04.11.1948
Efri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (4197)

45. mál, skipaafgreiðsla í Vesmannaeyjum

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég flutti þetta frv. á síðasta þingi skv. ósk meiri hl. bæjarstjórnar Vestmannaeyja og flyt það nú aftur, því að þá náði það ekki fram að ganga. Það komst til 2. umr. og allshn., og n. ræddi um það, en tími vannst ekki til að afgreiða það þá, þannig að nú flyt ég það aftur svo snemma þings til þess að hafa vaðið fyrir neðan mig. Á síðasta þingi gerði ég grein fyrir efni frv., og þar sem svo skammt er liðið síðan, þarf ég ekki að hafa um það mörg orð. En það er svo í Vestmannaeyjum eins og í mörgum bæjarfélögum, að þar er skortur á tekjustofnum og bæjarfélagið í fjárþröng. Þetta á við um marga bæi, en ekki sízt Vestmannaeyjar, þar sem ráðizt hefur verið í fjárfrek fyrirtæki, svo sem hafnargerðir og dýra rafveitu o. m. fl., og hefur reynzt erfitt að standa straum af þessu. Þá hefur bæjarfélagið keypt tvo nýja togara, sem er mikið átak til að byrja með. Það hefur löngum verið vandamál, hvernig sjá ætti fátækum bæjarfélögum fyrir tekjustofnum, en það virðist liggja beint við að hagnýta tekjustofn eins og þennan, sem nú rennur til einstaklinga, og hægt er að hagnýta hann án þess að leggja auknar byrðar á almenning eða ríki, en þann rekstur, sem um ræðir í frv., hefur bæjarstjórn Vestmannaeyja tjáð sig reiðubúna til að taka að sér, og skv. ósk hennar er þetta frv. flutt, sem ég að lokum leyfi mér að óska, að verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.