09.02.1949
Neðri deild: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

120. mál, menntaskólar

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það er aðallega til þess að leiðrétta misskilning hjá hv. þm. Ak. Hann hélt því fram, að kennarar Menntaskólans á Akureyri hefðu verið látnir vera utan við samningu hinna nýju fræðslul. En staðreyndir málsins eru þessar: 1. Kennurum Menntaskólans á Akureyri voru send frumdrögin að frv. með spurningum og beiðni um athugasemdir, sem þeir gerðu. 2. Skólameistari þáverandi, Sigurður Guðmundsson, var kvaddur á fund milliþn., og var hann með n. í þrjá daga og ræddi við hana atriði, er vörðuðu kaflann um menntaskóla. 3. Frv. var lagt fyrir sameiginlegan fund kennara við báða menntaskólana. Þetta kalla ég ekki að setja kennara Menntaskólans á Akureyri utan hjá. En hitt er rétt, að hjá ýmsum þeirra kom fram það sjónarmið, að rétt væri að viðhalda 6 ára menntaskóla, en engar ákveðnar till. komu fram um það, og þáverandi skólameistari hélt ekki fast á þessu atriði og sagðist geta sætt sig við frv. - Svo eru það kaupfélögin. Ég hef, eins og allir vita, mikinn áhuga á þeim. Hv. flm. sagði, að nær allur Norðlendingafjórðungur óskaði eftir, að frv. hans næði fram að ganga, og bar m.a. fyrir sig samþykktir kaupfélagsfunda. Já, kaupfélögin eru sterk á Norðurlandi, og er gott eitt um það að segja, en það er alveg spánýtt starfsvið þeirra að skipta sér af skólamálum, og ég held, að aðalfundir kaupfélaganna séu aðallega um annað að hugsa og kunni betur skil á lausn annarra vandamála, en skólamálanna. — Svo er það hæfni kennaranna. Það er rétt að milliþn. gerði háar kröfur, en n. datt aldrei annað í hug en gera mætti undantekningar. Svo segir í 37. gr. l., er talin hafa verið skilyrði, sem gagnfræðaskólakennarar þurfa að uppfylla: „Heimilt er og að gera að föstum kennurum þá, sem kennt hafa tvö ár hið minnsta með góðum árangri við skóla, sem svara til gagnfræðastigsins, þegar lög þessi taka gildi, enda komi meðmæli skólastjóra til.“ Og enn fremur: „Nú sækir enginn, sem fullnægir þessum skilyrðum, um lausa kennarastöðu, skal þá skólanefnd og fræðslumálastjórn leitast við að fá til hæfan mann, og má að tveim árum liðnum gera hann að föstum kennara, enda komi meðmæli hlutaðeigandi skólastjóra til.“ Og loks segir: „Ákvæði þessarar greinar taka þó ekki til þeirra, er skipa fastar stöður við skóla gagnfræðastigsins, þegar lög þessi koma til framkvæmda.“ Milliþn. var sem sé ljóst, að það mundi kosta alllangt árabil að fá kennarahóp, sem uppfyllti kröfur þær, sem taldar eru í l., og gekk því út frá því, að gamlir kennarar við skólana héldu stöðu sinni og að veita mætti undanþágur, og það skal ég segja þeim til hróss, er við gagnfræðaskólana hafa kennt, að þeir hafa sýnt það, að þeir geta undirbúið nemendur sína prýðilega undir landspróf. Ég er eðlilega sammála hv. þm. Ak. í því, að æskilegt er að hafa sem bezta kennara, og vil benda á í þessu sambandi, að reynsla kennaranna, sem þeir hafa öðlazt í löngu starfi, er kannske eins mikils virði og háskólanám. — Svo er það þetta, að ég segist vera móti löngum skólum, en leggi þó til, að menntaskólanámið sé 7 ár. Þetta er hártogun. Gagnfræðanámið og menntaskólanámið fær nemandinn ekki skv. l. í sama skóla, þótt hvort tveggja sé nauðsynlegur undanfari stúdentsprófs. Laugaskóli og Menntaskólinn á Akureyri verða t.d. aldrei sami skólinn. Það er heldur ekki alls kostar rétt, að námið til stúdentsprófs hafi verið lengt um eitt ár, úr 6 árum í 7, því að 7. árið er fengið með því að lækka barnaskólanámið um eitt ár, svo að skólatíminn lengist raunar ekkert. Ég fjölyrði þetta svo ekki meir að sinni. Ég lofa hv. þm. Ak. því, sem hann treysti mér til, að athuga vandlega öll gögn í málinu, ef ég fæ tækifæri til að fjalla um það í menntmn.