05.05.1949
Neðri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í C-deild Alþingistíðinda. (4175)

205. mál, eyðing á rottu

Frsm. (Helgi Jónasson) :

Frv. þetta er flutt eftir beiðni hæstv. menntmrh., og hefur n. fallizt á að mæla með, að það verði samþ. Lög nr. 27 12. febr. 1945, um eyðing á rottum, hafa ekki gefizt vel, og því er þetta frv. fram komið. Er hér um að ræða allmiklar breyt. frá hinum eldri lögum, sérstaklega í sambandi við undirbúning rottueyðingarinnar, sem er miklu fullkomnari hér en í hinum eldri lögum og liggur í því annars vegar að hindra, að rottan komist í sorp og annað æti, og hins vegar, að samliggjandi byggðarlög samræmi rottueyðingaraðgerðir sínar, sem að mjög óverulegu leyti hefur átt sér stað fram að þessu. — Um kostnaðinn er það að segja, að samkv. núgildandi l. borgar ríkið 1/3 kostnaðar á móti bæjar- og sveitarfélögum, en samkv. þessu frv. má það nema allt að 2/5 kostnaðar, og er það lítill munur frá því, sem áður var.

Vona ég, að frv , verði samþ. og að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr.