02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (3854)

157. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það gleður mig, að einn nm. f. h. n. biður um að taka málið af dagskrá. Ég vil benda á, að ég tel alveg sjálfsagt, ef á að hækka benzínskattinn, þá sé það gert nú, svo að ekki þurfi að semja fjórðu lögin á þessu þingi um breyting á þessum lögum. Það er ómögulegt fyrir nokkurn mann, sem þarf að nota l., að leita í öllum skjalapartinum — og yfirleitt telja menn þegar þeir eru búnir að finna eina lagabreytingu á einhverju þingi í ákveðnum lögum, að frekar hafi þeim ekki verið breytt í það sinn á því þingi. Slík lagasamning er líkari Kleppsvinnu, en vinnubrögðum á Alþingi Íslendinga.

Enn fremur vil ég benda á það, að sjálfsagt er að breyta þungaskattinum. Þegar honum var seinast breytt á þingi, voru svokallaðir sendiferðabílar settir í sams konar skatt og þeir, sem notaðir eru í þungum vöruflutningum. Það er alveg víst, að mjög mikill hluti þessara bíla er notaður nákvæmlega á sama hátt og venjulegir fólksbílar, a. m. k. allar helgar og ýmsa virka daga, og því engin ástæða til að hafa þá í lægri skattflokki. Er sjálfsagt í þeim vandræðum, sem nú eru með fjárlögin, að ná þarna í nokkra greiðslu í ríkissjóð. Ég vil beinlínis mælast til, að þetta verði gert, áður en frv. fer úr þessari hv. d., svo að ekki þurfi að senda það milli deilda.