11.03.1949
Neðri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (3324)

88. mál, húsaleiga

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Þó að langt sé um liðið síðan ég mælti fyrir þessu frv., skal ég ekki endurtaka mikið af því. Ég vil hins vegar fara nokkrum orðum um till. þær, sem fram hafa komið frá þeim minni hl., sem í allshn. hafa fjallað um þetta mál. Ég mun að sjálfsögðu byrja á þeim, sem fyrst skilaði áliti, og get ég tjáð þeim minni hl. þakkir okkar flm. fyrir undirtektir þeirra undir frv. Að vissu leyti get ég sagt það sama um 3. minni hl., sem er að verulegu leyti á sömu línu og flm., en aðalágreiningurinn er að sjálfsögðu við hv. 2. minni hl.

Ég vil taka fram strax sem eins konar formála og vitna þar í ummæli mín við framsögu málsins í upphafi, að afstaða okkar flm. hefur ekki skapazt af neinum þvergirðingi, heldur er hún afleiðing af því, að ekki náðist samkomulag um þetta mál, þannig að þessum ummælum hv. frsm. 2. minni hl., sem hníga í þá átt, að fyrir okkur vaki ekkert annað en afnám l., en ekki samkomulag, þeim vil ég algerlega mótmæla, og í raun og veru mælir á móti þeim sjálf aðferð okkar við málið, því að ég beiddist þess í fyrsta lagi og vann að því með öðrum mönnum, sem forsrh. hefur falið athugun málsins, að reynt yrði að fá eitthvert samkomulag um þetta mál, og leit vel út í bili, eins og ég raunar áður hef tekið fram. Og allir þeir frestir og öll sú bið, sem með okkar leyfi hefur verið viðhöfð í þessu máli, hefur einmitt verið til þess að leita að samkomulagsgrundvelli. Ummæli hv. frsm. 2. minni hl. um það, að fyrir okkur hafi ekki vakað neitt annað en ýtrustu línur, afnám húsaleigulaganna, eru þess vegna algerð ósannindi. — Ég get vitnað í þau ummæli mín, að húsaleigul. voru ekki í eðli sínu óeðlileg, þegar þau voru sett. Það var þá þannig ástatt hér í landi, að nauðsyn bar til að leggja höft á marga hluti, sem á venjulegum tímum er æskilegt að hafa algerlega frjálsa. Þar á meðal var lagt eða átti að leggja hámarksverð á sem flestar nauðsynjar manna til þess að koma í veg fyrir, að eftirspurnin skapaði óeðlilegt verðlag. Þetta hefur farið ákaflega mikið í handaskolum hjá þessum mönnum, sem þetta áttu að gera, sem stafar að nokkru leyti af því, að menn hafa dregið sig nokkuð í flokka eftir stéttum og sumar stéttir notuðu sér forréttindin og verðlögðu sjálfar það, sem þær höfðu til sölu, en aðrar stéttir bældust undir í þessum efnum. Það er þess vegna frá mínu sjónarmiði ekkert óeðlilegt, þó að sett væri hámarksverð á húsnæði, og það mætti ekki mikilli mótspyrnu hér á Alþingi. En húsaleigul. gengu miklu lengra. Þau lögðu ekki aðeins verðlag á húsnæði, heldur tóku þau að verulegu leyti umráðaréttinn af eigendunum, og það er náttúrlega allt annað mál. Einmitt þetta atriði hefur, þó að nokkur vafi kunni að hafa verið á því í byrjun, í reyndinni sýnt sig að hafa valdið mjög miklum og óviðunandi vandræðum í sambúð manna, og stafar það einmitt af því, að þessi höft eru mjög