09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (3897)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv., 1. flm. þessa máls, lét þau orð falla í sinni ræðu, að honum væri í raun og veru sama, hvort þessu fyrirkomulagi, sem Sjálfstfl. hefur lagt hér til, að bundið yrði með l. frá Alþ., yrði komið á með l. frá Alþ. eða hvort þessu fyrirkomulagi væri komið á þannig, að verkalýðsfélögin kæmu sér saman um það sjálf. Ég er hræddur um, að hv. 7. þm. Reykv. yfirsjáist mjög alvarlega, þegar hann leggur þessar tvær aðferðir að jöfnu. Við getum deilt um og verið mjög mismunandi skoðunar um sjálft fyrirkomulagið, hlutfallskosningar innan verkalýðsfélaganna, og rætt um það bæði með og móti. En það er þetta tvennt, sem hv. þm. leggur að jöfnu: annars vegar það, að fyrirskipa þessum frjálsu samtökum stærstu stéttarinnar í landinu, hvers konar skipulag þau hafa hjá sér í þessum efnum, og hins vegar það, að verkamenn komi þessu skipulagi á hjá sér af frjálsum vilja. En það er líka þetta tvennt og mismunurinn á því, sem gerir mismun á kúgun og frelsi. Þetta gerir muninn á því, hvort verkamenn eru kúgaðir með utanaðkomandi valdi, og hinu, hvort þeir fá að ráða sér sjálfir í sínum félagasamtökum. Það er orðið harla einkennilegt mat á réttindum í þessu landi, þegar þetta tvennt er lagt að jöfnu. Svo framarlega sem meiri hlutinn í þessum samtökum verkamanna er sammála um að taka upp hlutfallskosningu í sínum félagsskap, þá er þetta þeirra réttur, sem samkv. stjskr. hafa rétt til þess að mynda félög í hvaða lögmætum tilgangi sem er og þá líka rétt til þess að ákveða, hvers konar kosningaaðferð þeir hafa innan sinna vébanda. Það er því undarlegt, að stærsti flokkur þingsins skuli sameinast um það að leggja til að beita þeirri aðferð að lögskipa um það, hvaða aðferð verkamenn eigi að hafa um kosningar innan sinna félaga. Og ég er hræddur um, að hv. 7. þm. Reykv. verði að gera sér góða grein fyrir því, hver gífurlegur munur er á þessu tvennu. Það er sitthvað, að þessi flokkur, sem segir í blöðum stundum, að hann sé stærsti verkamannafl. landsins, berjist fyrir lögbindingu á þessu frá Alþ., og hitt, sem sá hv. flokkur ætti frekar að gera, ef hann vill eitthvað fá fram í málinu, að berjast fyrir því í blöðum að sannfæra verkamenn um það, að þetta skipulag, sem hér er talað um, sé rétt og heppilegt. Sjálfstfl. stendur opin leið til þess að fara þá leið. Alveg eins og þegar menn vilja fá launin lækkuð í landinu, þá stendur opin leið til þess að reyna að fá þá menn, sem þarf að fá til þess að lækka sín laun, til að samþ. það í sínum félögum, t. d., eins og oft er sagt, að fórna vegna dýrtíðarinnar með því að lækka launin. Það stendur hv. þm. opið. Hitt aftur á móti, að samþ. á Alþ., eins og gert var á síðasta vetri, annaðhvort að falsa þá vísitölu, sem verkamenn eiga að fá greidd laun eftir, eða takmarka þeirra rétt með l. til að gera kauphækkunarkröfur eða fyrirskipa þeim með l., hvaða laun þeir taka, það er kúgun. Og mér þykir undarlegt, að hjá stærsta stjórnmálafl. í landinu skuli þessum tveimur aðferðum vera blandað saman, eins og hv. 7. þm. Reykv. gerði.

