25.11.1948
Neðri deild: 22. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

2. mál, síldarbræðsluskip

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessar umr. og ekki blanda mér í þær dellur hér, milli hv. þm.Siglf.,og hv. 7. þm. Reykv., sem eru í raun og veru þessu frv., sem hér liggur fyrir, algerlega óviðkomandi. Hér er eingöngu um það að ræða að staðfesta breytingu, sem gerð hefur verið á l. um eftirlit með skipum, þannig að heimila að flytja inn eitt skip eldra en 12 ára. Sú heimild hefur verið leyfð með því sérstaka skilyrði, að þetta skip megi nota til síldarvinnslu eingöngu á höfnum inni. Ég tók það fram í upphafi, að sjútvn. leggur engan dóm á það, með því að leggja til, að frv. verði samþ., hvort þessi kaup eru heppileg eða ekki. Skipið er fengið til þess að taka á móti Faxaflóasíld. Þetta er sérstök ráðstöfun, sem þarna hefur verið gerð. Það verða sjálfsagt margir til þess að deila á þá, sem fyrir þessu hafa staðið, og ekki sízt, ef síldin ekki kæmi. Hefði síldin aftur á móti komið á sama tíma og í fyrra, þá mundu eflaust allir vilja eigna sér þessar framkvæmdir. Hv. þm. Siglf. sagði, að fjárhagsráð hefði veitt innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir þessu skipi. Er það að vísu rétt, en þessi leyfi voru veitt með þeim fyrirvara, að hægt væri að flytja inn skipið, þannig að það ræki sig ekki á ákvæði löggjafarinnar, að skipaeftirlitið skoðaði skipið og samþ. innflutning þess. Skipaskoðunarstjórinn taldi sig ekki geta samþ. þetta, nema þessi lagabreyting yrði gerð, sem gerð var með brbl. Sjútvn. öll, líka hv. þm. Siglf., leggur til, að þetta frv. nái fram að ganga.