01.11.1948
Sameinað þing: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (4299)

21. mál, jeppabifreiðar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan, að hann játaði hreinskilnislega, að þegar nýbyggingarráð hafði tekið við úthlutun jeppabifreiðanna, þá hefði þeim í ráðinu þótt rétt að taka upp ný sjónarmið fyrir sinni úthlutun. Þeir tóku þá reglu upp að veita ekki aðeins leyfi fyrir jeppum til bænda, heldur einnig málara, pípulagningarmanna, opinberra stofnana í kaupstöðum og opinberra starfsmanna í kaupstöðum. Nú má vel vera, að slíkt sjónarmið eigi nokkurn rétt á sér. En það er bara ekki hægt með réttlæti að úthluta þessum mönnum og þessum stofnunum í kaupstöðum af þeim jeppabifreiðum, sem búið var að lýsa yfir fyrir þjóðinni, m. a. í blöðum, að væru fluttar inn sem landbúnaðartæki til landsins, því að það eru bein brigðmæli við þá, sem búið var að lýsa yfir, að ættu að fá bifreiðarnar. Og ef úthlutað er jeppabifreiðum eftir öðrum forsendum eða reglum, en látið var í veðri vaka gagnvart þjóðinni, að gert mundi verða, þá sé ég ekki, að hægt sé að réttlæta með því það, að úthlutun á þessum bifreiðum var tekin úr höndum Búnaðarfél. Íslands, ef það hefur verið til þess að úthluta t. d. læknum þessum bifreiðum, þó að þeir hafi vissulega þörf góðra farartækja.

Hæstv. ráðh. sagði, að erfitt væri að fyrirbyggja, að þessi tæki væru seld úr sveitunum, þó að þau væru komin þangað, og sagði, að þessir jeppar hefðu verið orðnir þeirra eigin eign, sem áttu þá í sveitunum, en seldu þá þaðan. En mér skilst þó, að þeir séu ekki skilyrðislaus eign þessara manna, heldur aðeins með því móti, að þeir ekki förguðu þeim. Og það er auðveldara að fylgjast með eignaskiptum á bifreiðum en öðrum hlutum, vegna þess að þær eru skrásett eign. Því tel ég, að þessi farartæki, sem seld hafa verið úr sveitunum, eigi að komast í eigu bænda á ný, þar sem skilyrði fyrir leyfunum á kaupum á jeppunum í sveitirnar hafa verið brotin í þeim tilfellum. En það virðist ekki vera áhugi fyrir því hjá hæstv., ráðh. eða hv. fyrrv. nýbyggingarráðsmönnum. Ég taldi, að 80 menn hefðu leyfi fyrir jeppum í sveitunum, sem ekki hafa fengið þá, en hæstv. ráðh. segir, að þessi leyfi séu 94, og það er sjálfsagt það rétta í málinu. En það er ekki svo að heyra, að neinum renni til rifja, að ekki hefur verið staðið við þessi leyfi á undanförnum árum. Og sumir þeirra, sem búnir eru að fá þessi leyfi, eru líka búnir að borga þessa jeppa til heildsala. (PZ: Kringum 80 eru búnir að borga þá). Nú er upplýst, að þeir séu 80 talsins. Mér finnst, að það opinbera eigi að gera gangskör að því, að þeir, sem búnir eru að fá þessi leyfi og borga þessar jeppabifreiðar að mestu eða öllu leyti, þeir eigi að fá þessi farartæki og ganga fyrir um það. Ég trúi því ekki, að gjaldeyrisástandið sé svo bágborið og siðferðisvitund yfirvaldanna í þessum efnum sé svo sljó, að þeir sjái ekki, að það ber að innleysa þessi leyfi og láta uppfyllingu þeirra ganga fyrir öðrum innflutningi á bifreiðum.

