11.03.1949
Neðri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (3318)

88. mál, húsaleiga

Frsm. 2 minni hl. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Segja má um frv. þetta, að það sé nokkuð gamall kunningi. Alltaf síðan húsaleigul. voru sett fyrst hér á landi, hafa einhverjir orðið til þess að ganga sérstaklega erinda húseigendanna og viljað afnema l., sem sett voru hverju sinni, jafnvel þótt almenningur hafi krafizt þess vegna knýjandi nauðsynjar, að l. væru áfram í gildi. Nú er það svo með þessi l. sem mörg önnur, er sett eru af mikilli nauðsyn, að þau þrengja að rétti einhverra manna. Hins vegar verða hagsmunir þeirra að víkja fyrir almenningshagsmununum, og þannig er hér ástatt.

Hv. allshn. hefur nú haft málið til langrar athugunar, og hefur talsvert dregizt, að 2. minni hl. n. kæmi fram með álit sitt. Getur það stafað af því, að farið hafði fram hjá 2. minni hl., að 1. minni hl. var búinn að skila áliti sínu. Þó að hv. n. hafi haft frv. til langrar athugunar, þá hefur það verið lítið rætt í henni. Kom það m. a. fram í umr. hér í gær, að hæstv. félmrh. hefði í undirbúningi l. um réttindi og skyldur leigjenda og húseigenda og athuganir á nokkrum breyt., sem til mála gætu komið í löggjöfinni. Óskir komu fram í hv. n. um, að málinu yrði frestað, þar til er till. hæstv. ríkisstj. lægju fyrir. En við það var ekki komandi af hálfu 1. minni hl. n. Sennilega munu einhverjar leiðir finnanlegar í samkomulagsátt um einhverjar breyt. á gildandi löggjöf. En um eins miklar breyt. og hér er lagt til, að verði gerðar, eru þrír hv. nm. ósammála. Á hinn bóginn lá 1. minni hl. svo mikið á að koma skoðun sinni á framfæri, að eigi mátti bíða eftir till. hæstv. ríkisstj. Svo virtist sem áhuginn á því að koma einhverju til leiðar og létta undir með eigendunum væri ekki svo mikill, að hann vildi freista þess að fá málið nánar rætt í hv. allshn., þegar till. hæstv. ríkisstj. lægju fyrir. Þannig er að vísu um frv., að það er flutt á þann veg, að gert er ráð fyrir, að nokkur hluti l. verði áfram í gildi, en nái frv. þó fram að ganga eins og það liggur hér fyrir, hefði það í för með sér afnám gildandi l., og mætti því eins fella þau úr gildi í heild. Hv. 1. þm. Árn. hafði þá sérstöðu í málinu, að hann lýsti því yfir, að hann mundi flytja brtt. við frv. Ég hef nú eigi séð þær enn þá, en sjálfsagt mun hann leggja þær fram nú eða við 3. umr. Mér er ókunnugt um, hverjar brtt. hans munu verða, en með tilvísun til nál. höfum við hv. þm. Siglf. lagt til, að frv. verði fellt, en áskiljum okkur rétt til þess að fylgja brtt., ef fram koma og þess eðlis eru, að þær spilltu eigi fyrir rétti leigjenda á sama hátt og frv. það gerir, sem hér liggur fyrir. Við höfum látið prenta með nál. okkar umsögn Leigjendafélags Reykjavíkur, dags. þ. 20. des. 1948. Eru þar færð rækileg rök fyrir því, að frv. þetta mundi algerlega verða til þess að stórspilla fyrir rétti leigjenda, þeim er þeir hafa í gildandi l. Þar er bent á, að rökin fyrir því, að l. voru sett, hafi verið að sporna við vaxandi verðbólgu og húsnæðisskorti og draga úr óeðlilegum flutningi fólks til kaupstaða, einkum Reykjavíkur. Nú er það svo, að margt hefur farið miður en skyldi, og m. a. hafa mjög margir sætt óhæfilegum kjörum, bæði um kaup á húsnæði og leigu þess. En þótt svo sé, er fjöldi manns í skjóli l. og býr við þau kjör, sem l. ákváðu. En yrði frv. þetta samþ., færi svo, að það okur, sem margir hafa fengið orð fyrir, margfaldaðist. Ég hygg, að Leigjendafélagið hafi á réttu að standa, þegar það segir, að afnám l. opnaði allar dyr á gátt fyrir þeim, sem gætu greitt háa húsaleigu. Húsnæði mundi hækka í verði og flutningur fólks í heilsuspillandi íbúðir ykist, en af þeim er þegar nóg fyrir skv. skýrslu hagfræðings Reykjavíkurbæjar, enda er ástandið þannig, að svo virðist sem draga muni úr íbúðarhúsabyggingum á þessu ári. Mun viðbótin á þessu ári verða minni en verið hefur undanfarin 3 ár. En einmitt af þeim sökum, að svo virðist sem draga muni úr íbúðarhúsabyggingum, m. a. vegna skorts á gjaldeyri og lánsfé til byggingarframkvæmda, ber nauðsyn til, að ekki sé því hraðað um of að gera svipaðar breyt. á gildandi húsaleigul. og í þessu frv. felast. Við í 2. minni hl. n. höfum látið skina í það, að ýmsar breyt. komi til mála á l., og ætla ég það ekki neina vá, þótt losað væri um einstaklingsherbergi, og einnig mætti losa um leigumála fyrir atvinnuhúsnæði. Hv. flm. frv. vilja gera glufu á húsnæðisl. og segja, að eins rétt muni vera að nema þau alveg úr gildi. — Auk fyrrgreindrar umsagnar hefur hv. allshn. fengið umsögn frá Fasteignaeigendafélagi Reykjavíkur, en hún er varla prenthæf. En 2. minni hl. hv. allshn. hefur þó talið rétt að birta þ. þessa svo nefndu umsögn. Hún er lítið annað en hótanir til hv. þingmanna, þar sem skorað er á alla fasteignaeigendur að fylgjast vel með, hverjir séu þeim mótsnúnir á Alþ., og styðja þá menn eigi til valda. Hér er ekki farið dult með, hver sé tilgangurinn. Framhaldið er svo það að styðja þá menn helzt, sem vilja afnema l. Ef ég væri flm., hefði ég frábeðið mér slíka umsögn. Ég vænti þess, að hv. flm. lýsi því yfir, að umsögn félagsins sé send í óþökk þeirra. Vil ég ekki halda, að þessir hv. flm. hafi flutt þetta frv. í því skyni að afla sér þess fylgis, er þeim er lofað, sem afnema vilja l., en hinum óvirðingar, sem aðra sannfæringu hafa. Það má vel vera, að mál þessi séu orðin hitamál hér í bæ. En slíkur málflutningur, sem stj. Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur hefur látið sér sæma, er sízt fallinn til þess að bæta málstað fasteignaeigenda. Virðist hann bera vitni þess, að þessir menn búi eigi yfir miklum rökum, þegar þeir grípa til ógnana og skætings, er þeir eru kurteislega beðnir um að láta í ljós umsögn sína um málið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. Ég vænti þess, að hv. d. sjái, hve nauðsynlegt er, að frv. verði fellt, því að samþykkt þess mundi valda glundroða og óþægindum fyrir mikinn fjölda manna í bænum.