25.01.1949
Sameinað þing: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (4307)

21. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að láta það koma fram hér, að ég tel, að með samþykkt þessarar þáltill. sé gengið inn á mjög varasama og hæpna braut. Fjárhagsráði hefur með sérstökum l. verið falið að gera áætlun um innflutning landsmanna. Það þarf að taka tillit til margra hluta, til eins og annars. Fjárhagsráð hefur setið undanfarið við sitt verk og lokið fyrir sitt leyti og ætlað þar ákveðna upphæð í þessu skyni eins og til margs annars. Það er að vísu ekki endanlega gengið frá þessari áætlun, en þó endanlega frá hálfu fjárhagsráðs, og sú áætlun liggur hjá ríkisstj. til endanlegrar samþykktar. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir, að það verði fluttir inn jeppar, en talsvert miklu færri, en hér er gert ráð fyrir, en þó svo að hundruðum skiptir og ég þori að segja eins margir og fjárhagsráð að mjög athuguðu máli treysti sér til að koma fyrir innan þess ramma, sem það þurfti að vinna. Það vitaskuld verður að taka tillit til fleiri þarfa en innflutnings þessara mjög svo nauðsynlegu tækja. Ég sé, að hér er eftir á dagskránni önnur þáltill., um innflutning á landbúnaðarvélum, að vísu ekki eins ákveðið orðuð og þessi, en þó mjög ákveðin að vissu leyti. Ef til vill verður haldið svona áfram með ýmsar vörutegundir. Við skulum gera ráð fyrir till. um innflutning á ýmsum nauðsynlegum tækjum, t. d. heimilistækjum, þvottavélum, rafmagnsvélum og ísskápum og öðrum fleiri, sem mjög margir í landinu hafa þörf fyrir og sannarlega væri æskilegt, að hægt væri að flytja inn. Ég geri ráð fyrir, að mikill meiri hluti hv. þm. sé því fylgjandi, að þessar vörur væru fluttar inn, kannske meira en innflutningsáætlunin gerir ráð fyrir. En ef það á að vera verk Alþ. að gera innflutningsáætlun svona í einstökum greinum með því að taka einn og einn lið út af fyrir sig, þá er ég hræddur um, að heildarútkoman verði önnur, en menn hafa ætlað í fyrstu og kannske þannig, að illmögulegt verði við að ráða. Auk þess vil ég benda á, að innflutningurinn, ef ég man rétt, er eitthvað í kringum 400–500 jeppar, eins og gert er ráð fyrir á innflutningsáætlun fjárhagsráðs, svo að það má telja hann sambærilegan við annað, sem flutt er inn, og ég tel, að við mætti una, sérstaklega eins og gjaldeyrisástæðurnar eru nú og víst er, að verður á næstunni. Það er rétt, að það komi einnig fram nú, að innan tíðar eigum við ekki fleiri dollara til kaupa á vörum frá Ameríku, og það hefur orðið að spara innflutning þaðan á síðustu vikum miklu meir en æskilegt er til þess að afa eitthvað til brýnustu þarfa. Þetta kemur af því, að innflutningur þangað á íslenzkum framleiðsluvörum hefur heldur dregizt saman og óvíst um á þessu stigi að minnsta kosti, í hvaða formi sú aðstoð, sem Marshall-hjálpin gerir ráð fyrir, verði veitt. Svo það er ekki hægt annað, á þessu stigi málsins a. m. k., en að fara varlega í að úthluta leyfum í dollurum. Það hefur að vísu komið hér fram hjá hv. frsm., að það mætti ef til vill fá þessi tæki annars staðar frá, og það er rétt, það eru möguleikar fyrir því, en þó eru á því ýmsir agnúar. Ráðuneytið hefur nokkuð kynnt sér málið og athugað. Ég tel það þess vegna ákaflega óæskilegt, að það yrði gerð um þetta sérstök samþykkt hér á Alþ. Ég tel, að slíkt gæti skapað fordæmi, sem opnaði leið til annarra tilsvarandi samþykkta á öðrum vörutegundum og stefndi að því að vera enn óvarkárari, en við í raun og veru höfum efni á að vera.

Nefndin, sem hefur haft þetta mál til athugunar, hefur ekki leitað álits ríkisstj. um málið, og ég vissi ekki heldur, að það væri komið á þetta stig og það ætti að koma fyrir í dag, en annars hefði ég gjarnan viljað óska eftir því að fá að greina n. frá því, hvað fjárhagsráð hefur lagt til og hvernig gjaldeyrisútlitið er, því að hvort tveggja þetta teldi ég, að hefði átt að leggjast til grundvallar við afgreiðslu málsins. Ég vil sem sagt eindregið vara við því að samþ. þessa till.