08.04.1949
Neðri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (3162)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í stjórnarskrá okkar Íslendinga er, eins og í stjórnarskrám margra lýðræðislanda, ákvæði um málfrelsi þingmanna. Í okkar stjórnarskrá er ákveðið, að engan þm. er hægt að krefja ábyrgðar á orðum sínum, nema þingdeild leyfi. Þar, sem ég þekki til, er það mjög sjaldgæft, að veittar séu undantekningar frá þessari reglu, heldur er það venja, að þingmenn endurtaka ummæli sín utan þings, ef með þarf, og er þá hægt að höfða málsókn á hendur þeim án afskipta viðkomandi þingdeildar. Í þessu máli hefur sú leið verið valin af Ólafi Thors, að hann hefur endurtekið orð sín í einu dagblaðanna, og hafa því viðkomandi menn fullt leyfi til þess að höfða mál gegn honum út af þeim ummælum. Beiðni bréfritaranna er því algerlega óþörf og óþarfi fyrir Alþingi að verða við slíkri beiðni.

Um það má auðvitað deila, hvort þessi fyrirmæli stjórnarskrárinnar skuli standa til frambúðar, en meðan þau eru þar, verður að virða þau nokkurs. Ég þekki aðeins tvö dæmi, þar sem Alþingi hefur orðið við slíkri beiðni. Annað var fyrir aldamót, en hitt var fyrir aldarfjórðungi síðan, en þá voru ummælin ekki endurtekin utan þings. Ég vil því beina þeim tilmælum til hv. 4. þm. Reykv., að þeir bréfritararnir taki aftur beiðni sína, en ef það fæst ekki, er sjálfsagt að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, og því berum við hv. þm. Ísaf. fram svo hljóðandi dagskrártillögu, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem þm. G-K. hefur endurtekið ummæli sín utan þings í blaðagrein undir nafni og leyfisbeiðendur geta því höfðað mál fyrir dómstólum, út af þeim, telur deildin enga ástæðu til þess að veita umbeðið leyfi og tekur fyrir næst mál á dagskrá.

Gunnar Thoroddsen, Finnur Jónsson.“