17.02.1949
Neðri deild: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (3953)

98. mál, atvinna við siglingar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, að ég get fullkomlega fallizt á brtt. hv. sjútvn. og tel rétt, að þær verði samþ. En út af aths. hv. þm. Siglf. (ÁkJ) um það, að nauðsynlegt sé að endurskoða l. um menntun þessara manna, þá er það að segja, að þessi mál heyra raunar undir þrjú ráðuneyti. Mótorvélstjóranámskeið Fiskifélagsins heyra undir hæstv. sjútvmrh., vélskólinn heyrir undir hæstv. menntmrh., en veiting réttinda samkvæmt þeirri menntun, sem fæst á námskeiðunum og vélskólanum, heyrir undir mig, og bendir þetta raunar til þess, að ekki sé vanþörf á að endurskoða l. í heild, og er ég því fullkomlega samþykkur, enda var það meiningin, þegar Sjómannaskólinn var reistur, að þangað yrðu smám saman fluttar allar kennslugreinar, er sjómennsku og siglingar varða, svo sem nám skipstjóra, vélstjóra og mótorista, loftskeytamanna og síðast en ekki sízt matsveina. Nokkur undirbúningur hefur og af minni hálfu verið gerður í þessa átt varðandi matsveina- og loftskeytamannakennsluna, en vegna þess að mótorista- og vélstjórakennslan heyrir undir önnur ráðuneyti, hef ég ekki beint beitt mér fyrir þeim málum, en ég vildi gjarnan gangast fyrir endurskoðun l. og reyna að koma þessum málum í fastara form en verið hefur.

Út af 6. brtt. hv. n., um undanþáguveitinguna, er það að segja, að þessi heimild hefur ekki verið í l., en er þó ákaflega nauðsynleg, því að alltaf koma fyrir þau tilfelli, að ekki er hægt að ná í fullkomna réttindamenn og ekki heldur hægt að stöðva viðkomandi skip. Hefur því rn. veitt undanþágur án þess að hafa til þess lagaheimild, enda talið, að þá bryti nauðsyn lög. Reglurnar, sem rn. hefur farið eftir um veitingu undanþágu, eru þær, að venjulega er leitað álits stjórnar Farmanna- og fiskimannasambandsins og skólastjóra Stýrimannaskólans og að miklu leyti farið eftir ummælum þeirra aðila. Mér þykir þó tvímælalaust rétt, að undanþáguheimildin sé í l., því að það hefur komið fyrir, að báðir þessir aðilar hafa ekki viljað veita undanþáguna, en rn. hefur þó veitt hana, þar sem það hefur t. d. ekki viljað stofna dýrmætum farmi í hættu með því að tefja för skipsins. — Ég vil því vænta þess, að málið nái fram að ganga með þeim breyt., sem á því hafa verið gerðar, og skal ég leitast við að hafa samráð við þá aðra ráðh., er málið heyrir undir, og sjá, hvort ekki muni hægt að hafa tilbúnar fyrir næsta þing till. um samræmingu og endurbót þessara mála.