03.02.1949
Efri deild: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

118. mál, raforkulög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það má slá alveg föstu, að eftirspurn eftir rafmagni í dreifbýlinu er og verður mikil. Nú hefur ríkissjóður stuðlað að því á undanförnum árum, með ábyrgðum og öðrum leiðum, að komið hefur verið upp vatnsaflsstöðvum á nokkrum stöðum á landinu og að taugar yrðu leiddar frá þeim um nærliggjandi héruð. Bein fjárframlög ríkisins til þessa hafa verið óskapleg, og hefur svo farið, að ríkissjóður hefur orðið að borga mikinn hluta af því rafmagni, sem héruð þessi hafa fengið, og má hér nefna virkjanirnar í Borgarfirði, Siglufirði og Sauðárkróki til þess að finna þessum orðum stað. En þessi fyrirtæki þurfa að geta staðið sem bezt undir sér og geta borgað það fé, sem lagt hefur verið í þau. Þetta vil ég biðja hv. fjhn. að athuga, að þessi héruð, sem hafa fengið þennan mikilsverða forgangsrétt með raforkuna, að þau ættu að standa undir því að vera þessara þæginda aðnjótandi.

Nú vil ég segja nokkur orð viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. sagði. Þó að svona verði haldið áfram, þá er það gefinn hlutur, að viss hluti dreifbýlisins mun ekki fá rafmagn í tíð okkar, sem erum komnir á sjöunda áratuginn. Það er nauðsyn að reyna að flýta fyrir rafmagninu í sveitir landsins með því að fara aðrar leiðir en farnar hafa verið undanfarið, eins og fólst í fyrirspurn, sem ég gerði til ráðh. í vetur. Ég skal ekki segja um lánið, en ákvæði í þá átt eru brýn. Hæstv. ráðh. vill flytja þessar vélar inn og selja þær hverjum sem er út um landið, og hv. flm. frv. leggur til, að öllum þeim, sem hafa í hyggju að koma sér upp dieselrafstöð, verði gefinn kostur á að fá lán til þeirra framkvæmda. Þó að eftirlit væri nú gott með þessum vélum, þá er mjög óheppilegt að dreifa þeim út um allt land. Vélamenning okkar er stutt, og lítil er kunnátta manna við að umgangast vélar. Allan þorra manna í sveitum landsins brestur kunnáttu til að fara með þær. Þess vegna væri eðlilegt að taka aðeins lítil svæði fyrir í einu, en tryggja um leið, að kunnáttumaður verði í héraðinu, sem geti tekið að sér viðgerðir véla, ef biluðu, jafnframt því sem hann leiðbeindi um meðferð þeirra. Ef frv. þetta verður að l., ætti að láta diselstöðvarnar ganga yfir landið í öldum og þá fyrst og fremst þangað, sem ekki eru fallvötn til virkjunar. Og ég vildi verja ríflegum styrk úr ríkissjóði til þess að koma upp viðgerðarverkstæðum fyrir þessar vélar, og það munu margir gera, heldur en að þurfa að bíða hver veit hvað, ef vél bílar. Ég vil undirstrika þetta, og ég legg mikla áherzlu á þetta, að það sé hv. þm. ljóst, að menn hafa ekki þekkingu til að fara með þessi tæki og enn síður þekkingu til að bera til að geta gert við þau, ef eitthvað færist úr lagi. Það eru aðeins fáir staðir á landinu, þar sem hægt er að fá aðstoð með viðgerð rafvéla, og þeir eru þar, sem raforkan er útbreiddust.