13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (2706)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Eins og ég skýrði frá í upphafi þessa máls, þegar hv. þm. Barð. (GJ) bar fram þá fyrirspurn hér áðan, hvernig skilja bæri 4. gr., þú spurði ég flm. málsins í Nd., hvernig þeir hugsuðu sér þessa framkvæmd og þá fékk ég í rauninni ekki nema óljós svör. Ég skýrði líka frá því, hvernig ég að athuguðu máli hefði hugsað mér, að þetta yrði framkvæmt, ef samþ. yrði, þ.e.a.s. á þann hátt, að þetta yrði eitthvað svipuð málsmeðferð og nú hefur átt sér stað að undanförnu. Málið hefur borið þannig að, að bílstjórasamtökin hér í Rvík hafa sent erindi til yfirvaldanna í Rvík og n. í Nd., sem fór með þetta mál þar, um að sett yrðu í l. ákvæði um atvinnuréttindi bílstjóra, nánari en nú er gert. Hv. 1. þm. N-M. (PZ) hélt því fram í ræðu sinni áðan, að ég hefði haft einhver samráð við bæjaryfirvöldin í Rvík um það, hvernig þessar reglur yrðu framkvæmdar, en það var vissulega ekki það, sem ég sagði, þó að ég hins vegar geti hugsað mér að hafa það hvað Rvík snertir. En það, sem ég sagði, var það, að til þessara tveggja aðila hefði verið leitað viðvíkjandi Rvík. Ég get vel gengið inn á, að það geti verið nauðsynlegt að setja einhver nánari ákvæði, en nú eru í gildi um atvinnuréttindi leigubílstjóra. Það hefur farið svo með vörubílstjóra, að þeir eru orðnir miklu fleiri en þægilegt og gott er, og ég býst við, að þeir ættu þá ósk helzta nú, að til hefðu verið einhver ákvæði á sínum tíma, sem hefðu hindrað offjölgun í stéttinni, þeim öllum til óþurftar, sem nú gegna þessum störfum, svo að það er ekki fráleitt að hugsa sér einhver ákvæði um þessa stétt. En það, sem fyrir mér vakti með að koma þessu inn í Nd., var, að þetta tímabil frá því að þingi slítur og til næsta þings verði notað til þess að semja um þetta frv., sem verði svo lagt fyrir næsta Alþ. til ályktunar og ákvörðunar. Það, sem bílstjórarnir óttast á þessu tímabili, frá því að benzínið yrði gefið frjálst og þangað til slík löggjöf yrði sett, er það, að offjölgun yrði í stéttinni, sem ómögulegt yrði að útiloka, þegar löggjöfin kæmi til framkvæmda. Það er þetta, sem þessu bráðabirgðaákvæði frv. er ætlað að útiloka. Þess vegna get ég tekið undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. (BÓ) fór fram á, að ég lýsti yfir, að mín meining er vissulega ekki að ráða neinu endanlega til lykta um þetta, heldur halda til bráðabirgða því ástandi, sem nú er, þangað til gengið er frá þessari löggjöf eða gengið ekki. Ef til þess kæmi, að löggjöf yrði um þetta sett, að þá yrði þessi millibilstími ekki til þess að eyðileggja framkvæmdina á grundvelli þeirrar löggjafar, sem þá yrði sett. Þetta hefur verið framkvæmt þannig samkv. reglugerðinni, að í Rvík hefur þessu verið haldið í föstum skorðum hvað tölu bílstjóra snertir og í flestum stærri bæjum. Hins vegar, þegar um minni kaupstaði og kauptún hefur verið að ræða, hefur venjulega verið farið eftir óskum sýslumanna um fjölda bílstjóra, og þannig býst ég við, að þetta mundi verða einnig nú í framkvæmdinni fram á næsta haust, svo að væntanlega ætti það ekki að verða að tjóni, þó að sömu reglur, sem gilt hafa, yrðu framkvæmdar til haustsins, þó að benzínskömmtunin yrði afnumin. Náttúrlega yrði að ganga út frá því, þar sem reglur yrðu um þetta settar á grundvelli þessara l., að það færi ekki í bága við stjskr. eða bryti í bága við almenn mannréttindi. Ég segi fyrir mig, að mig langar ekki til að standa í því og geri ráð fyrir, að ég mundi leita mér upplýsinga um það fyrst, hvort nokkur hætta væri á því, og ef svo væri, væri víst ekki hægt að stemma stigu við þessu nema með því að halda benzínskömmtuninni áfram, því að það er ekkert í l., sem skyldar að afnema hana. Ég vildi nú vona, að til þess þyrfti ekki að koma, að skömmtuninni yrði haldið áfram af þessum sökum. En út frá því verður gengið, að ekki yrði þannig farið með þessar ráðstafanir á neinn hátt, að það að fróðustu manna yfirsýn gæti talizt brjóta í bága við stjskr.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gefa frekari upplýsingar í sambandi við þetta mál og ætla, að það liggi ljóst fyrir, hvernig þessi framkvæmd yrði, ef þetta yrði samþ. svona og kæmi til minna kasta að framkvæma það.