Það hefur stundum verið undarlegt kosningafyrirkomulag í verkalýðssamtökunum á Íslandi. T. d. var það svo um eitt skeið í Alþýðusambandinu, að ekki mátti kjósa fulltrúa á alþýðusambandsþing aðra menn en tilheyrðu ákveðnum pólitískum flokki. Mjög margir menn innan verkalýðssamtakanna álitu þetta fyrirkomulag rangt og óréttlátt. Meðal þeirra voru margir, sem nú fylgja Sósfl. Hins vegar man ég ekki eftir, að nokkurn tíma kæmi fram á Alþ. af þeim sökum frv. um að breyta þessu skipulagi hjá Alþýðusambandinu með lögum frá Alþ. — og var þó einmitt Sjálfstfl. sá flokkur, sem lengi vel, eins og hv. 1. flm. tók fram, var að berjast fyrir því að setja löggjöf um stéttarfélög og vinnudeilur, vinnulöggjöfina, sem kölluð er, þar sem vissar ákveðnar aðferðir eru markaðar innan verkalýðssamtakanna. En það komu þá aldrei fram till. um að breyta kosningafyrirkomulaginu í Alþýðusambandinu með l. frá Alþ. En þeir, sem voru andvígir þessu fyrirkomulagi hjá Alþýðusambandinu, létu sér nægja þá aðferð að reyna að vinna sinni skoðun fylgi í verkalýðsfélögum landsins, hjá almenningsálitinu, þangað til þessu fengist breytt af verkalýðssamtökunum sjálfum. Þeir kusu að fara þá leið að sannfæra menn um það rétta í þessum efnum, en ekki grípa til valdboðsins frá hálfu Alþ. Og Sjálfstfl. stendur líka þessi leið opin nú viðvíkjandi hlutfallskosningum í verkalýðsfélögum í landinu, og það er engin afsökun til fyrir Sjálfstfl. að fara ekki þá leið. Þar er ekki nokkur afsökun til. Þetta, sem þarna er um að ræða í þessu frv., er af öðrum toga spunnið en þeim, að þarna sé hugsað um hag verkamannanna sjálfra og að bera fyrir brjósti þeirra réttindi. Ef um það hefði verið að ræða, þá hefði Sjálfstfl. áreiðanlega verið búinn að koma till. um þetta og jafnvel ályktunum um þetta kosningafyrirkomulag fram í launþegasamtökum á landinu þar, sem Sjálfstfl. er mjög sterkur.

Hv. 7. þm. Reykv. kom að því sérstaklega í einni af sínum ræðum, að það væri mjög röng kenning, að hagsmunir verkamanna og atvinnurekenda rækjust á og væru andstæðir hvorir öðrum, og að það væri hin háskalegasta villukenning, eins og öll kenningin um stéttabaráttuna. Og þegar annar hv. þm. ræddi við hann um það mál, skaut hann því fram í, að hægt væri að setja atvinnureksturinn á hausinn með of háum kaupkröfum. Skildist mér hann eiga við það, að verkamenn hefðu reynzt óbilgjarnir í sínum kröfum upp á síðkastið. Nú vil ég minna hv. 7. þm. Reykv. á það, þegar hann ræðir um þessa hluti og afstöðu Sjálfstfl., að Sjálfstfl. hefur nú síðustu 10 árin þrisvar gripið til þess að samþ. l., sem svipta verkamenn þeirra rétti viðvíkjandi kaupgjaldi, sem þeir hafa, og rétti til frjálsra samninga við atvinnurekendur. Þetta var gert 1939, 1942 og nú síðast 1947. Hefur Sjálfstfl. verið að gera þetta fyrir verkamenn? Eða hefur hann verið þar að hugsa um hagsmuni verkamanna? Og í tvö af þessum skiptum hefur hann gert þetta á einum hinum mestu uppgangstímum, sem yfir Ísland hafa komið. Sjálfstfl. hefur reynt að beita valdi til þess að skerða kaup verkamanna, á sama tíma sem auðmannastéttin á Íslandi, sem var nærri gjaldþrota fyrir stríð, hefur hrúgað saman slíkum fjármunum, að um 200 menn í Reykjavík eiga um 500 millj. kr. í skuldlausum eignum. Sem sé, þegar auðmannastéttin í Reykjavík hefur grætt meira, en nokkru sinni fyrr í sögu landsins, hefur Sjálfstfl. séð sérstaka ástæðu til þess að reyna að hindra verkamenn í því að bæta sín kjör. Og ef þessi flokkur hefði haft ráð til, þá hefði hann reynt að hindra það, að verkamenn gætu hækkað sitt kaup á stríðsárunum. Bendir þetta á, að Sjálfstfl. hafi álitið, að hagsmunir verkamanna og atvinnurekenda færu saman? Ég held, þvert á móti, að þessi flokkur hafi heldur ætlað að beita öllu því valdi, sem hann hafði yfir að ráða, og ríkisvaldinu líka, til þess að hindra verkamenn í að bæta sín kjör, þegar þjóðin loksins hafði svo miklar tekjur, að hún hafði fullkomlega efni á því að veita þeim betri kjör en áður. Ég er hræddur um, að Sjálfstfl. hafi sannað með sinni eigin framkomu, að hagsmunir þessara tveggja stétta rákust þarna hrottalega á, og að hann leit á það sem sitt hlutverk að skakka leikinn þannig, að gróði atvinnurekenda yrði meiri, en verkamenn gætu búið við jafnslæm kjör og áður. Hitt er svo annað mál, að Sjálfstfl. hefur ekki haldizt uppi að framkvæma þessa pólitík. Hann fór einmitt með stjórn í landinu, þegar gerðardómsl. voru sett, og hann fór með stjórnina í landinu, þegar þau voru aftur afnumin, þegar það sýndi sig, að verkamannastéttin í landinu var of sterk til þess, að hægt væri að beita hana slíkum tökum. Og það er