09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

120. mál, menntaskólar

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Ég hef ekki heldur ástæðu til að orðlengja um þetta mál. Ég vil aðeins geta þess, að meiri hl. menntmn. hefur haft til athugunar brtt. hæstv. menntmrh., og ég vil aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu meiri hl.

Hæstv. ráðh. hefur tekið aftur b-lið till. sinnar. Það var sá liður, sem meiri hl. taldi versta hluta þeirra breyt., sem till. felur í sér, og kemur hann þess vegna ekki til umr. hér. En varðandi fyrsta liðinn er það að segja, að það virðist nokkurn veginn liggja í augum uppi, að mat á því, hvenær húsrúm leyfir, hljóti að vera gert með samkomulagi skólastjóra sjálfs og fræðslumálastjórnarinnar, þannig að mér virðist og meiri hl., að þessi brtt. sé óþörf, auk þess sem í henni felst dálítið vantraust að óþörfu á stjórn skólans. Ég held þess vegna, að betur færi á því, að þessi brtt. yrði ekki samþ., og er það álit meiri hl. menntmn. Varðandi hitt atriðið, e-liðinn, að deildirnar skuli vera með óskiptum bekkjum, er það að segja, að eins og frv. er nú, þá er fyrst og fremst utanbæjarmönnum tryggður aðgangur að þessari deild, og það er að sjálfsögðu andi þessara bráðabirgðaákvæða. Þess vegna er það ekki tekið fram berum orðum, að deildin skuli starfa með óskiptum bekkjum, en það er lagt til með þessari brtt., að það skuli tekið fram berum orðum. En nokkrir möguleikar eru fyrir Akureyringa til að komast í þessa deild og að því er virðist að óþörfu, því þótt Akureyri hafi undanfarin ár haft tækifæri til að sækja menntaskólann, neðstu bekkina, þá hefur gagnfræðaskólinn á Akureyri dafnað ágætlega og vaxið upp við hliðina á menntaskólanum og er nú orðinn fjölmennur og öflugur skóli. Mér skilst, að þessi brtt. sé þess vegna einnig óþörf, og meiri hl. n. taldi sig ekki geta mælt með henni.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég vil endurtaka það, að meiri hl. n. mælir með, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það var afgr. við 2. umr . málsins.