óeðlileg. Hins vegar er ekki því að neita, að einmitt það vald, sem skapað hefur verið hér til þess að meta húsaleiguna, hefur ekki aðeins stutt, heldur valdið því, sem helzt má kalla húsaleiguokur hér í Rvík að minnsta kosti. Hin svokallaða húsaleigunefnd hefur lagt hér svo rangt mat á húsnæði, að engan mann hafði dreymt um slíkt, og ég held, að það sé ekki beinlínis fallið til þess að halda slíku niðri að halda við valdi því, sem húsaleigunefnd hefur í þessum efnum. Ég fór nokkuð inn á þetta í framsöguræðu minni og bar saman nokkur atriði, sem standa enn óhögguð. Hv. frsm. 2. minni hl. batt sig í raun og veru við þau rök, sem eru hér í nál. á þskj. 449, og það eru dálítið einkennileg rök. Sjálfur nefndarhlutinn segir ekkert um þetta mál. Hann hefur aflað sér umsagna tveggja félaga í bænum, þ. e. Fasteignaeigendafélagsins og Leigjendafélagsins, og vitnar hann í rök leigjendafélagsins og gerir þau að sínum rökum. Þar með er hans rökum lokið. Ég hefði nú gaman af því, ef einhverjir hefðu verið hér viðlátnir af þm., að lesa nú þessi rök og athuga þau. Hér er nú orðið svo mikið moldviðri af þingskjölum, að þm. eru kannske orðnir dálítið galsafengnir af því að lesa hvert einasta plagg í gegn. — Rök Leigjendafélagsins, sem hv. frsm. 2. minni hl. gerði að sínum rökum, eru í fyrsta lagi þau, að húsaleigunefnd hefði verið sett til þess að sporna við vaxandi verðbólgu, í öðru lagi við vaxandi húsnæðisskorti og draga úr óeðlilegum flutningi fólks til kaupstaðanna, t. d. Rvíkur, þetta hafi verið aðaltilgangur laganna. Ég vildi segja, að tilgangurinn hefði einmitt verið sá að sporna við óeðlilega hárri húsaleigu. En nú er að líta á, hvernig þetta hefur tekizt. Leigjendafélagið segir, að öll þessi rök séu enn fyrir hendi, og það virðist hv. frsm. 2. minni hl. álíta, að sé. En hvernig er þessu varið? Á að sporna við vaxandi verðbólgu? Hvaða áhrif hefur húsaleigan á verðbólguna nú? Það veit hver maður, að fyrir a. m. k. 3 árum voru ¾ hlutar leigjenda komnir undan húsaleigul. og margir þeirra undir húsaleigu, sem við ýmsir mundum hafa talið fullkomið okur og húsaleigun. hefur metið. En síðan hefur orðið mikil breyting á þessu. Að vísu hefur það ekki verið rannsakað til hlítar, en ýmsir menn, sem hafa reynt að athuga þetta mál, telja, að af leigjendum muni ekki vera undir húsaleigul. nema 1/6, og sér þá hver maður, hvaða áhrif það hefur á dýrtíðarmálin í landinu, hvort þessi 1/6 eða 1/5 er undir áhrifum húsaleigunefndar. Húsaleigan er m. ö. o. gífurlega há, og með viðhaldi húsaleigul. verður þar engu um þokað, en þó mætti kannske bæta um með einu atriði í áliti hv. 2. minni hl., þ. e. að rétt væri að meta húsnæðið fyrir fram eftir alveg föstum reglum og eins í nýjum húsum. En svona er með þetta fyrsta atriði, sem hv. 2. minni hl. reynir að halda sér uppi á. Það er í rauninni liðið undir lok, að það geti haft áhrif á dýrtíðina í landinu, hvort þessi litli hluti leigjenda, sem enn er undir húsaleigul., verður það áfram eða ekki.

