28.02.1949
Neðri deild: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í C-deild Alþingistíðinda. (4060)

140. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hef áður lýst skoðun minni á þessu máli og skal reyna að forðast endurtekningar: Ég vildi aðeins svara hv. þm. N-Ísf. (SB). Hann sagði undir lokin, að það væri með öllu rangt hjá hv. þm. Borgf., að hér væri um að ræða fljótfærni eða undarlegt hugarástand. En þetta er bezta og góðgjarnasta skýringin á flutningi þessa frv., sem til er, en úr því að hv. þm. vill ekki sætta sig við hana, þá hlýtur eitthvað annað — og verra — að liggja á bak við. Ég leyfi mér að efast um, að þetta sé sá stuðningur við félagsheimilasjóð, sem hv. flm. vilja vera láta. Því er haldið fram af hv. þm: N-Ísf., að það sé óviðeigandi af mér að leggja til, að frv. verði fellt við 1. umr., en ég held mig fast við það. Málið er alveg ljóst. Það liggur einfaldlega þannig fyrir, að menn verða að gera það upp við sig, hvort þeir vilja leggja skatt á menningar- og mannúðarstarfsemi til þess að byggja það, sem ég leyfði mér að kalla danshús í sveitum. Það er margt, sem þarf á opinberum stuðningi að halda. Sumir leita opinberrar aðstoðar, aðrir ekki. Ég hef lýst því, hvernig tónlistarfélagið hefur farið að. Eðlilegt væri, að svo mikilsverð menningarstarfsemi fengi opinberan styrk, en þess hefur ekki verið leitað. Tónlistarfélagið hefur aflað sinna tekna sjálft, að vísu með kvikmyndahúsarekstri, en fyrir það að forða ríkissjóði og bæjarsjóði frá því að veita því fjárstyrk á nú að verðlauna það með háum skatti. Hv. þm. N-Ísf. minntist ekki á þetta, enda hefur hann fátt haft til andsvara. En þetta er ekki af fljótfærni gert, segir hv. þm. Það er að yfirlögðu ráði, og mér þykir það mjög leitt.

Ég minntist á háskólann og vísindastarfsemina í landinu. Hún nýtur að vísu styrks úr ríkissjóði, en þarf meira fé en ríkissjóður getur af hendi látið. Til þess að afla þessa fjár hafa forsvarsmenn háskólans tekið upp bíóstarfsemi: Í staðinn fyrir að þakka fyrir það, að ríkissjóður er þannig firrtur útgjöldum, á að straffa þessa starfsemi með því að leggja á hana skatt. Er þetta nokkurt réttlæti? Á ekki að fella svona frv. við 1. umr.? — Ég vil nú minnast nokkuð frekar á tvö bíó, sem hér eru til umr., bæjarbíóin á Akranesi og í Hafnarfirði. Hagnaðurinn af þessum bíóum rennur til byggingar elliheimilis og sjúkrahúss. Það væri eðlilegt, að leitað væri styrks úr ríkissjóði handa þessari starfsemi. Það er vissulega ekki óeðlilegt, að hann styrki elliheimili, sjúkrahús, skóla og aðrar nauðsynlegar stofnanir, sem bæjarfélögin eiga erfitt með að koma fram af eigin rammleik. En í staðinn fyrir það að leita aðstoðar ríkissjóðs við byggingu elliheimilisins í Hafnarfirði, var ákveðið að hefja þessa bíóstarfsemi, til þess að láta tekjur af henni standa undir byggingunni. Í staðinn fyrir að þakka það, að viðkomandi bæjarfélög hafa reynt að forða ríkissjóði frá því að leggja fram fé í þessu skyni, þá á að straffa þá með aukaskatti fyrir það. Ég spyr aftur, hvort nokkur sanngirni sé í þessu. Svona frv. hefði aldrei átt að koma fram og er vissulega flm. þess ekki til sóma. Ég get vel gengið inn á það, að þörf sé fyrir byggingu félagsheimila og að þörf sé á því að hraða byggingu þjóðleikhússins, efla bókakaup o. fl., en það á bara ekki að taka peninga til þess á þennan hátt, eins og hér er hugsað að gera. Til þess þarf að fara aðrar tekjuöflunarleiðir. Það á ekki að gera þessa starfsemi, sem er rekin til þess að efla tónlist og vísindi og reisa sjúkrahús og elliheimili, að skattstofni fyrir þá starfsemi, sem er styrkt af skemmtanaskattinum. Í því er vissulega ekkert réttlæti.

