25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (3788)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er nú ýmislegt, sem mætti ræða um í sambandi við þetta mál nú. En ég hef sagt skoðun mína allgreinilega á því áður, og það er nú svo langt um liðið, að hætt er við, að talsvert af því, sem ég þá sagði, yrði endurtekið, ef ég færi að hefja langar umræður um málið að nýju. En það var eitt atriði sérstaklega, þar sem hæstv. fjmrh. vék að mér persónulega, sem ég vildi minnast á. Hæstv. fjmrh. taldi, að hann hefði gert mér sérstakan greiða, og orð hans féllu svo sem ég væri einhver skjólstæðingur hans, og kann ég ekki við að láta það standa í þingtíðindum. Það sem ég býst við, að hæstv. ráðh. eigi hér við, er það, að hann ásamt fjórum mönnum öðrum í nefnd, sem hann var skipaður í, greiddi atkv. með því, að mér yrði veitt leyfi, sem ég sótti um og allir fimm nm. voru sammála um að veita. Þetta er það eina, sem mér dettur í hug, að hæstv. ráðh. geti átt við, og fyrir þetta er ég að vísu þakklátur, hvað sem því svo liður, að ég þurfti ekki á leyfinu að halda, er til kom, og skilaði því aftur, en það mun vera heldur sjaldgæft um slík leyfi. En mig undrar, að hæstv. ráðh. skuli telja afstöðu, sem hann tekur í atkvæðagreiðslu sem embættismaður, sérstakan greiða. Hitt er annað mál, að það, sem rétt er gert, er alltaf þakkavert í sjálfu sér.

Um málið ætla ég svo annars ekki að ræða. Eins og ég sagði áðan, hef ég látið uppi skoðun mína á því áður. En ég álít, að þær brtt., sem hér liggja fyrir, séu frekar til bóta. Hér þarf að prófa sig áfram. Ég álít t. d. rétt að endurskoða lögin um endurskoðendur stjórnarráðsins, en þar munu vinna rúmlega 15 manns. Annars er þetta ekki meira aðkallandi mál heldur en önnur. Það er allt annað, eins og ég hef sýnt fram á áður, og skal ég ekki endurtaka það, nema sérstakt tilefni gefist.