kannske þess vegna, sem hv. 7. þm. Reykv. er orðinn nokkuð gleyminn á afstöðu þess flokks, sem hann fylgir, til þessara mála. Sjálfstfl. hefur kynnzt því á síðustu 6 árum sérstaklega, að verkamannastéttin á Íslandi hefur verið of sterk, til þess að hægt væri að bjóða henni þau kúgunarkjör, sem menn höfðu látið sér detta í hug, að hægt væri að fyrirskipa henni með l. Og þess vegna hefur Sjálfstfl. á þessum tíma og atvinnurekendur á þessum tíma hvað eftir annað látið undan réttmætum kröfum launþeganna. En ef þetta væri nú orðið svo fast í hv. 7. þm. Reykv., að hann tryði því, að hagsmunir verkamanna og atvinnurekenda fari saman, þá dettur mér í hug, að e. t. v. væri rétt að minna hann á, að öðruvísi var ástandið í Sjálfstfl., meðan hann hafði ekki gert sér grein fyrir því, að verkalýðurinn væri orðinn þetta sterkur. Einu sinni þurftu verkamenn í Reykjavík á þessu að halda, að Sjálfstfl. skildi, að e. t. v. væri gróði fyrir atvinnurekendur að sýna, að þeir hefðu einhverja tilfinningu fyrir þeim kjörum, sem verkamenn byggju við. Það hefur ekki verið alltaf sá tími fyrir verkamenn eins og síðustu átta árin, að þeir hafi haft tiltölulega góða atvinnu og gott kaup. Þeir hafa líka átt við það að búa áður fyrr að hafa ekki atvinnu nema þriðja hvern dag að meðaltali og að búa við lægsta kaup. Þá hafði Sjálfstfl. aðstöðu til þess að sýna sinn hugsunarhátt, hvernig hann hugsaði um það atriði, hvort hagsmunir atvinnurekenda og verkamanna færu saman, til að sýna, að hann bæri hag allra stétta fyrir brjósti, eins og sá flokkur hefur stært sig af. E. t. v. man hv. 7. þm. Reykv. ekki eftir þeim tíma. Það voru tímar, þegar verkamenn urðu að draga fram lifið af því að vinna m. a. við klakahögg, til þess að tekjur þeirra væru ekki reiknaðar sem sveitarstyrkur, og höfðu atvinnu þriðju hverja viku. Þá fékk bæjarstjórnin í Reykjavík fyrirskipun frá miðstjórn Sjálfstfl. um, að bæjarstjórnin í Reykjavík skyldi lækka kaup í atvinnubótavinnunni (klakahögginu m. a.) um einn þriðja hluta, til þess að hefja þannig launalækkunarherferð gagnvart verkamönnum. Stéttarafstaða Sjálfstfl. sýndi sig bezt þá, eins og hún hefur oft sýnt sig. Þegar verkamenn voru veikir fyrir, gekk Sjálfstfl. fram fyrir skjöldu til þess að nota sér neyð þeirra. Það er til lítils að prédika það, að Sjálfstfl. hugsi jafnt um allar stéttir. Ef hv. 7. þm. Reykv. vill betra kosningaskipulag og meira réttlæti í þessum efnum, þá er ég hræddur um, að hann verði fyrst og fremst að bera niður annars staðar. Hví ekki að athuga þau samtök, sem fésýslumenn hafa, og t. d. Eimskipafélag Íslands? Mætti ekki tryggja lýðræðið í slíkum félögum, svo að réttur minni hlutans sé ekki fyrir borð borinn? Hv. þm. veit eins vel og ég, hvernig þessu er farið hvað Eimskipafélagið snertir: Á undan hverjum aðalfundi er haldinn leynilegur aðalfundur, þar sem stærstu hluthafarnir ákveða, hverjir skuli kosnir í stjórn. Hér er því um eins konar samsærisaðferð að ræða, sem ekki er haft hátt um, þegar tryggja á þessu „óskabarni þjóðarinnar“ skattfrelsi og fríðindi. Ef taka á til athugunar samtök alþýðunnar, þá er sjálfsagt að athuga líka samtök fésýslumannanna. Það er ekki bara innan hlutafélaganna, sem ekki bólar á lýðræðisást og löngun til þess að vernda minni hlutann. Sama er að segja um verzlunarráðið og Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, þar sem þorskarnir hafa atkvæðisrétt. Það er bezt fyrir sjálfstæðismenn að byrja þar, sem þeir sjálfir ráða. Þá væri hægt að ræða við þá og taka þá alvarlega. Þá eru það atvinnurekendafélögin, en samkvæmt þessu frv. Sjálfstfl. er ekki gert ráð fyrir hlutfallskosningum í þeim, heldur aðeins í félögum launþega. Í atvinnurekendafélögunum eru það peningarnir, sem hafa atkvæðisrétt, því að hann fer eftir því, hvað atvinnurekendur borga út í vinnulaun. Þar eru það því stóratvinnurekendur, sem ráða öllu og geta sett þá minni á hausinn með vinnudeilum og síðan keypt fyrirtæki þeirra. Ætli það væri ekki vert að athuga, hvort ekki þurfi að vernda rétt minni hlutans í slíkum félögum? Hv. aðalflm., sem sagði, að lýðræðið í verkalýðsfélögunum væri skrípaleikur, ætti að taka til nánari athugunar lýðræðið í þeim félögum, sem Sjálfstfl. ræður yfir.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist á það, að þótt hann væri á móti frv., gæti komið til mála að setja frekari reglur varðandi verkalýðsfélögin. Vissulega hefðu verkalýðsfélögin áhuga á því, að margt fleira væri bundið í l. en nú er, t. d. varðandi sölu á eignum verkalýðsfélaganna. Það kynni að verða deilumál, og má ræða þetta betur, þegar séð er, hvað við er átt.