Þá segir í öðru lagi í þessu áliti félagsins, að það eigi að sporna við vaxandi húsnæðisskorti. Ég hefði haft gaman af að heyra, ef frsm. hefði verið hér viðstaddur, hvort hann hefði viljað reyna að færa fram einhver rök fyrir því, hvort það komi í veg fyrir húsnæðisskort að viðhalda húsaleigul. Á hverju byggja þessir menn það? Halda þeir, að húsnæði mundi minnka í bæjunum, þó að húsaleigul. væru afnumin? Hafa húsaleigul. fjölgað húsum í bænum, og mundu þau gera það? Þetta er alger hugsunarvilla. Ég get þvert á móti fært nokkur rök að því, að afnám húsaleigul, mundi fremur auka leiguhúsnæðið, því að það er engum vafa bundið, að haldið er talsverðu af húsnæði utan við leigu, sem eigendur þurfa ekki beinlínis að nota, því að þeir vilja ekki hlíta húsaleigul. um leiguna.

Þriðja atriðið, sem hv. frsm. 2. minni hl. gerði að sínum rökum — og þar með er eiginlega lokið hans rökum —, er það, að húsaleigul. mundu draga úr óeðlilegum flutningi fólks til kaupstaðanna, einkum til Rvíkur. Mig undrar nokkuð, að þetta félag skuli færa fram slík rök, en enn þá meir, að hv. frsm. 2. minni hl. skuli gera þetta að sínum rökum. Það hefur verið sýnt fram á það hér, það liggur fyrir Alþ., að húsaleigunefnd hefur alls ekki notað ákvæði húsaleigul. til þess að sporna við flutningi fólks til bæjanna. Það hefur verið birt um það skýrsla, og getur hver gengið úr skugga um það, sem vill, t. d. hjá manntalinu. Þegar athugað er t. d. manntalið í Rvík til ársloka 1945, kemur í ljós, að frá því að húsaleigul. voru sett og fram til ársins 1945 fluttust til Rvíkur 8 þúsund manns. Hvað halda menn, að margir hafi flutzt til Rvíkur síðan? Og svo leyfir hv. frsm. 2. minni hl. sér að byggja mótmæli sín gegn þessu frv. okkar á því, að húsaleigul. muni hefta aðstreymið til Rvíkur. Það er svo, að það hefur ekki einu sinni verið reynt að beita þessu ákvæði l., enda streymir fólkið hingað í stríðum straumum. Að bera fram slík rök í áliti 2. minni hl. er — ja, næstum því móðgun gagnvart þd., því að þetta er svo mikil fjarstæða, þar sem fyrir liggur opinber skýrsla um þetta vandræðaástand. — Ég get ekki stillt mig um að geta um það í þessu sambandi, að það er fullkominn sannleikur, að hefði húsaleigul. verið framfylgt í þessu efni af húsaleigun., væri engin húsnæðisekla hér í Rvík og engin óhæfileg sala á húsnæði. Ef húsaleigunefnd hefði haldið þessu fólki frá Rvík, — ég skal ekki segja, hvort það hefði verið hægt eða auðvelt, en það var þó tilgangur l., — ef hún hefði framkvæmt l. að þessu leyti, væri ekki hér til neinn húsnæðisskortur né húsaleiguokur.

Já, hv. frsm. 2. minni hl. talaði um það, að alltaf hefðu einhverjir orðið til þess að ganga erinda húseigenda hér á þingi, og fór svo að lesa úr áliti frá Fasteignaeigendafélaginu, sem ég veit ekki betur en að hann sjálfur og samherjar hans hafi pantað, og fór að skora á okkur flm. að bera af okkur, að það væri með okkar vilja, að húsaleiguokur er látið viðgangast. Ég veit ekki, hvað maðurinn er að fara. Hvað kemur það okkur við, hvort hann eða einhver n. aflar sér álits frá einhverjum? Hvað kemur það okkur við? Það getur verið, að einhverjir hafi gengið erinda húseigenda á þingi. En ég get bara sagt það, að ég er svo gamaldags, að ég er sífellt að líta á mál og athuga, jafnvel löngu eftir að þau hafa verið samþ., hvað er rétt og hvað er rangt. Það er á þessari samkomu ekki svo lítið af mönnum, sem meta málin yfirleitt til atkvæða. Ég hef ekki skipt mér af þessu máli til annars en að vita, hvað er heppilegast fyrir þjóðfélagið.

Ég þarf náttúrlega ekki að svara fyrir frsm. hv. 1. minni hl. En af því að frsm. þess minni hl. er ekki við, skal ég aðeins minna á það, að meðnm. hans, hv. frsm. 2. minni hl., sagði með áherzlu, að þessi minni hl. hefði ekki fengizt til þess að bíða eftir því, að fram kæmi frv. frá forsrh. Nú er það vitað, að þetta mál er ekki mjög ungt, komið á fjórða mánuð, og var komið á fjórða mánuð hér í þinginu áður en hv. 2. minni hl. fékk þá skoðun á því, að hann gæti ungað út nál. Ég veit ekki, hvort það er beinlínis ámælisvert fyrir hv. 1. minni hl., þó að hann á endanum yrði þreyttur á biðinni og kæmi með nál., allra sízt þegar flm. voru farnir að ganga eftir því með fullum rökum og forseti beinlínis farinn að ýta undir það, að nál, yrði skilað. Það er óþarft að taka fram, að ekki hefur verið sýnd nein óþolinmæði í þessu máli, hver fresturinn veittur af öðrum og reyndar allar hugsanlegar leiðir til samkomulags. Að öðru leyti get ég í þessu sambandi vísað til þess, sem ég sagði utan dagskrár í gær. Gerði ég allt, sem ég gat til þess, að við gætum fylgzt að og gaf frest. Sendi ég álitsgerð mína svo, til ráðherra, en lagði málið ekki fyrir þingið. Beið ég svo lengi eftir því, að hæstv. ráðh. tæki ákvörðun sjálfur um mínar till., en hann sagði mér, að hann væri að láta semja nýtt frv. Beið ég svo enn, þar til ég tjáði honum, að ég gæti ekki forsvarað öllu lengur að leggja ekki málið fyrir Alþ., en þá bað hann um vikufrest, sem ég veitti. Að viku liðinni bað hæstv. ráðh. enn um frest og fékk hálfan mánuð, en ekki kom frv. hans. Sagði ég honum þá, að þar sem sama n. mundi fá frv. okkar beggja til meðferðar, sæi ég ekki ástæðu til að fresta lengur flutningi míns frv., og sætti hæstv. ráðh. sig við það, og þá lagði ég ásamt hv. 3. þm. Reykv. frv. fyrir þingið. Þetta sýnir, að við flm. höfum ekki sýnt neitt óðagot eða ofstæki í flutningi málsins. Það er líka liðið nokkuð á þriðja ár síðan Alþ. fyrirskipaði endurskoðun á þessum málum, og nú eru liðnir um þrír mánuðir síðan frv. var lagt fram.

