14.02.1949
Neðri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (3463)

97. mál, almannatryggingar

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal í endurgjaldsskyni við hæstv. forseta reyna að vera stuttorður. Gekk ég af ógætni inn í hliðarherbergi, því að ég hélt, að hv. n. mundi gera frekari grein fyrir þessu. Ég sé, að hv. heilbr.- og félmn. leggur til, að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Færir hún fram þá ástæðu, að tryggingalöggjöfin sé í endurskoðun. Það er svona á pappírnum eigi óframbærileg ástæða. En þetta þarf skýringar við. Málið er ekki nýtt. Á hverju ári verðum við, sem í hv. fjvn. erum, að berjast við þetta mál. Þannig mun og hv. þdm. kunnugt um, að skv. tryggingal. eiga að dragast frá tekjum þeirra manna, sem að öðru leyti njóta ellistyrks og örorkubóta, tekjur þær, sem þeir fá annars staðar frá, að vissu leyti. Þetta er á tveim stöðum í l , í 13. gr., en þar segir fortakslaust, að tekjurnar eigi að dragast frá, og því næst í ákvæðum til bráðabirgða, um frádrátt af elli- og örorkubótum — auk annarra bóta. Nú virtist okkur óviðeigandi með öllu að taka tillit til þess, hvernig tekjur gamalmenna eru til komnar, láta þess gæta, þá er um frádrátt er að ræða, og því má hér eigi leggja sama mælikvarða á. En eigi að gera einhvern mun hér á, þá á síður að draga frá þeim tekjum, er reiknaðar eru sem eins konar heiðurslaun vegna einhverra sérstakra starfa eða afreka í þágu hins opinbera. Mjög margt af því fólki, sem er á 18. gr. fjárl., nýtur mjög lágra fjárhæða. Þetta er fólk, sem hefur verið mjög lengi í þjónustu hins opinbera, fátækt og tekjulitíð, og hefur ekki náð að safna neinu fé. Helzt er hér um ýmiss konar matsmenn að ræða, svo sem fiskimatsmenn, ullarmatsmenn o. fl., ljósmæður, pósta, leiðsögumenn ýmsa o. s. frv., menn, sem yfirleitt hafa verið lengi í opinberri þjónustu fyrir litla þóknun og því eigi getað safnað fé. Þetta fólk kom á 18. gr., og má fremur líta á fjárhæðir þessar sem heiðurslaun, en bein framfærslulaun. Er ekki hægt að lifa af þeim. Af þeirri ástæðu er það, sem ég hef hreyft í hv. fjvn. undanfarin tvö ár, að þessi rýru laun væru tekin af fólkinu gegn vilja þeirra manna, sem komizt hafa inn á fjárlögin. Og það rennur í raun og veru til Tryggingastofnunarinnar, m. ö. o., lamb fátæka mannsins er tekið og gefið hinum ríka. En Tryggingastofnunin hefur á skömmum tíma safnað óeðlilega miklu fé og á það nú að verulegu leyti í banka. Hún hefur haft ríflegar tekjur í hlutfalli við skyldur sínar. Því er ómaklegt, að þetta litla fé sé tekið frá þeim snauðu og lagt til stofnunar þeirrar, sem er með hinum bezt stæðu í landinu. Ef frv. verður fellt, eins og hv. n. leggur til, liggur eigi annað fyrir en að taka öll hin smáu laun burt af 18. gr. fjárl. Að vísu græðir ríkið á þessu, en ömurlegt má þykja að taka aftur þetta litla, sem veitt er í smáum mæli á 18. gr.

Annað atriði frv. er það, að okkur flm. virðist sá mælikvarði, sem ákvæði til bráðabirgða leggja á, hvernig aðrar tekjur skuli dregnar frá, vera nokkuð harðdrægnislegur. Það á eigi að svipta menn örorkubótum, fyrr en aðrar tekjur þeirra nema því, er einhleypur maður geti lifað af. Nú eru ellilaunin aðeins 100 kr. í grunn á mánuði, og óhugsandi er, að menn geti dregið fram lífið á þeim — hvað þá lifað sómasamlega. Ég lýsi ánægju minni yfir því, að hv. n. hefur fallizt á það í áliti sínu, að þessi breyting, sem við flm. leggjum til, að gerð sé, sé eigi óeðlileg. En ef svo er, vil ég skora á hv. þdm., að þeir fari að því, er þeir telja sanngjarnt, en eigi að hinu, að verið sé að endurskoða l. í heild, því að á því getur staðið, — svo að árum skiptir jafnvel. Slíkt og þvílíkt tekur oft langan tíma. Þó að samkomulag næðist um ákveðnar til. væri ekki rétt að láta gott mál bíða, þar til er þær till. yrðu að l. — Eins og ég tók fram áðan, vil ég endurgjalda hæstv. forseta fyrir orðið og eigi lengja umr. En málið liggur hér fyrir mönnum. Er nú um það að ræða, hvort menn vilja víkja af leiðinni aðeins vegna endurskoðunar l. eða hvort þeir vilja samþykkja sanngjarnar till. í frv.