17.05.1949
Efri deild: 113. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (3420)

155. mál, réttindi kvenna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þar sem rökst. dagskráin, sem hér er flutt, er í rauninni áskorun til ríkisstj. um að láta fara fram rannsókn um það, að hve miklu leyti kvenfólk nýtur ekki sömu réttinda nú og karlmenn, og að hún að þeirri rannsókn lokinni leggi fyrir Alþ. frv. til l. eða breyt. á eldri l. til þess að skapa sem fullkomnast lagalegt jafnrétti milli kvenna og karla, þá mundi mér þykja nauðsynlegt, að n. gæfi ríkisstj. leiðbeiningar um það, að hverju þessi rannsókn ætti að beinast. Ég er ókunnugur því og veit ekki til, að það sé á vitorði annarra manna, að kvenfólk njóti hér minni lagalegra réttinda en karlmenn. Og ef ætlunin er að finna því stað og gert er ráð fyrir því í till., þar sem ráðgert er að breyta l., eftir því sem þurfa þykir, þá mundi mér þykja nauðsynlegt, að ríkisstj. væri bent á þann lagastaf, áður en hún fer í þetta starf, sem hlyti líka að leiða til þess, sem n. sýnist ganga út frá sem sé, að kvenfólk hafi að lögum minni réttindi en karlar. Nú er kunnugt, að á einstaka stað hefur kvenfólk meiri rétt en karlmenn, en mér er ekki kunnugt um, að þær hafi minni rétt. Varðandi ríkisborgararéttinn, þá hafa þær þar ekki minni rétt og að sumu leyti meiri rétt en karlar. Þær geta í ýmsum tilfellum haft tvöfaldan ríkisborgararétt, þar sem karlar hafa í sömu tilfellum einungis ríkisborgararétt í einu landi. Og þó að menn öðlist réttindi með misjöfnum hætti, er ekki hægt að segja, að það sé meiri eða minni réttindi, frekar en það eru ólík atvik, sem koma til greina, enda væri hægurinn hjá fyrir n. eða flm. þessa frv., sem hér um ræðir, að flytja einfalda breyt. við þau ákveðnu l., ef ætlunin er að breyta skilorði þeirra. Slík atriði, eins og t. d. með ríkisborgararéttinn, er hægt að taka út af fyrir sig og skora á ríkisstj. að láta rannsaka eitt út af fyrir sig, ef það vakir fyrir mönnum. En vegna þess að hér hlýtur að vera átt við einhver dulin lagaréttindi, sem ekki er að sjá í þeim skrifuðu l., þá þykir mér nauðsynlegt, að fyrir liggi leiðbeiningar um þetta áður en hægt er að samþ. dagskrána. Ég tel frv. líka með öllu ástæðulaust vegna þess, að það jafnrétti, sem flm. talar um, er fyrir löngu fyrir hendi, og hann er þess vegna heilan mannsaldur á eftir till. sínum hér. Sem sagt, konur hafa fyrir löngu jafnrétti að l. Ég mundi þess vegna hika við, eins og dagskráin er orðuð, að greiða henni atkv., þó að ég hins vegar telji frv. með öllu ástæðulaust, en vildi beina þessari fyrirspurn til n. mér til leiðbeiningar. Ef það sannaðist, að raunverulegar líkur væru fyrir því, að þessi leið bæri einhvern árangur, væri auðvitað sjálfsagt að samþ. till. En á meðan slíkt liggur ekki fyrir, treysti ég mér ekki til að greiða henni atkvæði.