Hæstv. ráðh. upplýsti líka, að þegar Hekla gaus, hafi verið ákveðið, að bændum á eldgosasvæðinu væri ætluð leyfi fyrir 50 af þessum bifreiðum, sem var hátíðlegt loforð á raunastundu sem tekið var sem góður boðskapur. En hæstv. fjmrh. upplýsti, að 50% af þessu góða loforði hefði verið svikið, og ekki var að heyra, að það ætti heldur að reyna að standa við það hér eftir. Enn eru ekki nema 25 af þessum jeppum komnir til úthlutunar til þessara manna. Þetta er orðheldni hinna íslenzku stjórnarvalda í þessu efni. Þetta er hiklaust upplýst. En það er ekki látið fylgja neitt loforð um, að úr þessu verði bætt.

Mér kom það ekkert á óvart, er hæstv. fjmrh. upplýsti, að til væri skrá yfir leyfisveitingar nýbyggingarráðs. Og ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég tel sjálfsagt, að áður en við látum því lokið að rífast um það, hvernig úthlutun nýbyggingarráðs hafi farið úr hendi, þá fáum við þm. afrit af þessari skrá yfir úthlutunina. Og ég mun halda mig við það að heimta að fá hana fram. — Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um ræðu hæstv. fjmrh. Ég vil aðeins vona, að ráðstafanir verði gerðar til þess, að þeir, sem fyrir löngu fengu leyfi veitt fyrir og að langmestu leyti hafa borgað þessar jeppabifreiðar, fái leyfin afgreidd og fái þannig andvirði sinna peninga. Ég vil enn fremur, að rannsakað sé, hve mikil brögð eru að því, að sett skilyrði um, að jepparnir væru sem landbúnaðartæki í sveitum landsins, hafa verið haldin, eða réttara sagt, að hve miklu leyti þau skilyrði hafa verið að vettugi virt og brotin.

Hv. þm. N-Ísf., sem nú virðist ekki vera í sæti sinu, lét svo, að hann væri of góður til þess að eiga orðastað við mig, af því að ég hefði ekki tekið efnislega afstöðu til málsins. Það er rangt hjá honum, að ég hafi ekki gert það. Ég er með því, að þessi nauðsynlegu tæki verði flutt inn og að orðið verði við þeim óskum, sem fram hafa komið, að till. verkfærakaupanefndar verði teknar til greina, en ekki till. hv. þm. N-Ísf, og hans fylgifiska, sem skemmra gengur. En það var heldur ekki ástæðan til þess, að þessi hv. þm. vildi ekki svara miklu af því, sem ég sagði í minni ræðu. Hitt var það, sem var umfram það, sem ég átti von á hjá honum, að hann hafði svolitla sómatilfinningu. Þegar hann lýsti yfir, að hinn gljáfægður bíll hefði verið fluttur inn í hans kjördæmi, þá fann hann, að hann hafði ekki góðan málstað að verja. Og þegar hann í öðru lagi hafði lýst því, hve hneykslaður hann væri yfir því, að langmestur hluti þeirra bíla, sem þjóðin ætti, væri í Reykjavík og gerði þar ekkert annað gagn en að eyða benzíni — og að hann átti einn slíkan bíl, sem fluttur var inn, eftir að nýbyggingarráð hafði stöðvað jeppainnflutning til landsins, þá gat þessi hv. þm. ekki haldið áfram að ræða um þetta og vildi finna ástæðu til að hætta og sveigja málið á aðra braut. Þessi hv. þm. veit um þær siðgæðiskröfur, sem gera ber til þeirra manna, sem standa að afgreiðslu þessara og annarra opinberra mála. Og hann hefur brotið af sér í því efni með því að nota þingmannsaðstöðu sína til þess að eignast einn gljáfægðan bíl, á sama tíma sem bændum er neitað um svo nauðsynleg verkfæri sem jepparnir eru. Hvað haldið þið, hv. þm., að gert hefði verið við slíkan þingmann í þingræðislandinu Englandi, ef slíkt hefði komið fyrir þar? Hann mundi hafa verið fordæmdur í Englandi. Og hann ætti eins að vera fordæmdur í þingræðislandinu Íslandi.