14.02.1949
Neðri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (3465)

97. mál, almannatryggingar

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann fresti atkvgr. um málið, meðan þessi hv. d. er ekki fullskipuð. Annars segi ég hið sama og hv. frsm. tók fram um fólkið á 18. gr. fjárl., að því ber eigi að neita, að margir fleiri verðskulduðu að vera á 18. gr. En hins vegar er það ekki rétt, sem hv. frsm. sagði, að tilviljun ráði um, hverjir komist inn, því að þeir, sem lægstlaunaðir hafa verið, eru teknir eftir vissum reglum, nefnilega allir aldraðir matsmenn, sem komnir eru yfir venjulegan starfsaldur, leiðsögumenn, póstar og ljósmæður, og alveg án tillits til aðstandenda. En allt eru þetta lág laun, er eigi má meta sem framfærslulaun, heldur sem eins konar viðurkenningu þjóðfélagsins til handa þessu fólki.