Hv. þm. N-Ísf. varði alllöngum tíma í það að sýna fram á, hve bíórekstur væri arðvænlegur og hversu sjálfsagt það væri, að bíórekstur rekinn af bæjarfélögum skyldi vera á sama hátt skattskyldur og bíórekstur einstaklinga, og þm. komst að þeirri niðurstöðu, að skoðun mín væri ekki byggð á öðru en því, að bæjarrekstur gæti aldrei gengið nema með sérstökum fríðindum. Þetta hefur mér aldrei dottið í hug og aldrei sagt. Hitt er annað mál, að ég sé enga ástæðu til þess, að á þessa starfsemi sé lagður skattur og með því sé þeim framkvæmdum seinkað, sem á að vinna að fyrir tekjur af henni. Það er auðvitað æskilegast, að allar tekjurnar geti komið til framdráttar og gagns þeim mannúðar- og menningarmálum, sem til er stofnað með þessari starfsemi. Ég sé ekkert, sem réttlætt getur, að nokkuð af arði þeirrar starfsemi, sem hér er um að ræða, sé tekið í því skyni, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. — Ég veit það ekki, hvort rekstur þess bæjarbíós, sem ég þekki til, gengur nokkuð verr en rekstur einstaklingsbíóa undir svipuðum kringumstæðum. Ég býst ekki við því. Það hefur haft allmikinn tekjuafgang undanfarin ár. En þeim mun meiri sem tekjuafgangurinn er, því betur getur það staðið undir þeim skuldbindingum, sem það hefur tekizt á hendur, þeim mun fyrr rís af grunni byggingin, sem á að koma upp fyrir þetta fé.

Ég hef aldrei talið nokkurn vafa á því, að kvikmyndahúsarekstur væri mjög arðvænlegur, en það er út af fyrir sig ekki alveg sama, í hvaða tilgangi þessi starfsemi er rekin, hvort hún er rekin til þess að auðga einhvern einstakling og kemur þess vegna honum að notum, eins og aðrar tekjur, sem menn afla sér, eða hvort þessi rekstur er ætlaður til þess að standa straum af greiðslum vegna sérstakra mannúðar- og menningarmála. Þetta er allt annað atriði og er líka öðruvísi farið með það í skattalöggjöfinni. Líknarstofnanir eru undanþegnar skatti, jafnvel þó að þær græði. Ég veit ekki til þess, að lagður sé skattur á sjúkrahús, þó að það sé í einkaeign, eða rekstur þeirra, þó að hann gefi tekjuafgang. Álagning skatta hlýtur að miðast að mjög miklu leyti við það, bæði í þessu tilfelli, þegar um skemmtanaskattinn er að ræða, og þegar um tekjuskatt er að ræða, hvort tekjunum er varið til að auðga einstaklinga eða til að vinna gagn menningar- og mannúðarmálum. Ég vænti, að hv. þm. N-Ísf. sjái þetta og allir hv. þdm.

Hv. þm. N-Ísf. segir, að sú hlið sé ein á þessu máli, að ef ekki verði komið nógu fljótt upp félagsheimilum í sveitum, þá flytji fólkið í kaupstaðina og gerist þar, — ekki kannske algerlega óþarft, en allt að því og komi til með að vinna við eyðslustörf. Mér finnst nú, að hv. þm. taki fulldjúpt í árinni, því að vissulega eru til menn í kaupstöðum, sem vinna að framleiðslustörfum. Ef talað er um þetta út frá gjaldeyrissjónarmiðum, þá segi ég það, að ég efast um, að hlutur þeirra, sem þm. var að verja í þessu sambandi, verði miklu stærri en hlutur kaupstaðarbúa, því að það eru margir kaupstaðarbúar, sem framleiðslustörf stunda. Hinu mæli ég ekki á móti, að það er vissulega öfug þróun, að fólkið flytji úr sveitunum og þær fari í eyði. En sé það svo, að ráðið við því sé þetta, að byggja félagsheimili, þá verður að afla þeim félagsheimilum fjár annars staðar frá en ráð er fyrir gert með þessu frv. Ég skal ekki leggja neinn dóm á þetta mál hv. þm. að öðru leyti, en ég ætla, að það megi skoða frá ýmsum hliðum. Það er undir engum kringumstæðum hægt að draga þær ályktanir, að það eigi að skattleggja menningar- og mannúðarstarfsemi í kaupstöðum til þess að koma upp samkomuhúsum í sveitum. Það er algerlega óviðurkvæmilegt og óviðeigandi, svo að ég noti þm. eigin orð.

Ég þarf svo ekki að hafa um þetta mörg fleiri orð. Hv. þm. N-Ísf. sagði í upphafi máls síns, að við hv. þm. Borgf. værum að verja forréttindi og þess vegna værum við að andmæla þessu frv. Við skulum nú athuga, hvaða forréttindi það eru, sem við erum að verja. Á Akranesi og í Hafnarfirði hefur verið byrjað á byggingu elliheimilis og sjúkrahúss, og það hefur verið óskað eftir því af þessum bæjarfélögum að fá þau forréttindi að mega borga þessi hús sjálf, án þess að leita til ríkissjóðs og án þess að hann styrki þessar framkvæmdir með beinum fjárframlögum. Ef þetta eru forréttindi og þess vegna beri að skattleggja þau, þá eru þau með öðru formi en venjuleg forréttindi gerast. Við viljum hafa þau forréttindi að gera þetta sjálfir, óstuddir af ríkinu og óáreittir af því. Við viljum fá að reka áfram þá starfsemi, sem við höfum byrjað á, til þess að geta komið upp þeim byggingum, sem við höfum með höndum, án stuðnings ríkisins. Þetta er okkar ósk, en við viljum líka og jafnframt mega krefjast þess að gera það áreitnislaust af hálfu ríkisins, og það vona ég, að verði, þrátt fyrir þetta frumhlaup hv. þm. N-Ísf.