola“ sé heilagt. Haldið þið, að það megi taka gróðann af þeim. Nei, sá fátæki á varla að hafa í sig eða á, en sá ríkari á að vera enn ríkari með hverjum deginum sem líður. Við sósíalistar höfum alltaf haldið því fram, að það væri enginn betur að því kominn, en ríkið að hirða þann gróða, sem lendir í höndum svartamarkaðsbraskaranna. En með þessu frv. er stj. að styðja svarta markaðinn, en flæma menn frá framleiðslustörfunum. Ég hef sýnt fram á, að það er hægt að koma útgerðinni á réttan kjöl, til þess er ein leið: að taka til þess svartamarkaðsgróðann. Það þarf enginn að telja neinum trú um, að það sé nauðsynlegt að leggja þessar álögur á almenning í landinu, ef viljinn væri til annars. Því ekki að taka gróðann sem safnast á fárra manna hendur, í stað þess að þyngja á og þrautpína almenning? Ég ætla ekki að tala um það, að þó að ríkisstj. taki dálítið af íslenzka svartamarkaðnum, þá er ameríski svarti markaðurinn á Keflavíkurflugvellinum eftir. En ríkisstj. er ekki komin svo langt, að hún nái til hans.

Það er auðséð, að með áframhaldi þessarar stefnu, ef þetta frv. verður samþykkt, þá er hert á þeirri stefnu að gera sjávarútveginn, aðalatvinnuveg þjóðarinnar, gjaldþrota, hert á því að pína hina smáu, en gera þá ríku ríkari. Það er mjög undarlegt, að það skuli eiga að fara að skipa hér nefnd, sem á að ákveða það, að hvaða fyrirtækjum skuli gengið. Það eru þessir menn, sem eiga að ráða því, hvort og að hvaða manni er gengið. Þeir segja fyrst: Við tökum gjaldeyrinn af ykkur. Þegar búið er að nota valútuna, þá segja þeir: Nú ert þú búinn að tapa, og ef þú ert óþægur drengur, þá gerum við þig bara upp, en ef þú ert þægur og hlýðinn og kýst rétt, þá sleppum við þér núna í þetta skipti. — Það verður að hafa kontrol með nefndinni. Menn verða að fá að vita, hvað hún gerir, og fylgjast með störfum hennar.

Ég mótmæli þessu — ég mótmæli svona till., sem miðar að því að stefna hagsmunum almennings í glötun. Íslenzka þjóðin vill hafa lýðræði. Hún vill fá að hafa hönd í bagga með því, sem stj. og þingið er að gera. En hvað er verið að gera hér? Það er verið að gera jafnrétti manna að lögum að engu með þessu háttalagi.Það er verið að þverbrjóta öll stjórnarskrárleg réttindi. Ég verð að segja það, að ef haldið verður áfram á þessari sömu braut, þá verður á örskömmum tíma búið að steypa þjóðinni í sama öngþveitisástandið og ríkti á kreppuárunum milli styrjaldanna. Ég er hissa á því, að ekki skuli vera hægt að fá hv. þm. til þess að koma auga á þetta og viðurkenna það.

Hæstv. menntmrh. hafði þau orð, að Framsfl. skoðaði þetta sem bráðabirgðaleið. Má ég þá spyrja: Skoðar hæstv. ríkisstj. sig þá sem einhverja bráðabirgðastjórn, sem hefur það að aðalstefnumáli sínu að auka dýrtíðina í landinu. Ráðherrann segir, að hann verði að sætta sig við þessa bráðabirgðaleið, sem stefnir að því að auka vald skrifstofubáknsins hér í Reykjavík. Hvers konar blekking er þetta eiginlega að fara að kalla þetta bráðabirgðaleið. Þessi sama leið hefur verið farin undanfarið ár, og þá var þetta líka kölluð bráðabirgðaleið. Menn vildu ekki horfast í augu við þetta við síðustu stjórnarmyndun. Þá lögðum við sósíalistar til að fá fjármagn til sjávarútvegsins. Í kapítalísku þjóðskipulagi fer fjármagnið til þeirrar atvinnugreinar, þar sem gróðamöguleikarnir eru mestir. En hér hefur stj. hrúgað undir verzlunarstéttina. Svarti markaðurinn hefur aldrei gefið annan eins gróða og nú. Það þýðir ekki að vera að tala um að fá fjármagn handa útveginum, en gera á sama tíma ráðstafanir til þess að flæma allt fjármagn burt frá honum eins og hér hefur verið gert og verið er að gera. Ég sé ekki betur en að verið sé að rýra kjör almennings í landinu, fjötra útvegsmenn meira en nokkurn tíma undanfarið og stefnt sé að því markvisst að gera þá gjaldþrota, en um leið að skapa gróðamöguleika fyrir svartamarkaðsbraskara og skriffinna hér í Reykjavik. Þetta frv. er raunverulega það sama og að skriffinnskan og verzlunarauðvaldið hrósi sigri, ef það verður samþ., og þið getið verið viss um, að þá verður kné látið fylgja kviði við sjávarútveginn.

Ég kann illa við, að þetta sé kallað hjálp við sjávarútveginn. Þetta er engin hjálp. Þetta er jafnmikil hjálp og hengingarólin er þeim hengda. Hann hangir í henni. Á fjárlögum mun nú vera ráðstafað, — ég man það ekki nákvæmlega, — en það mun vera ráðstafað 1–2 millj. kr. til sjávarútvegsins, en á sama tíma er gert ráð fyrir einum 20 milljónum til landbúnaðarins. Þá hljóta allir að sjá, að þetta öfugstreymi í þjóðfélaginu er með öllu óbærilegt.

Ég ræð hv. þdm. til þess að staldra við og nota hvert tækifæri til þess að sjá, hvert stefnir, ef þessu á að halda áfram.