26.11.1948
Efri deild: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (3447)

76. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Í umr. hér í gær sagði ég, að s. l. ár hefðu verið fluttir til landsins rúml. 4.000 bílar og þ. á. á þriðja hundrað bílar. Ég sagði, að þeir væru í aðalatriðum — þá var það, að hv. 1. þm. N-M. greip fram í fyrir mér — í aðalatriðum hefðu þeir verið fluttir inn á leyfi, sem stj. hefði engin afskipti af. Ég tók það líka fram, að sex bílar væru það aðeins, sem ég myndi eftir, að stj. hefði úthlutað. Ég vil gjarna skýra þessum hv. þm. frá þætti stj. í innflutningi þessara rúml. 4.000 bíla. Þessa sex bíla, er nú var getið, hafa menn þeir átt, sem ýmist hafa verið búsettir erlendis eða eignazt þá á annan löglegan hátt. Þess fyrir utan fékk forseti Íslands einn, forseti hæstaréttar annan bíl, en hinn þriðji er líkvagn. Þessir níu bílar eru einmitt þeir bílar, sem stj. hefur haft afskipti af á 2 árum (PZ: Þriðjungur bætzt við frá í gær.,) Hv. þm. hóf mál sitt með því að lýsa mig ósannindamann. En ég fullvissa hann um, að annað var ekki flutt inn á vegum stj., — eins og ég segi: 9 bílar af ca. 4.500. Svo geta menn dæmt um sanngirni okkar hvors um sig, þegar þess er gætt, að ég sagði: í aðalatriðum.