24.01.1949
Neðri deild: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (3431)

56. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Ég hef sem minni hl. fjhn. skilað áliti um þetta mál, þar sem ég færi fram rök fyrir því, að frv. sé samþykkt. Ég sé það, að meiri hl. fjhn. leggur til að vísa því frá með rökst. dagskrá. En við því er tvennt að segja. Við höfum þegar afgreitt mál um breyt. á þessum l., um tekju- og eignarskatt, og þá var álitið rétt að afgreiða málið, án þess að fyrir lægi álit mþn., því að óvisst var, hvenær álit n. kæmi. Hv. þd. hefur því ekki talið rétt hingað til að fresta málum af þeim sökum. Hins vegar eru það ekki rök, að þetta sé ekki réttlætismál, og vona ég, að d. sjái ekki ástæðu til að bíða álits mþn. um málið. Þar sem þetta hefur verið gert áður, finnst mér, að eins sé hægt að gera þetta nú. Í öðru lagi mun álit mþn. nú ef til vill liggja fyrir hjá ríkisstj., og mun vonandi einhver geta gefið upplýsingar um það, hvort líkindi séu fyrir því, að frv. að skattalögunum verði lagt fyrir. Nú kann það að verða, að þessi nefnd verði ekki sammála. Ég vildi þess vegna, af því að ég veit, að þetta frv. á fylgi að fagna meðal þm., eindregið óska þess, að þessi till. um rökstudda dagskrá verði ekki samþ., og vona, að frv. verði látið ganga áfram.