Ég þarf ekki mörg orð til þess að svara ræðu hæstv. forsrh. Hann vitnaði í frv., sem hann sagðist vera að láta semja og ætlaði að impónera hv. þm. með því, hve stórfenglegt þetta frv. væri, í 90 greinum, að því er hann sagði. Við þekkjum allir, hvernig það gengur til, þegar hv. Alþfl. lætur semja frv. Nýlega er upplýst, að kostnaðurinn við að semja lítilfjörlegt frv., sem Alþfl. stendur að, hafi verið 57 þús. kr., en óvíst er, hvort litið hefur verið á þetta frv. síðan því var lokið, og ég mun ekki furða mig á því, þótt þetta 90 greina frv. hæstv. forsrh. verði lengi á leiðinni, og heldur mun ég ekki undrast, þegar ég sé reikninginn yfir kostnaðinn við samningu þess. Að öðru leyti sé ég ekki, hvað það frv. kemur þessu máli við. Það er frv. til l. um sambúð leigjenda og leigusala, en hér er um allt annað að ræða, sem sé umráðarétt yfir húsnæði og verðlag á því, og verð ég að segja, að jafngreindur maður og hæstv. forsrh. hlýtur að sjá muninn á þessu tvennu. Og raunar er frv. hæstv. forsrh. ekkert annað en hleðsla í veginn fyrir það mál, sem hér er til umr.. Það á að tefja þetta mál með þeirri tylliástæðu, að verið sé að semja annað frv. um sama efni, en ég hef nú sýnt fram á, að það fjallar um allt annað. Hæstv. forsrh. taldi, að framkvæmd hins nýja frv. mundi ekki kosta meira en húsaleigulögin kosta nú. En það er einmitt þessi kostnaður, sem við flm. viljum afnema, kostnaður, sem er hvorki meiri né minni en á þriðja hundrað þús. kr., en mér skildist á hæstv. ráðh., að hann væri bara ánægður með, að kostnaðurinn skyldi þó ekki vera meiri. En skv. hinu nýboðaða frv. hæstv. ráðh. verða sett upp dýr embætti, en það er ekki það, sem við þurfum á að halda, heldur hitt, að færa kostnaðinn niður. — Skal ég svo ekki ræða meira um þetta atriði á þessu stigi. Umr. mun ekki verða lokið á þessum fundi, og kemur málið þá ekki til atkv. fyrr en eftir helgi, en áður en ég lýk máli mínu, vil ég taka fram, að ég tel alveg augljóst, að þetta frv. þurfi ekki að bíða eftir frv. hæstv. forsrh.

Um brtt. frá hv. 3. minni hl. n. væri ástæða til að ræða, því að þær eru að mörgu leyti merkilegar, og ef þær hefðu komið fyrr fram, þá hefði getað verið samkomulagsgrundvöllur milli okkar flm. og hv. 3. minni hl., og er raunar að mínu áliti engan veginn útilokað, að svo sé enn. Ég hef því miður ekki getað athugað þessar brtt. sem skyldi, af því að þær eru svo seint fram komnar, en mun ræða þær nánar síðar, en svo að á fátt eitt sé drepið, þá er í e-lið þeirra komið inn á merkilegt atriði, en það er að meta alla húsaleigu eftir gæðum, og er það auðvitað hið rétta að meta hvern hlut eftir gæðum, ekki eftir því, hvað það hefur kostað eigandann að afla hans. Þessu hefur áður verið hreyft, og á þetta get ég vel fallizt. Ég skal svo ekki á þessu stigi dæma um það, hvort rétt er það verð á húsnæði, sem gert er ráð fyrir í brtt. hv. 3. minni hl., en því verður ekki neitað, að það er rétt að meta leiguna eftir stærð og gæðum húsnæðisins, en ekki eftir því, hvernig eigandinn hefur fengið það. Ég vil svo að lokum geta þess og viðurkenna það, að í g-lið er hv. 3. minni hl. kominn inn á sama efni og við um að láta húsaleigulögin hverfa úr gildi, þó að hæfilegur tími sé látinn líða, svo að síður valdi röskun, og þótt það sé lagt á vald sveitarstjórna, hvort lögin skuli afnumin, þá ber hér ekki mikið á milli, þar sem munar því, hvort lögin falli úr gildi árinu fyrr eða seinna. Síðar mun ég svo ræða þessar brtt. lið fyrir lið, eftir að mér hefur unnizt tími til að athuga þær betur.