En ef lögbjóða á hlutfallskosningar í verkalýðsfélögunum, hvað þá um stjórnmálaflokkana? Vill ekki hv. 7. þm. Reykv. koma með frv. um að lögbjóða hlutfallskosningar í þeim? Í þeim er ekki allt samþ. einróma, og í Sjálfstfl. þurfti við síðustu uppstillingu til þings að beita sérstöku drengskaparbragði til þess, að Sjálfstfl. kæmi ekki fram klofinn. Einingin er ekki alger.

Það fer ekki hjá því, að menn snúist gegn því, að réttur þeirra samkv. stjskr. til að mynda með sér frjáls samtök verði takmarkaður með l. Það er líka því minni ástæða til þess að taka þetta frv. alvarlega, þar sem sjálfstæðismenn hafa ekki komið með neinar till. í þessa átt í þeim launþegasamtökum, sem þeir ráða yfir, eins og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasambandinu og í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur, sem hefur haft þá sérstöku afstöðu að halda niðri kaupi meðlima sinna. En í þeim launþegasamtökum, þar sem sjálfstæðismenn hafa haft valdið, hefur ást þeirra á lýðræðinu ekki einu sinni leitt til þess, að þeir bæru fram till. um að tryggja rétt minni hlutans, hvað þá heldur komið slíku í framkvæmd. Það virðist því ekki vera mikil alvara bak við þennan málflutning þeirra hér, og manni verður á að halda, að hann sé ekki annað en tóm hræsni. Sjálfstæðismenn vilja, að lögbundið verði, að skylt sé að hafa hlutfallskosningar í verkalýðsfélögunum, ef 20% af meðlimum þeirra óska þess. En ef 20% félagsmanna mæta á fundi og krefjast hlutfallskosninga, mundi það geta þokað slíku máli langt fram. Í Dagsbrún yrðu það um 600 manns, og það er svo stór hluti félagsmanna, að ætla má, að málið yrði samþ. En það er upplýst, að Sjálfstfl. hefur aldrei borið fram neina till. í þessa átt, þótt ætla megi, að hún yrði samþ., ef 20% meðlimanna væru henni fylgjandi. Sjálfstfl. vill ekki taka á sig þá fyrirhöfn að sannfæra verkamenn um þetta, heldur þykir þægilegra að binda þetta með l. Síðan á aðkalla á svona og svona marga niður á bæjarskrifstofur, eða niður á skrifstofu Sjálfstfl. til þess að láta þá undirskrifa kröfu um hlutfallskosningu. Ástandið verður þá svipað eins og áður, þegar menn þurftu að vera meðlimir í Óðni til þess að fá atvinnu. Flokksvald Sjálfstfl. verður svo mikið, að þeir geta beitt atvinnuþvingun til þess að fá menn til að skrifa undir, þótt þeir treysti sér ekki til að bera slíkar till. fram á fundi og berjast fyrir þeim þar. Það á m. ö. o. að reyna að skapa Sjálfstfl. þá aðstöðu, að hann geti beitt kúgunaraðferðum og „apparat“ flokksins náð áhrifum, sem það treystir sér ekki til að ná með frjálsum hætti.

Slagorðin um, að hagsmunir atvinnurekenda og verkamanna fari saman, þýðir ekki að „tromma upp“ með á Alþ., öll framkoma Sjálfstfl. hefur sýnt, að hann ber ekki hagsmuni verkalýðsins fyrir brjósti. Tilgangurinn með þessu frv. er sá sami og með gerðardómslögunum, að veikja samtök launþeganna.